Svipa eða pískur - Kristinn Hugason skrifar
Í þessari grein ætla ég að bæta ögn við þann sveig sem ég tók í síðustu grein hvað varðar umfjöllun mína um sögu og þróun hestamennsku og keppni á hestum hér á landi og víkja nú ögn að reiðbúnaði. Í hinni stórfróðlegu bók Þórðar Tómassonar í Skógum, Reiðtygi á Íslandi um aldaraðir, sem út kom hjá Máli og mynd árið 2002 og ég vitnaði til í síðustu grein, er reiðbúnaði gerð einkar fróðleg skil og verður m.a. stuðst við hana í þessari umfjöllun.
Þegar ég var lítill var enn þá stundað að leika sér við að ráða vísnagátur, ein slík gömul sem m.a. er birt í bók Þórðar, hljóðar svo:
Ég er ei nema skaft og skott,
skrautlega búin stundum,
engri skepnu geri gott
en geng í lið með hundum.
Hér er verið að fjalla um búna svipu, þ.e. hún er búin málmhólkum og jafnvel meira skrauti og albúin er svipa sem var málmbúin enda á milli. Mismikið var í búnað þennan lagt og málmurinn sem notaður var, misdýr. Sumar svipurnar voru afskaplega vel búnar með silfri. Efst á svipunni var húnn iðulega með áletrun, s.s. nafni eiganda, dagsetningu eða ártali væri svipan gefin af ákveðnu tilefni og stundum með nafni gefanda. Neðan á svipunni var svo festing fyrir svipuólina nefnd kengur, á milli húns og kengs var svo iðulega einn eða fleiri skrauthólkar lagðir um skaftið. Vegsauki þótti af því að eiga fagurlega búna svipu og um skeið veitti Búnaðarfélag Íslands vinnumönnum, sem höfðu lengi og af dyggð þjónað í þeirri stétt, fagurbúnar, áletraðar svipur í verðlaun. Einn elsti verðlaunagripur sem keppt er um á hestaþingum er einmitt, svipa; Hreppasvipan sem fyrst var veitt 1944 og segir frá í grein minni, Íslenska gæðingakeppnin, í 46. tbl. Feykis, 4. desember 2019.
Árið 1913 kom út hjá Prentsmiðju Björns Jónssonar á Akureyri bókin Hestar og reiðmenn á Íslandi eftir George H. F. Schrader, bókin var svo endurútgefin af Bókaútgáfunni Hildi í Kópavogi 1986. Í bókinni kvað höfundur víða hart að orði í fjölþættri gagnrýni sinni á íslenska hestamennsku, bæði reiðmennskuna og almenna meðferð hestsins. Þar segir á einum stað: „Það er víst ekkert land til, þar sem svipa, reiðmaður og hestar eru eins sjálfsögð saman og á Íslandi. Hvergi er jafnmiklu fé eytt í svipur. Hvergi gerir svipan eins lítið gagn við það, sem hún á að gera, eins og á Íslandi. Íslenzka svipan [ .... ] er hvorki reiðsvipa né hundasvipa, Kósakka- né nautasmala-hnútakeyri. Skaftið er 12 – 20 þuml. langt [u.þ.b. 30 – 50 sm], ólin 20 – 40 þuml. [u.þ.b. 50 – 100 sm]; hesturinn er 48 þuml. hár og um 6 feta langur. Svipan er því hátt upp í það eins löng eins og hesturinn, kraftlaus og aðgöngulaus. Með slíkri svipu er alls ómögulegt að refsa hesti.“ Til að forðast mögulegan misskilning skal tekið fram að Schrader var andstæður hörðum refsingum, svo það var ekki þess vegna sem hann fann að svipunni.
Málin sem Schrader gefur upp koma mjög vel heim og saman við það sem fram kemur í bók Þórðar í Skógum um almenna stærð svipna en þar kemur fram að stærsta svipan sem til er á safni á Íslandi sé 55 sm að lengd og að kvensvipur hafi verið minni en þeim sem karlmönnum voru ætlaðar. Jafnframt hygg ég að algengasta stærðin hafi verið um rétt í tæpir 40 sm skaftið og ólin rétt um 1 m, byggi ég þá skoðun mína á svipum sem ég hef skoðað.
Það er, að ég hygg, að sönnu rétt hjá Schrader að það hafi verið torvelt fyrir minna vana að beita svipum með tilætluðum árangri en að hluta stafaði gagnrýnin af því að Schrader skyldi Íslendinga engan veginn. Það var einfaldlega svo að margir kostuðu kapps um að eiga vel búnar svipur þó þær væru dýrar. Svipan var með vissum hætti tákn reiðmannsins. Það sást vel þegar menn á hestbaki sátu fyrir á ljósmyndum, svipukengnum var þá iðulega stutt á lærið og hönd lögð ofan á húninn. Ekki voru svo allar svipur húnasvipur, króksvipur, með krók á endanum sem nota mátti til að teygja sig í hluti, og hamarsvipur sem voru með hamarshaus sem nota mátti t.d. til að reka undir skeifu ef losnaði, voru og vel þekktar. Ef svo átti að beita svipunni sér til gagns til að refsa hesti, gat það verið vandasamt og krafðist einurðar ef úr átti að verða lærdómur en ekki marklaust kákl sem gerði illt verra. Þar hafði Schrader nokkuð til síns máls.
Í bókinni Hesturinn þinn – Frásagnir, samtöl, gangnaferðir o. fl. um hesta og menn, eftir Vigni Guðmundsson, blaðamann, sem út kom hjá Bókaútgáfunni Skjaldborg á Akureyri árið 1973, er m.a. samtal við Björn Jónsson frá Mýrarlóni (1910 - 1983) en hann var um sína daga frábær hestamaður og mikils metinn dómari. Viðtalið var undir fyrirsögninni: „Undralækning og hestamennska“ en nokkuð miðaldra þótti Björn fá undraverðan sjúkdómsbata í gegnum lækningar úr handanheiminum en viðtalið var mest um hestamennsku. Barst talið víða en Björn var sonur frækins hestamanns sem hét Jón Ólafsson og hafði afurðagott lag á að fá hesta í fallegan höfuðburð, „að láta hesta hringa sig“ eins og komist var að orði.
Í einni frásögunni segir af bleikum hesti, hálsstuttum, stirðum og hnotgjörnum sem Jón Ólafsson var að reyna að laga til fyrir Olgeir á Caroline Rest á Akureyri (faðir Einars Olgeirssonar hins þekkta foringja sósíalista) en svo skemmtilega vill til að Caroline Rest var veitingahús með sérstakri aðstöðu fyrir ferðahesta sem Schrader kom upp í krafti dýraverndarhugsjónar sinnar, en nóg um það, segir nú af tamningunni á þeim bleika: „Við erum að ríða neðan úr bæ og leggur hann á hann á leiðinni. Þegar við komum út fyrir Lónsbrú hnýtur sá bleiki illilega. Hann rykkir honum upp að framan og vefur pískólinni um hann aftan svo hann kíttast saman. Þetta var svo hörð áminning að ég man varla eftir að hafa séð hana öllu meiri. Hesturinn breyttist, að mér fannst, með fótaburð og höfuðburð einnig. Hann kom með snoppuna undir hálsinn og herðakamburinn kom upp og hryggurinn svignaði meira.“ Punkturinn í þessari frásögn er vitaskuld tímasetning ábendingarinnar (refsingarinnar) og að henni sé komið til skila svo lærdómur af verði.
Keyrin taka við
Jón Ólafsson var snillingur á hestabaki sem og synir hans og afkomendur ýmsir og komu þeir eins og margir fleiri tjáskiptum sínum við hestinn vel á framfæri með svipunni en svipukákl eða þá ömurlegar, ástæðulausar eða kolvitlaust framkvæmdar hýðingar, sem gerðu þá vitaskuld illt verra, voru of algengar. Keyrin sönnuðu sig smátt og smátt þó lengi vel þættu þau óvirðulegri. Elsta mynd af keyri á Íslandi er á teikningu frá leiðangri sir Josephs Banks til Íslands 1772, um keyri er og getið í Búalögum. Á seinni tímum hafa keyrin algerlega tekið við af svipum og eru þau, eða pískurinn eins og þessi nauðsynlegi reiðbúnaður er oftar kallaður, notaður með þeim hætti í nútíma reiðmennsku að vera framlenging handar mannsins.
Mörgum þykir eðlilega vera mikill virðuleikabragur yfir fagurgerðum silfurbúnum svipum og þjóna þær nú víða hlutverki hjá hestunnendum sem stofuskraut eða minningarmark um gengna forfeður er gripina áttu. Síðast man ég eftir að hafa séð riðið með svipu á sýningu á árinu 1982 en þá reið Reynir Aðalsteinsson með fagurlega silfurbúna svipu við verðlaunaafhendingu kynbótahrossa á landsmótinu á Vindheimamelum.
Kristinn Hugason
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.