Verðtrygginguna burt – leiðréttum stökkbreytt lán

Lausnum framsóknarmanna á skuldum heimilanna og verðtryggingaróværunni má gróflega skipta í þrennt:

LEIÐRÉTTING LÁNA
Verðtrygging neytendalána getur ekki haldið áfram með sama hætti og verið hefur. Fjáramálastofnanir hafa haft mikinn hag af verðtryggingunni og grætt milljarða á hækkun hennar í boði íslenskra heimila. Framsóknarmenn samþykktu á flokksþingi sínu ályktun vegna skulda heimilanna. Varðliðar verðtryggingarinnar reyna nú að gera framsóknarmenn ótrúverðuga með því að halda því fram að framsóknarmenn hafi lofað því að afnema verðtrygginguna afturvirkt.

Vilhjálmur Birgisson verkalýðsforingi á Akranesi lýsir þessu ágætlega á fésbókarsíðu sinni: „Djöfull eru margir orðnir hræddir við Framsóknarflokkinn í ljósi þess að þeir mælast nú vel í öllum skoðunarkönnunum. Málið er að það vita allir að ekki er hægt að afnema verðtrygginguna afturvirkt og ég hef aldrei heyrt neinn lofa því.“

Vegna ýmissa atriða verður verðtrygging ekki afnumin að fullu afturvirkt nema hún verði dæmd ólögleg en Verkalýðsfélag Akraess er einmitt með mál í gangi er varðar lögmæti verðtryggingar. Það er hins vegar ekkert sem bannar að lán heimilanna verði leiðrétt, það er bæði rétt og sanngjarnt.

Framsóknarmenn hafa barist allt frá árinu 2009 fyrir því að stökkbreytt verðtryggð lán verði leiðrétt vegna þess forsendubrests sem átti sér stað í fjármálahruninu. Á flokksþingi samþykktum við:

„Framsóknarflokkurinn vill að stökkbreytt verðtryggð húsnæðislán verði leiðrétt. Framsóknarflokkurinn hefur lagt fram ítarlegar tillögur til lausnar skuldavanda heimila. Afstaða Framsóknarflokksins er eindregið sú að ekkert geti réttlætt að lánþegar verðtryggðra húsnæðislána sitji einir uppi með afleiðingar þess að lánin stökkbreyttust af völdum efnahagshruns.“

Það að leiðrétta lánin er forsenda þess að heimilin geti aftur orðið virkur þátttakandi í efnahagslífi landsins. Hvernig getum við fjármagnað leiðréttingu lána? T.d. er hægt að nota hluta af þeim fjármunum sem vogunarsjóðir eiga í landinu, til þess þarf vilja og þor. Önnur leið væri að skattleggja hagnað fjármálastofnana og þriðja leiðin væri að blanda þessu saman ásamt því að lífeyrissjóðir og ríkissjóður leggðu til fé. Þetta er allt hægt ef viljinn er fyrir hendi.

AFNÁM VERÐTRYGGINGAR

„Framsóknarflokkurinn vill að verðtrygging á neytendalánum verði afnumin. Lagt er til að skipaður verði starfshópur sérfræðinga er hafi það verkefni að útfæra afnám verðtryggingar nýrra neytendalána. Þessari vinnu verði lokið fyrir árslok 2013.“

Við ætlum að afnema verðtrygginguna á nýjum neytendalánum og beita leiðréttingunni á þau eldri. Við höfum kynnst því sl. 4 ár að verðtryggingin á slíka vini og varðmenn t.d. í Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu, að þeir svífast einskis til að verja hana. Ástæðan er vitanlega sú að margir hafa mikinn fjárhagslegan hag af verðtryggingunni meðan heimilunum blæðir. Okkar niðurstaða er því sú að afnámið verður ekki gert nema með rökstuddum, útfærðum tillögum og til þess viljum við fá sérfræðinga innlenda og erlenda sem EKKI hafa nein tengsl við varðliða verðtryggingarinnar á Íslandi.

ÞAK Á VERÐTRYGGINGU

En það þarf að grípa til fleiri aðgerða en leiðréttingar. Við höfum lagt fram frumvarp þar sem m.a. er lagt til að þak t.d. 4% verði sett á verðtrygginguna sem þýðir að fari verðbólgan umfram það sé áhættan lánveitandans. Þá leggjum við til að fjármálastofnunum verði bannað að eiga nema ákv. magn verðtryggðra lána. þetta er mikilvægt til að koma í veg fyrir að þær hafi hag af því að hafa verðbólgu háa. Í þriðja lagi leggjum við til að opinberir aðilar hætti að tengja gjaldahækkanir við vísitölu. Það er óeðlilegt að hækkun á bensíni eða áfengi hækki húsnæðislánin. Ýmislegt fleira leggjum við til í frumvarpinu en þetta eru helstu atriðin.

Til að leiðrétta lánin, afnema verðtryggingu neytendalána og setja þak á vísitöluna þarf vilja og þor. Við munum ekki láta útúrsnúninga eða villandi fréttaflutning draga úr okkur kjarkinn. Við sýndum staðfestu fyrir 20% leiðinni og Icesave og munum sýna það áfram.

Gunnar Bragi Sveinsson, formaður þingflokks framsóknarmanna

Skipar 1. sæti á lista Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir