Undarlegt upphlaup sveitarstjórnarmanna – málefnaleg umræða?

Á síðasta fundi sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Skagafjarðar voru teknir fyrir viðaukar við fjárhagsáætlun fyrir árið 2013. Voru þeir tilkomnir vegna aukakostnaðar sem lagst hefur á sveitarfélagið annars vegar vegna samninga við Eyjaflug um áætlunarflug til Sauðárkróks og hins vegar vegna framkvæmda við Strandveg, en Vegagerðin ákvað nú á miðju ári að ráðast í að færa legu Strandvegarins til þess horfs sem gert er ráð fyrir í aðalskipulagi Sveitarfélagsins Skagafjarðar.

Færsla Strandvegarins hefur verið í umræðunni lengi en með þeim áfanga sem nú á að ráðast í verður loks lokið þeirri breytingu á legu Strandvegar sem hafist var handa við fyrir 10 árum síðan, eða árið 2003. Með breytingunni verður öryggi vegfarenda jafnframt aukið til muna en nokkur slys hafa orðið á núverandi vegstæði sem liggur þétt upp við lóðir húsa við Aðalgötu á Sauðárkróki. Um brýnt framfaramál er að ræða.

Sveitarstjórn hefur allan þennan tíma þrýst á Vegagerð og innanríkisráðuneyti að klára málið en ekki hlotið náð fyrir augum Vegagerðarinnar fyrr en nú. Hluti af kostnaði við færslu Strandvegarins lendir á Sveitarfélaginu. Það hefur legið fyrir frá upphafi og ætti að vera  öllum sem að málinu hafa komið ljóst, þ.m.t. núverandi sveitarstjórnarmönnum í Sveitarfélaginu Skagafirði, þar sem málið hefur ítrekað verið tekið upp á hinum ýmsu fundum með fulltrúum löggjafar- og framkvæmdavalds, þ.m.t. á árlegum fundum með þingmönnum Norðvesturkjördæmis og fjárlaganefnd Alþingis. Sömuleiðis hefur legið ljóst fyrir að gera þyrfti viðauka við fjárhagsáætlun sveitarfélagsins hvenær svo sem Vegagerðin féllist á að fara í framkvæmdina, enda þau áform því miður ekki legið fyrir við framkvæmda- og fjárhagsáætlanagerð liðinna ára, t.d. þegar framkvæmdaráætlun og fjárhagsáætlun ársins 2013 var samþykkt í sveitarstjórn í árslok 2012. Vissulega er þetta einkar óheppilegt fyrirkomulag en gott dæmi um oft á tíðum ankannalega hlutverkaskiptingu milli stjórnsýslustiganna tveggja, þar sem sveitarfélögin eru því miður alltof oft í þeirri stöðu að vera stillt upp við vegg af ríkisvaldinu.

Bæði þessi mál hafa verið rædd í byggðarráði og sveitarstjórn og hafa engar athugasemdir komið fram við afgreiðslu þeirra þar. Því kom það undirrituðum á óvart þegar fulltrúi frjálslyndra í sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar, Sigurjón Þórðarson, ákvað að sitja hjá við afgreiðslu á þessum viðaukum á síðasta fundi sveitarstjórnar. Ástæða hjásetu Sigurjóns kom fram við umræðu um viðauka við fjárhagsáætlun 2013 vegna framkvæmda við breytingu á legu Strandvegar, en Sigurjón hélt því fram að upplýsingar hefðu ekki fengist um áætlaða skuldastöðu sveitarfélagsins í árslok þessa árs. Á fundinum var Sigurjóni bent á að leggja saman áætlaða skuldastöðu í fjárhagsáætlun fyrir árið 2013 og þá viðauka sem sveitarstjórn hefur samþykkt á árinu 2013 og eru í gögnum allra sveitarstjórnamanna og einnig aðgengilegir í fundargerðum  á heimasíðu sveitarfélagsins. Engum gögnum hefur verið haldið frá sveitarstjórnarmönnum varðandi skuldastöðu sveitarfélagsins eða nýjar lántökur og útreikningar um áætlaða skuldastöðu mjög einfaldir. Einnig fá byggðarráðsfulltrúar  með reglubundnum hætti upplýsingar úr rekstri sveitarfélagsins og stofnana þess, og yfirlit yfir hvernig rekstraráætlun stenst. Rétt er að benda á í þessu sambandi að í ársreikningum sveitarfélagsins fyrir bæði árið 2011 og árið 2012 sést að skuldir hafa verið greiddar niður umfram lántökur. Ný lán eru þannig ekki tekin að þarflausu heldur eftir mat manna á nauðsyn tilefnis lántökunnar.

Undirrituðum lá forvitni á að vita hvort þessi hjáseta fulltrúa frjálslyndra hefði eitthvað með efnislega afstöðu hans til málanna að gera, hvort eitthvað hefði breyst hvað það varðar og spurði því:

„hvort þessi ágæti fulltrúi sé þá hreinlega á móti þessari framkvæmd . Ef hann er ekki á móti henni þá myndi ég gjarnan vilja fá fram hjá honum með hvað hætti hann myndi vilja fjármagna hana.“

Ekki komu fram skýr svör frá fulltrúa frjálslyndra við spurningunni en í kjölfarið á andsvari hans kom í ræðustól fulltrúi Samfylkingarinnar, Þorsteinn Tómas Broddason, og fór mikinn og undraðist að undirritaður hafi gerst svo kræfur að spyrja spurningar um afstöðu fulltrúar frjálslyndra til málsins. Sami fulltrúi fór einnig mikinn í grein í Feyki og á Bylgjunni daginn eftir.

Í grein Þorsteins í Feyki segir m.a.: „ ef þú vogar þér að efast um ágæti stjórnsýslunnar, þá ertu á móti framkvæmdum og framförum. Og hér var sveitarstjórnarmaðurinn ekki einu sinni að efast um framkvæmdina sjálfa, heldur fjármögnunina á henni.“

Þetta eru einmitt lykilatriði málsins. Þar sem undirritaður hefur ekki skilið sveitarstjórnarfulltrúa frjálslyndra öðruvísi hingað til en að hann sé mjög meðmæltur framkvæmdinni – og ekki hefur eðli málsins samkvæmt, eins og hér hefur komið fram, verið hægt að tímasetja hana eða gera ráð fyrir í fjárhagsáætlunum sveitarfélagsins – hvernig hyggur sveitarstjórnarfulltrúinn að hægt sé að fjármagna hana öðruvísi en með lántöku og samþykkja viðauka við fjárhagsáætlun þessa árs? Sé sveitarstjórnarfulltrúinn meðmæltur framkvæmdinni en á móti lántöku, þá hlýtur maður að vænta tillagna frá honum um frestun annarra framkvæmda eða enn frekari hagræðingaraðgerða en nú þegar hefur verið gripið til. Annað er óábyrgt og marklaust hjal.

Við þessari spurningu minni á sveitarstjórnarfundinum fengust engin svör, hvorki frá fulltrúa frjálslyndra né fulltrúa Samfylkingarinnar, sem þó hafði mörg orð um málið.

Eins og ég hef rakið hér að framan hefur allan tímann verið samstaða um þessi tvö mál og kom því afstaða fulltrúa frjálslyndra á óvart. Ekki síður upphlaup fulltrúa Samfylkingarinnar sem hefur verið óþreytandi að tala um mikilvægi gegnsærrar stjórnsýslu og gerðar viðauka við þær framkvæmdir sem fara umfram fjárhagsáætlun.

Ætlun mín á sveitarstjórnarfundinum var einfaldlega að spyrja um afstöðu til málanna. Það getur ekki verið óeðlilegt eða óæskileg krafa að þeir fulltrúar sem kjörnir eru til setu í sveitarstjórnum geti tjáð afstöðu sína til þeirra mála sem rædd eru hverju sinni í sveitarstjórn. Ef afstaða sveitarstjórnarfulltrúa er óljós hljótum við sem í óvissu erum að eiga rétt á skýrari svörum – hvort sem um fulltrúa í meirihluta eða minnihluta sveitarstjórnar er að ræða.

Stefán Vagn Stefánsson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir