Til þeirra er málið varðar
Við undirritaðar skorum hér með á stjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar að hlutast til um að sundlaugin á Hofsósi hafi lengri daglegan opnunartíma. Við sjáum veruleg tækifæri í því að lengja opnunartímann, bæði fyrir íbúana á staðnum en ekki síður fyrir hinn mjög svo vaxandi fjölda ferðamanna sem leggur hingað leið sína, eða nemur hér staðar á leið sinni annað, enda hefur orðspor laugarinnar, m.a. vegna glæsileika borist víða.
Þessa urðum við sérstaklega varar um síðustu páska þegar fjöldi fólks dvaldi hér um hátíðina, en einnig mjög margir sem sóttu t.a.m. á skíðasvæðin á Siglufirði, Ólafsfirði og Dalvík kom hingað, ætlaði sér í sund, en kom að lokuðum dyrum.
Á Skírdag var opnun frá kl17:15 til 20:15, og mun fjöldi gesta á þessum tíma liggja fyrir í tölvukerfi Frístundasviðs, en að mati starfsfólks laugarinnar voru gestir um 200 á þessum stutta tíma.
Á annan Páskadag var opnunartími sá sami, en þeir dvalargestir sem hér voru og vildu bregða sér í laug áður en lagt var af stað heimleiðis áttu þess ekki kost, enda langt að fara fyrir flesta.
Starfsfólk sundlaugarinnar hefur þurft t.d. um helgar að biðja gesti að fara úr laug á miðjum degi þegar veður er gott, skjólgott á bakkanum, fólk í fríi, en einnig að vísa fólki frá vegna þessa stutta opnunartíma.
Af þessu er greinilegt að þörfin er mikil og því er þessi áskorun komin fram, - um lengri opnunartíma. Þá má ætla að veruleg fjölgun gesta létti á rekstri þessarar heilsulindar.
Síðastliðið sumar var opnunartími styttur frá því að vera kl. 7:00 árdegis í það að vera frá kl.9:00 árdegis til verulegs óhagræðis fyrir þann hóp fólks sem vill hefja daginn með góðri sundferð. Nú höfum við séð upplýsingar frá Frístundasviði um að opnunin eigi að vera frá kl.10:30 árdegis og finnst okkur það algerlega ótækt. Búið er að taka út fastan, nokkuð fjölmennan hóp sem áður kom snemma og nýtti tíman vel áður en örtröðin hófst.
Okkar ósk er að sundlaugin verði opin frá kl. 9:00 árdegis til kl 21:00 alla daga vikunnar, til að mæta þörf íbúanna hér og úr nærumhverfinu, en ekki síður þeirra fjölmörgu sem eru hér á ferð á tímabilinu frá byrjun maí til loka september.
Við bendum á mikla aukningu t.d. þeirra Akureyringa sem leggja leið sína um Héðinsfjörð, inn Skagafjörð og um Öxnadalsheiði heim, en fjölmargir slíkir komu hér við á síðasta sumri og skruppu í sund á miðjum hring.
Við búum að því, að hafa hér nýlegan og glæsilegan sundstað, sem unnið hefur til verðlauna fyrir hönnun, og er talinn einn fegursti og best hannaði sund og heilsustaður landsins. Einmitt þess vegna finnst okkur fráleitt að nýta ekki þessa perlu í annars stórbrotnu umhverfi Skagafjarðar.
Virðingarfyllst og með fyrirfram þökkum
Emma Sif Björnsdóttir
Guðrún Halldóra Þorvaldsdóttir
Lína Dögg Halldórsdóttir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.