Til höfuðs íbúum í dreifbýli Skagafjarðar - Högni Elfar Gylfason skrifar
Fyrir skemmstu tók sveitarstjórn Skagafjarðar þá ákvörðun að fækka kjördeildum í Skagafirði úr átta í þrjár. Þannig munu hér eftir allir íbúar í firðinum sem kjósa til sveitarstjórnar, alþingis, í forsetakosningum eða öðrum þjóðaratkvæðagreiðslum þurfa að skunda á þessa þrjá staði sem upp á verður boðið.
Eflaust þykir einhverjum slík ákvörðun léttvæg, en um það eru skiptar skoðanir. En hver skyldi nú vera ástæða þess að farið var í þessa vegferð hjá sveitarstjórnarfulltrúum í Skagafirði? Það hefur komið fram að ekki snérist gjörningurinn um kostnað eða allavega ekki sveitarfélagsins því það hefur komið út í plús í heildina þegar greiðslur frá ríkinu eru með taldar vegna kosninga á þess vegum. Kostnaður í þessum fimm litlu kjördeildum er óverulegur og er tilkominn vegna fáeinna íbúa dreifbýlisins sem fá greidd laun vegna vinnu á kjörstöðum, húsaleigu í félagsheimilum og vegna utanumhalds og annars sem fylgir.
Getur verið að sveitarstjórn Skagafjarðar sé að fækka kjörstöðum vegna þess að einhverjum datt í hug að það væri kannski bara sniðugt og einfaldaði vinnu kjörstjórnar? Ef svo er gleyma þeir fyrir hverja þeir eru að vinna. Vissulega skiptir þetta stærri hluta íbúa sveitarfélagsins ekki máli, en við búum í stóru sveitarfélagi þar sem sumir eiga um býsna langan veg að fara í þéttbýlið. Einhverjir myndu segja að það væri gömul saga og ný og heyrst hafa orð um að menn velji sér búsetu með þeim kostum og göllum sem fylgja. Vissulega eru sannleikskorn í því, en það er hlutverk sveitarfélaga að þjónusta íbúana og að gera sitt besta til að uppfylla þarfir þeirra. Engin fjárhagsleg rök lágu að baki þessarar vanhugsuðu ákvörðunar og sniðuglegheit eða þægilegri vinna fyrir embættismenn eða opinbera starfsmenn er ekki gild ástæða til að skerða þjónustu við íbúana.
Til að nefna eitt lítið dæmi um óhagræði og aukinn kostnað af þessari óþörfu ákvörðun sveitarstjórnarfulltrúa bendi ég á að eftir að sveitarstjórnarkosningar voru færðar í miðjan maí, er ekki alltaf einfalt fyrir sauðfjárbændur að fara á kjörstað. Á þessum tíma er sauðburður víða í hámarki og á heimilisfólk ekki val um að allir pússi sig upp og fari saman á kjörstað. Öllu heldur þarf einn og einn að skjótast og vera snöggur í ferðum. Því er lengri ferðatími með auknum kostnaði við akstur ekki að hjálpa til svo ekki sé meira sagt.
Það væri óskandi að sveitarstjórn Skagafjarðar léti af því að taka slíkar vanhugsaðar ákvarðanir að óþörfu. Betur færi á því að kynna sér áhrif á íbúana og vega saman hagsmuni þeirra og þörfina á breytingum sem til umræðu eru.
Úr bókun Byggaráðs:
„Kjördeildir í Skagafirði hafa á liðnum árum verið átta talsins. Með bættum samgöngum hefur þróunin á landsvísu verið sú að kjördeildum hefur fækkað í sveitarfélögum landsins. Lagðar fram upplýsingar um fjölda kjósenda í hverri kjördeild fyrir sig. Byggðarráð leggur til við sveitarstjórn að kjördeildir í Skagafirði verði framvegis þrjár, á Sauðárkróki, Hofsósi og í Varmahlíð.“
Högni Elfar Gylfason
Korná
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.