Verbúðalíf á Höfnum á Skaga :: Byggðasafnspistill

Yfirlitsmynd af Höfnum og Kaldrana.
Yfirlitsmynd af Höfnum og Kaldrana.

Nýverið fengu Byggðasafn Skagfirðinga og Fornleifastofnun Íslands ses. styrk úr fornminjasjóði til áframhaldandi fornleifarannsókna á verbúðaminjum á Höfnum á Skaga sumarið 2023. Útver voru á Höfnum og munu löngum hafa verið hin stærstu í Húnavatnssýslu en útræði lagðist þar af í lok 19. aldar.

Forsagan að verkefninu er í stuttu máli sú að árið 2021 fékk minjavörður Norðurlands vestra tilkynningu um að mannvistarleifar sæjust í sjávarbakka við Rekavatnsós og að gripir væru að týnast úr rofinu. Í framhaldinu var gerð könnun á staðnum og síðsumars 2022 gerðu undirritaðar frekari rannsóknir, bæði á landbroti og minjum á Höfnum. Frumniðurstöður þessara rannsókna sýna að útræði hefur verið frá Höfnum fyrir árið 1104, jafnvel allt frá landnámi. Fáar rannsóknir hafa verið gerðar á strandminjum frá þessum tíma og þess því að vænta að niðurstöður rannsóknarinnar bæti við þá vitneskju sem við höfum um fiskveiðar Íslendinga á fyrstu öldum.

Minjarnar

Mynd 2: Meðfram sjávarbakkanum, austast á Hjallanesi, eru einu naustin
(neðst á mynd) sem voru skráð  á Höfnum og nokkrar sjóbúðatóftir.
Sjórinn hefur þegar brotið af þessum minjum.
Ljósmynd: Lísabet Guðmundsdóttir. 

Árið 2008 skráði fornleifadeild Byggðasafns Skagfirðinga rúmlega eitt hundrað minjar meðfram strandlínu Hafna. Flestar þeirra tengjast sjósókn (s.s. verbúðir, naust og hjallar) en þar er einnig að finna landbúnaðarminjar, s.s. stekki og beitarhús, og á Rifsnesi var sjálfstæð jörð til forna sem nefndist Rif. Þar eru m.a. bæjarhóll og túngarður. Sumarið 2023 verður unnið í fjórar vikur við vettvangsrannsóknir á Höfnum og að þessu sinni verður áhersla lögð á að rannsaka minjar á Hafnabúðum, þ.e. svæðinu frá Rekavatnsósi að Kólkunesi, en þar er víða mikið landbrot.

Lendingar voru góðar á Höfnum og Rifi. Þar var nægt landrými, stutt á miðin og því kjöraðstæður til útræðis. Þrjú ver voru á Höfnum, stundum nefnd Hafnabúðir einu nafni. Hinar eiginlegu Hafnabúðir voru austastar af verunum, u.þ.b. á svæðinu frá Rekavatnsósi að Kólkunesi. Nokkru vestar voru Piltabúðir og enn vestar Rifsbúðir eða Rifið á Rifsnesi. Einnig eru verbúðaminjar í Innri-Þrándarvík sem hugsanlega hafa talist til Rifsbúða. Á öllum þremur stöðunum er fjöldi minja sem vitna um umfangsmikla útgerð.

Mynd 3: Lísabet Guðmundsdóttir fornleifafræðingur situr á minjahól sem sjórinn hefur rofið á Piltabúðum.
Í sniðinu sjást tvöfaldar vegghleðslur (örlítið snaraðar til vinstri). Aðeins bláendi tóftanna er eftir en sjórinn
hefur þegar rofið í burtu stærstan hluta minjanna. Þarna hefur verið byggt aftur og aftur á sama stað og því
verður þessi hólmyndun. Elstu minjarnar í þessu sniði eru frá því eftir 1104 en líklega fyrir 1600.
Ljósmynd: Lísabet Guðmundsdóttir.

Eitt af því sem vekur áhuga undirritaðra er líf fólksins í verinu, en fjöldi manns hefur verið þarna saman kominn á meðan á vertíð stóð. Fornleifarannsóknir geta m.a. gefið okkur vísbendingar um húsakost og fæðu þeirra sem sóttu verin. Fundur á hvalbeinsgripum og hvalbeinsspæni árið 2022 segir okkur að einhverjir hafa unnið hvalbeinsgripi í verinu, en enn er óvíst hvort sú vinna var aðallega í hjáverkum eða hvort þarna var sérhæfð vinnsla. Í ár verða gerðar DNA greiningar á hvalbeinum sem vonandi geta gefið okkur vísbendingar um aldur og hvalategundir.

Mynd 4: Sumarið 2023 verður áhersla lögð á að rannsaka minjar á Hjallanesi.
Þar eru bæði búðatóftir og naust. Haustið 2022 voru hreinsuð snið í
sjávarbakkann (merkt með rauðu) bæði á Hjallanesi og Hólbúðarhól.
Einnig voru teknir borkjarnar á Hólbúðarhól og má sjá frumniðurstöður
þeirrar rannsóknar á myndinni. 

Ritaðar heimildir, einkum frá seinni tíð, gefa okkur einnig innsýn í verbúðalífið. Til dægradvalar voru stundaðir leikir, og er fjöldi slíkra þekktur, en einnig voru stundaðar glímur og aflraunir og er þess getið í heimildum að sérstök steinatök (misstórir/þungir steinar) hafi verið á Piltabúðum á Skaga en ekki er vitað hvort þeir höfðu sérstök nöfn (sjá bókina Vermannaleikir í útgáfu Byggðasafns Húnvetninga og Strandamanna, 2003). Þessir steinar fundust ekki við vettvangsskráningu en mikið er af grjóti á Piltabúðum. Nokkrar þjóðsögur eru til frá Hafnabúðum og í þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar (2. bindi, bls. 132) er m.a. að finna áhugaverða frásögn af samskiptum sjómanna á Rifi og í Piltabúðum sem gefur til kynna að ekki hafi alltaf farið vel á með vermönnum.

Mynd 5: Á hólnum fyrir miðri mynd var töluverður fjöldi búða sem sjórinn
hefur rofið og aðeins eru eftir endar tóftanna. Gera má ráð fyrir að minnsta
kosti helmingur hólsins sé horfinn. Ljósmynd: Lísabet Guðmundsdóttir

„Mitt á milli Hafnabúða og Tjarnar er tangi fram í sjóinn sem kallaður er Rifið. Þar voru í fyrri tíð búðir og sjómenn margir; en mitt á milli Rifsins og Hafnabúða stóðu Piltabúðir. Þangað völdust jafnan vöskustu menn og klæddu sig aldrei skinnklæðum og kölluðu það lítilmennsku að „skríða undir sauðarnárann“. Rifsmönnum lék öfund á sjómönnum í Piltabúðum og áttust þeir oft illt við, en að lokum fóru Rifsmenn á Piltabúðir einn góðan veðurdag er piltar voru ekki heima og söguðu allar árar næstum í sundur undir skautum og negldu svo skautana yfir aftur. Daginn eftir réru piltar og gerði stinningskalda um daginn og óveður af landi. Komu þeir eigi að um kvöldið og spurðist eigi til þeirra framar. Þar sem Piltabúðir voru sjást nú stórar grjóthrúgur og steinar svo stórir að engir menn nú á tímum mundu geta við þá fengist.“

@Bryndís Zoëga, Lísabet Guðmundsdóttir og Lilja Laufey Davíðsdóttir

Áður birst í 14. tbl.  Feykis 2023

Tengd grein: Hafnir á Skaga – verbúðarminjar og landbrot af völdum sjávar

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir