Það verður að koma á aðhaldi á hinu opinbera
Stærð og starfsemi hins opinbera hefur og heldur áfram að þenjast út. Nú eru um 1/3 vinnandi manna hjá opinberum aðilum, sem hinir 2/3 hlutar á frjálsum vinnumarkaði þurfa að standa undir. Fjárlög eru aðeins takmarkað virt og sótt er sér í hnefa í fjáraukalögum. Farið er aftur og aftur í alls kyns eyðslu, sem er óþarfi og hægt að komast hjá. Skuldir landsins eru yfirhrópandi hjá og vegna hins opinbera og skattar eru hækkaðir og hækkaðir. Það er eins og allt þetta ætli engan enda að taka.
Það verður að draga saman og spara
XG, Hægri grænir, flokkur fólksins, vill að sparað verði og skorið niður alls staðar hjá ríkinu þar sem því verður við komið. Aðalskilyrðið er að það bitni ekki á velferðaþjónustunni í þágu fólksins. Flokkurinn hefur komið auga á um 400 opinberar nefndir, sem erfitt er að sjá að megi ekki missa sín eða fækka og að í um 200 ríkisstofnum megi skera verulega niður. Flokkurinn vill fínkemba fjárlögin og hafa þar aðeins það, sem nauðsynlegast er. Að við stöndum ekki í því, sem þurfum ekki og að Ísland sníði sér stakk eftir vexti.
Aukið aðhald - Báknið birt
Hægri grænir vilja strangt aðhald og vilja koma því á, sem flokkurinn nefnir Báknið birt. Í því felst að allt fé, sem greitt er úr ríkissjóði, verði sundurliðað og birt á hverjum degi á sérstakri heimasíðu. Þar komi fram fyrir hvað er greitt, hver heimilaði útgjöldin og hverjum var greitt. Ef móttakandi er lögaðili, þá skuli koma fram hverjir standi á bak við fyrirtækið og eignarhald þess. Með því að gera allt opinbert jafn óðum minnkar væntanlega freistivandi opinberra stofnana og örlætisgerningar, eins og Ríkisendurskoðandi kallar sjálftöku, komi þá til með að heyra sögunni til.
Ráðdeild og heiðarleiki í fyrirrúmi
XG Hægri grænir leggur mikla áherslu á að vera heiðarlegur flokkur og ætlast til þess að aðrir séu það líka, opinberir aðilar jafnt sem hver og einn. Ráðdeild er gömul dyggð, sem gleymist gjarnan hjá þeim, sem fara með annarra manna fé. Stjórnmálamenn falla oft í þá freistingu að kaupa sér þannig vinsældir, en vilja svo litla, sem enga ábyrgð taka á afleiðingunum. Þessu vill flokkurinn breyta. Ég vona að hann fái til nægilegan styrk hjá kjósendum í vor til þess að svo megi verða.
Kjartan Örn Kjartansson
Höfundur er fyrrverandi forstjóri
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.