Unnið með öfugum klónum

Þegar hin nýju frumvörp ríkisstjórnarinnar voru kynnt á blaðamannafundi þann 26. mars sl. gullu við gamalkunn ummæli forsætis og sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra. Þetta er grundvöllur að mikilli og góðri sátt um fiskveiðistjórnunina, sögðu ráðherrarnir.

Einmitt það. Þetta heyrðum við líka í fyrra þegar nýtt sjávarútvegsfrumvarp var lagt fram. Um örlög þess þarf ekki að fjölyrða. Það fékk hraklega útreið hjá öllum umsagnaraðilum. Þeir sem áður lofuðu það og prísuðu lögðu á harða flótta frá afurð sinni og létu svo veslings Jón Bjarnason þáverandi sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra sitja uppi með Svarta Pétur. Vantaði þó ekki að málið nyti í upphafi mikils stuðnings stjórnarliða. Fjórir ráðherrar komu að því að skrifa frumvarpið með eigin hendi. Auk þáverandi sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra, núverandi sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra, velferðarráðherrann og forsætisráðherrann sjálfur. Með í því ráðslagi voru líka einir sex þingmenn stjórnarflokkanna. Alls því  tíu þingmenn stjórnarflokkanna. Betur gátu þau víst ekki gert þá.

Ekki orð um hagkvæmni

Nú er hafið nýtt vers. Hið nýja frumvarp er komið fram og eru þá liðin um þrjú ár frá ríkisstjórnarmyndun núverandi stjórnarflokka.

Þegar málið var kynnt lagði forsætisráðherra áherslu á eitt og annað sem hún taldi til framfara horfa. Það vekur auðvitað hroll að  ekki var með einu orði vikið að því að þetta yrði til þess að efla sjávarútveginn, bæta rekstrarafkomuna, stuðla að hagræðingu  eða hagkvæmni. Það var greinilega aukaatriði og kannski ekki einu sinni það. Má þá sennilega álykta að enn séu menn við það heygarðhornið sem fyrrverandi sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra tók sér stöðu við, þegar hann sagði nóg að gert í slíku og svigrúm væri til þess að láta hagræðinguna ganga til baka!

Fjárfestingarstigið við alkul - áfram

Öllum er ljóst að margt bjátar á í samfélagi okkar. Meðal þess er að fjárfesting, einkum atvinnulífsins, er í algjöru lágmarki. Allir eru sammála um að þetta þarf að breytast. Úr ríkisstjórninni höfum við heyrt ákall til atvinnulífsins um auknar fjárfestingar. Við vitum líka að það hefur nánast ríkt alkul þegar kemur að fjárfestingum í sjávarútvegi, vegna þeirrar pólitísku óvissu sem umlukið hefur greinina. Síðustu þrjú ár hafa þannig verið ár hinna glötuðu tækifæra í greininni. Má færa að því rök að við höfum orðið af 60 milljarðar fjárfestingum á þessum tíma, bara í sjávarútveginum. Það hefði þó heldur betur munað um slíkar fjárfestingar til atvinnusköpunar, einkanlega á landsbyggðinni.

Flestir bjuggust við að með nýju sjávarútvegsfrumvarpi  yrði þessu frosti aflétt. Því er þó ekki að heilsa. Það er samdóma álit þeirra sem skoðað hafa frumvarpið að það muni enn viðhalda núverandi aðstæðum. Enn virðumst við þurfa að búa við ár glataðra tækifæra. Og hverjir skyldu fagna því? Jú auðvitað þeir sem við keppum við á erlendum mörkuðum. Þeir sjá enn fram á tímabil, þar sem þeir geta haldið áfram, með öflugum stuðningi stjórnvalda sinna ríkja, að fjárfesta í nýrri tækni og markaðsstarfi. Við sitjum eftir í súpunni.

Enginn þekkir heildarmyndina

Það er yfirleitt háttur hygginna manna að reyna að læra af reynslunni. Og hvaða lærdóm áttum við að draga af því sem sett var fram á síðasta ári  í frumvarpsformi um breytingar á fiskveiðilöggjöfinni? Jú, einmitt það að skoða málin til hlítar, átta sig á afleiðingunum. Í fyrsta lagi auðvitað fyrir þjóðarbúið sjálft, fyrir atvinnugreinina sem við á að búa og einstaka þætti hennar. Skoða ennfremur áhrifin á einstök landsvæði, hvort frumvarpið næði yfirlýstum markmiðum um skynsamlega auðlindanýtingu, nýliðun, fjárfestingu og annað það sem máli skiptir. Það var ekki gert þá; fyrr en eftir á.

Og nú er fetuð sama slóðin. Frumvarp er smíðað. Þegar það er fullbúið eru tveir sérfræðingar beðnir um álit. Þeir gera margháttaðar og alvarlega athugasemdir, en frumvarpinu er ekki breytt til þess að sníða af því þá annmarka. Það er líkt og menn kæri sig kollótta.

Í dag er heildarmyndin óljós. Smám saman er hún þó að skýrast. Fyrirtæki í sjávarútvegi veikjast. Verst verða áhrifin til að byrja með á þá sem veikast standa, þar með talað einyrkjana og nýliðana. Áform um fjárfestingar hafa þegar verið lögð á hilluna.  Ljóst er að frumvarpið, verði það að lögum, muni stuðla að verri kjörum sjómanna og um annað sgtarfsfólk mun væntanlega gegna sama máli. Enginn veit hvernig þetta virkar á einstök útgerðarform, ekki hvernig einstök byggðarlög eða landssvæði verða úti, eða yfirhöfuð á þjóðhagsleg áhrif þess, samkvæmt tölulegu mati.

Dæmisaga af Orkuveitu Reykjavíkur

Við vitum þó að samkvæmt tölum fjármálaráðuneytisins, á helmingur framlegðar sjávarútvegsins skv. frumvarpinu að fara í ríkissjóð. Aðrir nefna miklu hærri tölur.

Nýlega skilaði fyrirtæki sem nýtir auðlindir þjóðarinnar, Orkuveita Reykjavíkur, ársuppgjöri fyrir síðasta ár. EBITDA  þess fyrirtækis ( framlegðin) var ríflega 21 milljarður króna. Er einhver að ræða um að hirða helming hennar, 10 til 11 milljarða í ríkissjóð? Ekki nokkur sála, engum dettur það í hug. Menn vita að það hefði niðurdrepandi áhrif á rekstur fyrirtækisins og myndi bitna á þeim sem kaupa af því orkuna og starfsmönnum þess. En þegar kemur að sjávarútveginum þá virðist það hins vegar sjálfsagt mál. Þá heitir það að færa arðinn til þjóðarinnar.

Vegið að þorskveiðifyrirtækjunum

Við sjáum líka glitta í sömu tilhneiginguna og fyrr. Sérstaklega á að vega að þorskveiðiútgerðunum, sem eru hlutfallslega þýðingarmestar á landssvæðum sem hafa búið við mjög knappa byggðarlega varnarstöðu. Þessar útgerðir tóku á sig mikla aflaskerðingu sem var framkvæmd til þess að byggja upp þorskstofninn. Nú sjáum við afrakstur þess. Þorskstofninn virðist á blússandi uppleið en þá fá þessar útgerðir ekki að njóta uppsveiflunnar nema að hluta. Þetta veikir þessar útgerðir og drepur niður þá miklu nýliðun sem orðið hefur, meðal annars í smábátaflotanum. Er þó eitt helsta yfirlýsta markmið frumvarpanna að stuðla að nýliðun í sjávarútvegi. Hana á þá að framkvæma þannig að fella fyrst þá nýliða sem nú eru búnir að koma sér fyrir í sjávarútveginum, fyrir einhverja aðra nýliða!

Þetta er auðvitað alveg makalaust.

Mikil vinna framundan

Framundan er mikil vinna við að rýna þessi frumvörp. Skoða áhrifin og afleiðingar þeirra. Það hefðu menn auðvitað átt að gera samhliða smíði þeirra. Því er þó ekki að heilsa. Verði stjórnvöldum að ósk sinni, verður sett ný löggjöf sem felur í sér miklar breytingar kannski þremur mánuðum fyrir ætlaða gildistöku þeirra, í september. Um aðlögun og umþóttunartíma verður því ekki að ræða.

 

Einar Kristinn Guðfinnsson, alþingismaður

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir