Vilt þú að húsnæðislánið þitt verði lækkað um 45%?
Þessi spurning er ekki út í hött. Þetta er hægt án þess að það kosti mikið. Galdrar, sjóhverfingar eða bölvuð vitleysa? Nei, það er til fjármálatækni, sem gerir þetta að veruleika. Hægri grænir, flokkur fólksins, hefur í yfir tvö undanfarin ár gert lausn á skuldavanda heimilanna að forgangsmáli sínu. Aðrir aðilar, eru sem betur fer loksins farnir að ranka við sér og fjalla um þetta, en hafa samt ekki lausnina. Ég vona að þú, lesandi góður, skiljir þetta því þetta er afar mikilvægt fyrir þig og fjölskyldu þína.
Hver er lausnin?
Seðlabankinn þarf að stofna sérstakan sjóð innan sinna eigin veggja, sem að myndi kaupa öll fasteignabréf fólks af lánastofnunum og skuldbreyta þeim þannig að gefin yrðu út ný skuldabréf með höfuðstól eins og skuldin hefði verið án verðtryggingarinnar. Bréfin yrðu á föstum óverðtryggðum vöxtum til langs tíma, jafnvel til allt að 70 ára, til þess að fólk gæti stillt greiðslubyrðina við getu sína. Sjóðurinn innheimti síðan þessi nýju bréf, en það er búið að reikna það út að það tæki sjóðinn aðeins um 9 ár að ná jafnvægi og eftir það færi hann í hagnað, sem rynni til ríkissjóðs. Það næst með því að Seðlabankinn lánaði þessum eigin sjóði sínum á 0.01% vöxtum, en innheimti 7,65% óverðtryggða vexti, sem eru vextir með vaxtaálagi á lengstu óverðtryggðum ríkisskuldabréfum til 31 árs og vaxtamunurinn mun þá gera þetta kleift. Lánardrottnunum yrði svo borgað út öll gömlu bréfin og fengju þeir þannig allt sitt til baka, en þyrftu að geyma féð í Seðlabankanum með bindiskyldu, sem mylgraði þeim síðan smám saman út samkvæmt peningastefnu sinni.
Um allt að 45% niðurfærsla
Það fer eftir því hvenær viðkomandi lán var tekið, en með því að taka verðtrygginguna á lánunum af og miða við 1. nóvember, 2007, þegar MiFID lögin um ólögmæti verðtryggingarinnar á neyslulánum einstaklinga voru samþykkt, þá yrði lækkunin á húsnæðislánunum um 45%, en hlutfallslega minni ef lánin voru tekin síðar. Hægri grænir ætlar að setja á neyðarlög og koma þessu á um leið og flokkurinn kemst til áhrifa.
Ekki nýtt, þaulreynd aðferð sem gengur upp
Bandaríkjamenn fóru þessa leið til þess að bjarga húsnæðisjóðum sínum þegar kreppan skall á. Hún skilaði sér fullkomlega, svo hér er ekki verið að finna upp hjólið á ný. En margir spyrja, hvaðan kemur féð? Svarið er einfalt. Það er búið til í Seðlabankanum, en hann einn hefur myntsláttuvaldið og heimildir til slíkra sértækra fjármálagjörninga og fyrir hann verður þetta aðeins eins konar innri bókhaldsaðgerð. Ríkissjóður leggur ekkert fram og allir fá sitt.
Refsum þeim, sem brugðust
Verðtryggingin hefur verið ólögleg á neyslulánum til almennings síðan Alþingi samþykkti MiFID reglugerðina sem lög 01.11.2007, eins og áður sagði. Samt hafa ríkisstjórnir ekkert gert til þess að fara eftir lögum landsins, heldur staðið fast að baki lánastofnunum og fjármagnseigendum, sem hafa blóðmjólkað almenning. Og það furðulega er, að stjórnarandstaðan hefur heldur ekkert gert og hefur engar lausnir enn til þess að hjálpa fólki. Það þarf því að kjósa XG, Hægri græna sterkt í vor til þess að leiðréttingin verði framkvæmd og refsa þeim í leiðinni, sem hafa látið það viðgangast að níðst sé á fólki
Kjartan Örn Kjartansson
Höfundur er varaformaður Hægri grænna
og í 1. sæti listans í Reykjavík norður
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.