Alræmdur svindlari á ferð í Skagafirði
Fréttir hafa undanfarið borist af alræmdum svindlara á ferð í Skagafirði. Mun hann vera íslenskur, en hefur búið erlendis undanfarin ár. Maður þessi kom m.a. við í Varmahlíðarskóla beint úr rútinni að sunnan, þar sem hann svindlaði í Ólsen Ólsen við nemendur þar og fór svo inn á kennarastofu og svindlaði þar í Rommí.
Á Sauðárkróki svindlaði hann sér inn í bíó og þar á eftir inn á fund hjá Lonsklúbbnum. Þá fór hann í Ljósheima og greip þar í spil með öldruðum, en var staðinn að því að svindla í vistinni og var vísað út.
Þá hélt hann í fjölbrautaskólann þar sem hann svindlaði sér inn í skólastofu til að taka próf en svindlaði svo á prófinu það gróflega að honum var vísað úr skólanum, þrátt fyrir að hafa aldrei verið þar skráður nemandi.
Á pókermóti sem haldið var á Sauðárkróki komst upp um kappann þegar hann vann á hina mjög svo sjaldgæfu hönd fimm ása!
Að sögn lögreglunnar eru mál sem þessi afar sjaldgæf og búast má við því slóð mannsins eigi eftir að lengjast eftir því sem fleiri sögur berist af svindlathæfi hans. Skv heimildum Dreifarans hefur maðurinn einnig svindlað á bótakerfi almannatrygginga og jafnvel í Júróvisjónkosningum um árabil. Þá tók hann þátt í spurningkeppni á pöbb í Reykjavík á dögunum og varð þar uppvís að svindli þar sem hann drakk tvo sopa af bjór við hverja vitlausa spurningu, en átti bara að taka einn. Þurfti að bera hann út.
Fólk er hér með beðið um að hafa varann á sér.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.