Fannar Snær er búinn að fá sig fullsaddan á getuleysinu

Fannar Snær bregður á leik.
Fannar Snær bregður á leik.

Fannar Snær Danélsson, vörubílstjóri og virkur í athugasemdnum, hafði samband við Dreifarann nú þegar tæp vika er liðin af Vetrar-Olympíuleikunum í PyeongChang í Suður-Kóreu. Fannari var mikið niðri fyrir þegar hann tjáði sig um frammistöðu Íslands: „Við erum bara eins og eymingjar í þessum vetrar hérna íþróttum, þetta er bara til háborinnar skammar, þetta... já þetta getuleysi. Við ættum vitaskuld, sjáðu til, að vera langbest þarna suður frá, já eða í það minnsta samkeppnishæf. Þetta er bara óskiljanlegt og í raun, sjáðu til, hreinasta óhæfa.“

En nú er þetta nú bara svona Fannar, hvað heldurðu að við getum gert til að ná betri árangri? „Ég veit það nú ekki en jú, sjáðu til. Þarf ekki að keppa í greinum þar sem við erum sannarlega betri en aðrir? Ég held það já, ég held nefnilega að það væri alveg upplagt. Algjör snilld, eins og krakkarnir segja.“

Já, þú segir nokkuð. „Þessi skíðaganga er til dæmis ekki að henta okkur, í hvert sinn sem þetta lið er búið að smyrja skíðin, núnú, sjáðu til, þá er snjórinn bara fokinn út í veður og vind. Það væri nær að keppa í umhleypingum; þar reynir bæði á andlegt og líkamlegt atgervi.“

En hvað með Alpagreinarnar? „Þær ætti náttúrulega bara að banna og það strax. Af hverju að hygla, sjáðu til, þeim löndum sem eiga land að Ölpunum umfram önnur. Nei, þýskararnir eru búnir að komast of lengi upp með að hafa þessa Ólympíuleika alveg nákvæmlega eftir sínu höfði. Þetta er bara [...] bull!

Ertu búinn að hugsa þetta eitthvað lengra, Fannar? „Já. Jájá. Það er ekki laust við það. Ég hef verið að velta fyrir mér íþróttagreinum þar sem við værum að keppa á jafnréttisgrundvelli, jafnvel að við stæðum þar öðrum framar, sökum aðstæðna hér uppi á Fróni sko. Ég nefndi áðan umhleypingar...“

Hver ætti að keppa í þeirri grein? „Það er nú nógur efniviður á Veðurstofunni, bæði í kven- og karlaflokki sýnist mér. Prýðisfólk alveg en hefur ekki nokkra stjórn á veðrinu.“

Jú. Ertu með fleiri greinar á takteinunum? „Nú skaflalosun og fólksbílafestun. Þá væri semsagt keppt í hveru fljótt er hægt að losa bíl úr skafli og síðan hversu langt er hægt að keyra litlum fólksbíl inn í skafl. Þetta væru mjög sjónvarpsvænar íþróttir, eitthvað annað en krulla og listdans á skautum sem ég get ekki ímyndað mér að nokkur nenni að horfa á. Nú, sjáðu til. Svo erum við með grein sem byggir á leikni og væri alveg pottþétt skemmtileg áhorfs, en það væri hérna hálkuganga á flatbotna, sem færi þá fram á ósléttu og afar hálu svæði. Við Íslendingar ættum að vera þar fremstir meðal jafningja. Þarna væri hægt að keppa í sprettgöngu og 5 km og 10 km göngu. Það eru margir Íslendingar sprækir í þessu sporti eftir að hafa komið sér heim af þorrablótum, nú eða bara úr skólanum.“

Já, láttu þetta koma Fannar, eitthvað fleira? „Já blessaður vertu. Það væri hægt að keppa í norðan áhlaupi, nú nefrennsli er þjóðarsport. Af hverju er ekki keppt í því þarna niðri? Ha? Svo hafa þeir fyrir austan fjall hafa verið liðtækir í björgunarsveitahindrunarakstri og viðvörunarmerkjasvigi. Á ég að nefna fleiri greinar?“ 

Þetta er ansi gott hjá þér. En segðu mér, hvernig fer fram keppni í... hvað sagðirðu aftur... já, í nefrennsli? „Ja, ég verð nú að viðurkenna að ég er hérna ekki alveg búinn að leggja það, sjáðu til, svona niður fyrir mér. En allar hugmyndir eru hérna vel þegnar.“

- - - - -

Athugið! Lesendum Feykis.is er velkomið að setja hér að neðan fram fleiri hugmyndir að vetraríþróttagreinum sem gætu hentað okkur Íslendingum og jafnvel að koma með reglur varðandi keppni í nefrennsli.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir