Það er nóg komið

Heilbrigðisstofnunin Sauðárkróki hefur verið sannkallaður hornsteinn í héraði allt frá því að forveri hennar, Sjúkrahús Skagfirðinga var stofnað í ársbyrjun árið 1907, fyrir hartnær 105 árum síðan. Allan þennan tíma hefur stofnunin þjónað íbúum Skagafjarðar og nærsveitum með ómetanlegum hætti.

 

Síðustu ár hefur hart verið sótt að stofnuninni og henni gert að draga verulega saman seglin í kjölfar minnkandi fjárveitinga, ekki síst eftir að hið svokallaða hrun dundi yfir. Afleiðingarnar hafa verið margvíslegar, stöðugildum við stofnunina hefur fækkað verulega og þjónusta hefur verið skert eða aflögð. Má þar m.a. nefna þjónustu sem þótti sjálfsögð fyrir aðeins fáeinum árum síðan eins og fæðingarþjónusta sem hefur verið flutt til Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri.

Enn á að skera niður
Í fjárlögum fyrir næsta ár stendur enn til að skera niður fjárframlög til Heilbrigðisstofnunarinnar Sauðárkróki. Stofnunin hefur þó þegar tekið á sig hlutfallslega mestan niðurskurð allra stofnana í landinu. Afleiðingarnar eru sem nærri má geta áframhaldandi skerðing á þjónustu og að sumri starfsemi verður hætt. Meðal annars á að loka endurhæfingaraðstöðu stofnunarinnar en á meðal hópa sem úthýsa á með þeim hætti eru sjúklingar og vistmenn á stofnuninni, öryrkjar og fatlaðir sem búa á svæðinu, auk vefjagigtar-, hjarta-, lungna- og offitusjúklinga. Þá mun almennum íbúum héraðsins ekki bjóðast þjónusta farandsérfræðinga sem koma með reglubundnum hætti til stofnunarinnar heldur munu þeir og aðstandendur þeirra þurfa að ferðast um langan veg, þar sem er yfir fjallvegi að fara, til að sækja slíka þjónustu sem þykir sjálfsögð annars staðar. Til viðbótar eru framlög til hjúkrunarrýma við stofnunina langt undir reiknaðri þörf velferðarráðuneytis og biðlistar lengjast í sífellu. Verði af tillögunum mun Heilbrigðisstofnunin verða fyrir óbætanlegum skaða og ekki standa söm á eftir.

Það er í raun verið að færa heilbrigðisþjónustu í Skagafirði áratugi aftur í tímann og leggja mikinn kostnað og óhagræði á sjúklinga og aðstandendur þeirra, á atvinnulífið í héraðinu, á Sjúkratryggingar, á aðrar heilbrigðisstofnanir o.s.frv. Það sér hver maður að ekki er um sparnað að ræða heldur tilfærslu á kostnaði til annarra stofnana og ekki síst er verið að færa kostnaðinn yfir á herðar notenda þjónustunnar og aðstandenda þeirra – þá sem síst skyldi.

Skagfirðingar standa með Heilbrigðisstofnuninni
Órofa samstaða er um það á meðal sveitarstjórnarfulltrúa allra flokka í Skagafirði að standa vörð um Heilbrigðisstofnunina Sauðárkróki, eins og sést m.a. af nýlega samþykkri ályktun í sveitarstjórn og mikilli samstöðu sveitarstjórnarmanna í allri vinnu við að verja stofnunina. Þessi samstaða nær jafnframt til allra íbúa héraðsins, það finnur maður glöggt á samtölum við þá fjölmörgu sem hafa haft samband til að lýsa yfir áhyggjum sínum af stöðunni, ekki síst þeim sem þurfa reglulega á þjónustu heilbrigðisstofnunarinnar að halda.

Íbúar Skagafjarðar virðast ekki hátt skrifaðir á forgangslistum velferðarstjórnarinnar. Þeir nutu lítils af hinu svokallaða góðæri en skulu taka á sig stærsta skellinn í niðurskurði á opinberum fjárframlögum. Grunnþjónusta virðist ekki eiga að vera í boði nema þar sem þenslan var mest. Ekki aðeins er skorið niður í um heilbrigðisþjónustu heldur einnig í framlögum til menntastofnana og annarra opinberra stofnana í héraðinu, auk þess sem til stendur að leggja af stuðning við áætlunarflug til Sauðárkróks, sem er í hróplegu ósamræmi við aukna þörf sjúklinga til að nota þann ferðamáta. Það er því með stjórnvaldsaðgerðum verið að neyða marga einstaklinga sem eru háðir viðkomandi þjónustu, en vilja eiga hér heima, til að taka sig upp og flytja nær þjónustunni. Við erum þegar farin að sjá afleiðingarnar í formi fækkunar íbúa, sem er með öllu ólíðandi. Það er verið að kippa fótunum undan héraði með blómstrandi atvinnuvegi, metnaðarfulla skóla og góð almenn lífsskilyrði með því að eyðileggja þá grunnþjónustu sem fólk á að geta gengið að sem vísri.

Það er nóg komið. Niðurskurðartillögurnar á að draga tafarlaust til baka og leggja þess í stað í þá nauðsynlegu greiningu, það áhættumat og mat á hættu á auknum kostnaði til lengri tíma litið, sem kveðið er á um í samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna að eigi að vera til grundvallar ákvörðunum um niðurskurð og sameiningu stofnana. Það eru fagleg og rétt vinnubrögð, í stað flausturslegs og handahófskennds niðurskurðar í fjárlagafrumvarpi næsta árs.

Stefán Vagn Stefánsson

Höfundur er formaður byggðarráðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir