Úrslit Vísnasamkeppni Safnahússins á Sæluviku 2023

Gunnar Rögnvaldsson fer yfir innsenda botna og vísur í Vísnakeppni Safnahúss Skagfirðinga á setningu Sæluviku 2023 en hann er tekinn við umsjón keppninnar. Mynd: PF.
Gunnar Rögnvaldsson fer yfir innsenda botna og vísur í Vísnakeppni Safnahúss Skagfirðinga á setningu Sæluviku 2023 en hann er tekinn við umsjón keppninnar. Mynd: PF.

Við setningu Sæluviku Skagfirðinga þann 30. apríl voru úrslit í vísnasamkeppni Sæluvikunnar gerð heyrinkunnug en höfundar glímdu við að botna nokkra fyrriparta og einnig yrkja um tíðar sólalandaferðir íslendinga, skoðun Seðlabankastjóra á þeim og afleiðingar að hans mati. Þátttaka var mikil og góð en alls sendu 16 höfundar inn vísur, sumir botnuðu allt, aðrir sumt, og einhverjir sendu inn marga botna við sama fyrripartinn.

Höfundar fyrriparta að þessu sinni voru Ingólfur Ómar Ármannsson frá Sauðárkróki, Sigrún Lárusdóttir frá Neðra Nesi og Gunnar Rögnvaldsson. Margar góðar vísur komu upp úr umslögunum, allar undir dulnefnum. Var dómnefndinni, sem skipuð var Sigríði Garðarsdóttur Miðhúsum, Bjarna Maronssyni Varmahlíð og Gunnari Rögnvaldssyni verulegur vandi á höndum að skera úr um með besta kveðskapinn.

Niðurstaðan var þó sú að bestu sólarlandavísuna ætti Kjarval, en á bak við hann leyndist Guðmundur Sveinsson.

Sólin vermir, ljúft er líf,
leti- það er málið.
Tásumynd frá Tenerife
tendrar vaxtabálið.

Besti botninn þótti á hinn bóginn koma frá Sólargeisla sem heitir réttu nafni Guðmundur Guðlaugsson.

Léttist brúnin laus við þref
legg á stað til fjalla.
Þó að ca. þúsund skref
þurfi á tinda alla.

Öllum þátttakendum er þakkað fyrir góð viðbrögð og kveðskapinn og sigurvegarar munu fá sendar viðurkenningar frá Safnahúsinu.
Frekari umfjöllun mun birtast innan tíðar í Feyki.
/GR

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir