Þess vegna styð ég Samfylkinguna!
Ég er jafnaðarmaður í eðli og sinni, mér finnst réttlátt að þeir sem geta, aðstoði þá sem ekki geta. Mér finnst réttlátt og í raun forréttindi að borga skatta því með því legg ég til samfélagsins – þess samfélags sem ég vil að sé byggt upp fyrir okkur öll, hvernig sem við fæðumst og hvernig sem við stöndum. Þeir sem hafa farið hallloka í lífinu eiga ekki að þurfa að gjalda þess – við eigum að hjálpast að.
Við fáum ekki alltaf allt sem við viljum, en það er mikils virði að stuðla að því að við fáum það sem við þurfum, fáum það sem við teljum vera grunnréttindi og grunnþarfir til að geta borið okkar höfuð hátt í daglegu amstri.
Ég vil leggja mitt af mörkum til að byggja upp þannig þjóðfélag.
Mér finnst réttlátt að borga í sameiginlega sjóði til að svo megi verða, til þess að við getum búið við þokkaleg kjör, til þess að við getum átt öruggt húsaskjól, til þess að við getum aflað okkur þeirrar menntunar sem hugur okkar stendur til, til þess að við getum átt opin samskipti, til þess að við getum fætt og klætt börnin okkar og okkur sjálf, til þess að við getum gengið með reisn út í samfélagið og verið stolt af okkar eigin verðleikum.
Það skiptir máli að grunnhugsun samfélagsins sé jöfnuður, að tilvera allra sé jafn rétt. Allir eiga að geta fundið sér stað við hæfi. Það að komast áfram á kostnað annarra er ekki samfélag sem leiðir til hagsældar fyrir alla.
Í samfélagi þarf að vera pláss fyrir ólíkar skoðanir, ólíkar þarfir, ólíkar væntingar – það þurfa ekki allir að vera eins, það þurfa ekki allir að stefna að sama markmiði. Það eykur lífsgæði okkar að umgangast og eiga orðaskipti og rökræður við þá sem hafa aðra sýn. Tilveran þarf ekki að byggjast upp á því að vinna eða tapa, hún getur byggst upp á því að finna saman leið að því sem okkur finnst réttlátt og raunhæft.
Ég hef hugsjón og drauma, það er mikilvægt fyrir mig að trúa því að við lifum í góðu samfélagi sem við getum gert enn betra og enn réttlátara með enn fleiri möguleikum fyrir alla, ekki bara þá sem hafa allt til alls heldur líka þá sem þurfa samvinnu, samtal og samkennd til að geta stolt skilað sínu og lifað sínu lífi í sátt við sjálfa sig og umhverfi sitt.
Svanhildur Guðmundsdóttir
8. sæti Samfylkingarinnar í Norðvestur kjördæmi
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.