Tilkynning frá körfuknattleiksdeild Tindastóls
Nú er fallinn dómur áfrýjunardómstóls KKÍ í máli okkar Tindastólsmanna gegn Haukum og má segja að niðurstaðan sé gríðarleg vonbrigði enda trúðum við alltaf að dómstólar myndu átta sig á hversu gölluð reglugerð KKÍ um fjölda erlendra leikmanna er. Því miður hafa dómstólar KKÍ lokið málinu.
Jafnframt viljum við koma okkar rökum í málsvörninni á framfæri enda teljum við að það sé almennur vilji í körfuknattleikshreyfingunni til að laga þessa gölluðu reglu að þeirri hugmynd sem er að baki hennar, að íslenskir leikmenn fái a.m.k. ákveðið magn af þeim mínútum sem leiknar eru í hverjum leik og það vita það allir að Tindastóll braut það ekki. Enginn íslenskur leikmaður missti sekúndu í þessu meinta broti.
Helsta málsvörn Tindastóls hefur verið að sýna fram á óskýrleika reglugerðarinnar því hún tekur ekki á hugmyndinni sem varð til þess að hún var sett.
Í reglugerðinni stendur eftirfarandi:
Í úrvalsdeild karla og kvenna gildir eftirfarandi:
• Á leikvelli hverju sinni má mest vera einn leikmaður í hvoru liði sem ekki er ríkisborgari EES ríkis.
• Á leikvelli hverju sinni mega mest vera tveir Bosman A leikmenn með erlent vegabréf í hvoru liði, eða mest þrír ef enginn leikmaður utan EES er á leikvelli innan liðs.
Í bikarkeppni og meistarakeppni KKÍ gilda sömu reglur og í úrvalsdeild.
Það er því skilgreining á hvað það þýðir að leikmaður hafi verið á leikvelli sem þetta mál snýst um og þar verður málið loðið að okkar mati, ekki síst þegar maður fer að stúdera leikreglur í körfuknattleik. Hvað þýðir það að leikmaður sé á leikvelli. Það er vissulega hvergi skýrt í leikreglum en það er á nokkrum stöðum greinar sem þarf að skoða og má kannski hugsa sér þetta í þremur skrefum.
Fyrst er það við skiptingu, í leikreglum stendur að varamaður verði leikmaður og leikmaður varamaður þegar dómari flautar og gefur merki um skiptingu. Það er öllum ljóst hvaða varamaður verður leikmaður en hvergi er skilgreint hvaða leikmaður verður varamaður. Það er því ekki öruggt að það verði ljóst strax hvaða leikmaður er orðinn varamaður. Í þessu tilviki sem kært er var varamaður greinilega ekki viss um hver ætti að koma út af. Íslenskur leikmaður sem var næst og spilar sömu stöðu og sá sem var að koma inná taldi sig eiga að fara út af og dómarar kláruðu skiptinguna þannig. Þarna voru sannarlega komnir 4 útlendingar orðnir leikmenn en spurning hvort það þýði að þeir séu á leikvelli. Klukkan hefur ekki gengið og enginn Íslendingur tapað leiksekúndu.
Svo er næst að vítaskyttu er afhentur boltinn og við það verður boltinn lifandi skv leikreglum. Rétt áður hafði þjálfari Tindastóls fattað að mistök höfðu verið gerð og biður um leikhlé og ritaraborð flautar eftir að vítaskytta hefur fengið boltann og dómarar líta framhjá því hljóðmerki því tilgangur þess að bolti sé lifandi er að þá má ritaraborð ekki trufla leikinn. Vítaskyttan hittir úr vítinu, það má reikna með að ef hann hefði klikkað hefði hann fengið nýtt víti þar sem flaut frá ritaraborði hefði verið talið hafa truflað. Þá hefði opnast gluggi til að framkvæma leikhlé Tindastóls og skiptingin hefði farið fram. Vítaskyttan hittir svo úr seinna vítinu og Tindastóll fær sitt leikhlé. Í dómi aganefndar er talað um að tilviljun hafi ráðið að leikmaðurinn hitti úr seinna vítinu og að Tindastóll fékk leikhléið til að leiðrétta áður en leikklukkan gekk. Það sýnir vankunnáttu á leiknum hjá nefndinni að tala um þetta sem tilviljun og nota það sem rök í málinu, það er jafnmikil tilviljun að vítaskyttan hitti úr fyrra vítinu sem varð til þess að leikhlésglugginn opnaðist ekki áður en lögleg víti voru tekin. Hér gekk klukkan ekkert heldur, enginn Íslendingur tapaði leiksekúndu.
Aganefnd notar það að boltinn sé lifandi sem rök fyrir að leikmaður hafi verið á leikvelli. Við sjáum ekki að það sé nokkur munur hvort bolti sé lifandi eða ekki, þ.e. að varamaður sé orðinn leikmaður því klukkan hefur aldrei gengið. Einhverjir hafa nefnt að það að boltinn sé lifandi þýði að þá megi dæma t.d. tæknivillu á leikmann en það er rangt, það er staðan leikmaður/varamaður og öfugt sem stýrir því. Lifandi eða dauður bolti þýðir ekkert annað en að ritaraborði er óheimilt að trufla leik á meðan bolti er lifandi.
Þriðja staðan er að klukkan hafi gengið og þar erum við sammála um að leikmaður sé vissulega á leikvelli og brot á hugmyndinni um að vernda íslenskar leikmínútur hefur verið brotin.
Eins og við segjum þá getum við ekki skilið að lifandi eða dauður bolti geti haft svona mikil áhrif á það hvort hægt sé að túlka að leikmaður sé á leikvelli eða ekki og ef menn vilja að reglan sé svona þá má benda á að í leikreglum stendur að þegar “interval” er í leik þá eru allir sem eru á leikskýrslu taldir leikmenn. Þetta svokallaða interval er hugtak í leikreglum sem notað er fyrir pásur á milli leikhluta og raunar líka síðustu 20 mínútur fyrir leik. Það má því segja að öll lið sem eru með fleir en 3 erlenda leikmenn brjóta þessa reglu í upphitun 20 mínútum fyrir leik
Í dómi aganefndar kemur fram að þeir hafa leitað álits dómaranefndar KKÍ um hvort þeir telji að lifandi bolti þýði að leikmaður sé á leikvelli. Okkur þykir miður að sjá að sú nefnd sem ber ábyrgð á dómaramálum á Íslandi gaumgæfi leikreglur ekki betur en svo að hún skoði ekkert þau atriði sem við höfum nefnt hér að ofan eða aðrar leikreglur sem við nefnum hér á eftir. Fyrir utan að það er sérstakt að þessi nefnd sem í sitja þrír einstaklingar, einn sem situr í stjórn KKÍ, þar sem reglugerðin er skrifuð og samþykkt og því væntanlega að fara að leita allra leiða til að verja hana, og svo tveir aðrir einstaklingar sem báðir hafa sleppt því að dæma hjá Haukum sem dómarar vegan tengsla sinna við félagið skuli ekki vísa málinu frá sér vegna vanhæfis. Í okkar vörnum hvöttum við dómstóla til að fá fleiri álit á þessari reglu, t.d. alþjóðlega dómaraleiðbeinendur Íslands og eins hefði nefndin getað leitað álits erlendis hjá sérfræðingum sem stúdera leikreglur daginn út og daginn inn. Það er allavega þannig að allir þeir sem við höfum rætt við og þekkja leikreglur vel sjá ekki hvernig þessi reglugerð getur verið skýr, allra síst þegar menn tengja þetta við leikreglur.
En aganefnd valdi eins og fyrr segir að hlusta á álit dómaranefndar og velja að lifandi bolti væri lykilhugtak í þessum dómi. Það leyfir okkur enn frekar að nýta leikreglur FIBA í þessu máli, ekki bara horfa á lögfræði.
Í leikreglum FIBA er að finna reglu sem má kalla hagnaðarreglu, dómurum ber í öllu að skoða atvik eftir því hvort menn eru að græða á þeim og eins hvort þeir séu augljóslega að svindla. Sem dæmi þurfa dómarar ekki að dæma tæknivillu ef lið er með 6 leikmenn inn á þó leikreglurnar segi annað. Það virðast allir sammála um að það er augljóst að Tindastóll var ekki að reyna að svindla við þessa skiptingu í leiknum við Hauka.
Í dómi aganefndar stendur að reglan sé skýr en því erum við ósammál eins og kemur fram að ofan. Eins teljum við að refsingin fyrir brot gangi ekki upp. Eins og stendur í reglugerðinni tapar það lið sem brýtur af sér 20-0, við spyrjum hvað gerist ef bæði lið brjóta regluna. Tapa bæði liðin 20-0? Það er svo spurning hvort 250 þús kr sekt sé mikið fyrir lið sem brýtur regluna af greinilegum ásetningi og vilja, kannski ekki en hún er mjög há fyrir lið sem gerði þetta augljóslega af engum ásetningi eða vilja. Smá rannsókn hefur sýnt okkur að sambærileg regla er í gangi í öðrum löndum og þar er tæknivilla alltaf refsingin og stundum þannig að þjálfari andstæðinga þarf að benda á brotið til að hægt sé að dæma á það.
Svo má velta fyrir sér hvað gerist ef sambærilegt atvik gerist í oddaleik í úrslitum þar sem er fullt hús og bein útsending og mikill áhugi. Þetta gerist í fyrsta leikhluta. Er þá einhver tilgangur fyrir liðin að klára leikinn, hann mun enda 20-0. Það væri sannarlega vont fyrir ímynd körfuboltans ef það kæmi upp. Jafnvel verra en orð þjálfara sem á dögunum var dæmdur í eins leiks bann fyrir að skaða ímynd körfuboltans í viðtali.
Það sem hryggir okkur mest í þessu máli er að það virtist enginn áhugi vera hjá forystu KKÍ að leysa málið farsællega fyrir hreyfinguna, taka af skarið og aðlaga regluna að því sem hún er samin til og láta málið niður falla. Til þess fékk forystan mörg tækifæri.
Fyrir hönd KKD Tindastóls
Dagur Þór Baldvinsson
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.