Brandarakarl bregst ókvæða við
Páll F. Ockarr sveitapóstur var í vinnunni á dögunum og kom við í kaffistofu í Hofsósi en vildi í samtali við Dreifarann ekki segja hvaða kaffistofu. –Það kemur engum við hverjir voru þarna en mér finnst rétt að fólk viti að það er oft vanþakklátt starf að vera sveitapóstur.
Hvað gerðist Palli? –Nú ég stoppaði þarna aðeins augnablik og þáði smá kaffidreitil, enda orðinn lúinn eftir allan aksturinn. Eins og svo oft var tekið upp gleðihjal og ég hérna ákvað að segja brandarann um hestinn og blöndunginn.
Og hvað gerðist? –Það hló enginn að brandaranum. Mér fannst það ókurteisi og vandræðalegt.
Hvernig er þessi brandari? – Hann var svona: Bíll stoppar á þjóðveginum og vill ekki aftur í gang. Bílstjórinn opnar vélarhlífina og horfir ráðalaus í vélasalinn. Skyndilega heyrir hann greinilega sagt: Það er í blöndungnum. Hann lítur í kringum sig en þar er engan að sjá. Hann telur að hann hafi misheyrt og skoðar vélina betur. Enn heyrir hann að sagt er greinilega: Það er í blöndungnum! Hann lítur strax upp en sér ekkert kvikt nema gráan hest sem stendur þar nærri og horfir á hann. Bílstjórinn sér að hann ræður ekki fram úr þessu og fer heim á næsta bæ til að fá hjálp. Í samtali hans við bóndann segir hann hérna að svo undarlega hafi borið við að honum hafi heyrst einhver vera með ráðleggingar við sig en enginn verið nærri nema eitt hross í haga. Bóndinn segir þá: Heyrðu, var það grái hesturinn? Bílstjórinn játar því. Þú skalt ekkert hirða um það sem hann segir, segir bóndinn. Hann hefur ekkert vit á bílum.
Jahá. –Finnst þér þetta ekki fyndið?
Nei, ekkert sérstaklega Palli minn. –Einmitt það vinur, það hefur kannski ekki hvarflað að þér að þú hafir ekkert vit á því hvað er fyndið og ekki fyndið? Ég held að þú ættir ekkert að vera skipta þér að mínum málum. Vertu sæll og blessaður.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.