Ekki sáttur við þessa svokölluðu veðurfræðinga
Þórarinn Skaptason er mikið fyrir útiveru og fjallgöngur og hefur víða ratað, stundum jafnvel fengið á baukinn hjá óblíðum náttúruöflunum. Einu sinni hefur björgunarsveit verið kölluð til leitar en þá lenti Þórarinn í mikilli þoku þegar hann gekk til rjúpna. Þórarinn er glæðvær maður og seinþreyttur til leiðinda. Í samtali við Dreifarann viðurkenndi hann þó að ein stétt manna ætti ekki upp á pallborðið hjá honum; nefnilega veðurfræðingar.
Hvað er þetta með veðurfræðingana Þórarinn? -Ég veit það nú ekki, en geta þessir menn talist einhverjir fræðingar, ha?
Þú verður að útskýra þetta betur, hvað er með veðurfræðingana? -Ja það er nú það. Þú hefur kannski ekki tekið eftir því en alltaf öðru hverju eru þeir að spá vitlausu veðri?
Jú, það kemur fyrir. -Já? Já gott, gott. Og finnst þér það eðlilegt?
Það er nú ekkert við því að gera Þórarinn. -Ekkert við því að gera? Þú segir nokkuð. Mér finnst það nú ekki bera vott um fagmennsku að spá vitlausu veðri. Hvernig á ég að geta undirbúið mig fyrir lengri eða styttri ferðalög ef þessir menn, já og konur, eru vitandi vits að spá vitlausu veðri. Þetta er svo óábyrgt sjáðu til.
Bíddu Þórarinn, ég er ekki alveg að skilja þig. -Jú jú, þetta er einfalt. Þeir, þessir menn, já og konur, þeir sjá alveg á þessum gervitunglamyndum sínum að veðrið verður vont næstu daga, en þá vísvitandi, vitandi vits, taka þeir upp á því að spá vitlausu veðri. Það er þetta, þetta vitlausa veður sem þeir eru að spá, sem mér finnst svo óábyrgt. Fólk er að tínast á fjöllum, æðir út í buskann í brjáluðu veðri af því að spáin er vitlaus. Ég meina, af hverju spá veðurFRÆÐINGARnir ekki bara réttu veðri?
Eh. Ekki hefurðu farið með þetta eitthvað lengra Þórarinn? -Jú, það er ég sko búinn að gera, en það er bara hlegið að manni. Það svíður undan þessu skal ég segja þér. Ég er búinn að tala við hann þarna Veðurstofustjórann og þingmanninn hann hérna, hann... ja, það er nú alveg stolið úr mér hvað hann heitir, en hann er í Framsóknarflokknum.
Hvað gerði hann? -Hann sló nú bara hressilega á bakið á mér og sagði: Góður! Ég veit það nú ekki, en ég er nú bara alvarlega að íhuga að kjósa hann ekkert næst.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.