Þorpin eiga að lifa

Að velja sér búsetu eru réttindi sem Íslendingar vilja geta haft. Þeir vilja ekki vera þvingaðir til búsetu á einum stað fremur en öðrum. En geta þeir það?

Saga þorpanna hringinn í kringum landið er saga íslenskrar þjóðar. Björt framtíð metur það svo að þorpin segi söguna, þau geymi menningararf sem mikilvægt er að varðveita. En þorpin eru ekki steingervingar.  Í þeim býr frábært fólk sem kýs að búa við aðstæður sem eru öðruvísi en borgarlífið býður upp á. Og það er frábært.

Meiri fjölbreytni

Einhæft atvinnulíf dregur smám saman kraftinn úr þorpunum.  Fólk býr við óöryggi þar sem hægt er að kippa fótunum undan atvinnu og afkomu fólks fyrirvaralítið og án þess að nokkuð komi í staðinn.

Björt framtíð vill beita sér fyrir byggðastefnu sem kortleggur tækifærin í hverju þorpi og hverri sveit og vinnur markvisst að því að ýta undir fjölbreytni í atvinnulífinu.

Minni sóun

Þegar teknar eru ákvarðanir í stjórnsýslunni setja menn upp margskonar gleraugu meðal annars til þess að tryggja að ekki sé gengið á rétt fólks, ákvarðanir standist lög og að þær séu í samræmi við markaða stefnu stjórnvalda í málaflokknum.

Við í Bjartri framtíð viljum bæta við einum gleraugum til.  Þorpin eiga að lifa.  Með gleraugunum „Þorpin eiga að lifa“ er leitast við að tryggja að þegar teknar eru ákvarðanir sé metið hvaða áhrif ákvörðunin hafi á búsetu fólks.  Þetta tryggir að áhrifin séu meðvituð og að ekki séu teknar ákvarðanir sem hafa áhrif á búsetu fólks af hreinu gáleysi.

Meiri stöðugleiki

Við í Bjartri framtíð viljum meiri stöðuleika. Stöðugleiki snýst um fleira en gengisskráningu, verðbólgu og vexti.  Stöðugleiki snýst ekki sýst um ákvörðunartöku.  Fólk á rétt á að ákvarðanir séu gagnsæjar, markvissar og með skilgreind tímasett markmið.  Fólk á líka rétt á því að stjórnvöld standi við ákvarðanir sínar.

Við þurfum að skilgreina grunnþjónustuna, þjónustustigið og forgangsröðina.  Síðan gerum við áætlanir í hverjum málaflokki til langs tíma með skýrum tímasettum markmiðum og byggjum upp þá þjónustu sem við viljum veita á hverjum stað fyrir sig.

Það er ekki hægt að gera allt fyrir alla – núna.  En það er vel hægt að setja fram skýra stefnu og skýr markmið og skapa traust um að það sé farið eftir stefnunni þó svo að skipt sé um stjórnvöld.

Minna vesen

Þjónusta á landsbyggðinni, og reyndar á Íslandi öllu,  er oft ómarkviss og erfitt að sækja hana.  Fólk og fyrirtæki þarf á marga staði, og það er erfitt að henda reiður á hver gerir hvað.  Það er erfitt fyrir þá sem þurfa að sækja þjónustu að finna út hvert á að fara og við hvern á að tala.  Sveitarfélag, ríkið, eða eitthvað annað apparat t.d byggðasamlag eða landshlutasamtök.  Samskipti milli aðila eru allt of oft flókin og ábyrgðarsvið illa skilgreint og því erfitt að fá úrlausn mála.

Björt framtíð vill minna vesen.  Við viljum markvisst færa ákvarðanir nær fólkinu, styrkja nærþjónustuna og byggja upp þjónustuna þannig að nóg sé að leita á einn stað í heimabyggð.

Skipulag samfélagsins síðustu áratugi hefur miðað að því leynt og ljóst að auka flækjustigið þannig að þeir sem vilja vera í þorpunum eiga þess ekki kost vegna einhæfni og glataðra atvinnutækifæra. Þeir sem vilja fara geta ekki farið vegna þess að einhæfnin hefur verðfellt eignir þeirra og bundið á þá klafa stöðnunarinnar.

Í þorpunum er að mörgu leyti minna vesen. Þar er stutt milli vinnu og heimilis, þar ganga börnin frjáls, þar er einfaldleikinn í fyrirrúmi og það er einmitt það sem sumir kjósa.

Meiri sátt

Tökum frá tekjur af auðlindagjaldi og notum til að byggja upp lífvænlegt samfélag hringinn í kringum landið.  Látum fólkið sem borið hefur hitann og þungan af hagræðingunni í grunnatvinnuvegum hafa forgang að uppbyggingu grunnþjónustunnar.

Fjárfestum í meiri fjölbreytni í atvinnulífi sem ver byggðirnar fyrir áföllum og gerir það eftirsóknarvert að búa í landinu öllu. 

G. Valdimar Valdemarsson og Soffía Vagnsdóttir. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir