Sundrað sverð og syndagjöld

Þegar ég gekk út úr þinghúsinu, einum og hálfum sólarhring fyrir þinglok – fullsödd af ráðleysu og orðabrigð innan þingsins á síðustu vikum þess – fann ég á mér að þangað ætti ég ekki afturkvæmt í bráð. Staðan var þessi: Stjórnarskrármálið í uppnámi og yrði augljóslega ekki leitt til lykta með viðunandi hætti. Fiskveiðistjórnunarmálið hafði verið yfirgefið. ESB-viðræðurnar settar á ís og lítil von til þess að þær yrðu teknar upp í bráð. Hins vegar lá fyrir að afgreiða nokkur mál sem voru Sjálfstæðis- og Framsóknarmönnum þóknanleg, þar á meðal einkennilegt frumvarp að sérstökum skattaívilnunum vegna kísilverksmiðju á Bakka.

Yfir öllu ráðleysinu, baktjaldamakkinu og hljóðskrafinu hnitaði forseti þingsins sem neitaði að beita 71. gr. þingskapa til þess að hindra málþóf og tryggja það stjórnarmeirihlutinn fengi að vinna sitt verk.

Staðan var óþolandi – óásættanleg.

Og nú blasir niðurstaða kosninganna við. Samfylkingin hefur tapað meira en helmingi þingmanna sinna, flokkurinn heldur inni 9 þingmönnum af 20 – fylgið komið úr 29,8% í 12,9% á landsvísu.

Ný forysta flokksins náði engri fótfestu á þeim fáu vikum sem liðu frá kjöri hennar fram að kosningum. Formaðurinn tók þá ákvörðun að skilja sig frá verkum ríkisstjórnarinnar í von um að fá á sig betri ásýnd. Um leið yfirgaf forystan þrjú helstu stefnumál kjörtímabilsins – málin sem ítrekað höfðu verið skilgreind sem þau þrjú mál sem Samfylkingin bæri helst fyrir brjósti og myndi ljúka.

Samfylkingin er nú að uppskera eins og sáð var til á lokasprettinum. Flokkurinn sem var stofnaður til þess að sameina íslenska jafnaðarmenn undir einum væng og mynda trúverðugt mótvægi við íhaldsöflin í landinu, er nú í sporum Bólu-Hjálmars er hann orti:

Mínir vinir fara fjöld,
feigðin þessa heimtar köld,
ég kem eftir, kannske í kvöld,
með klofinn hjálm og rofinn skjöld,
brynju slitna, sundrað sverð og syndagjöld.

Raunalegast er þó að Íslendingar hafa nú kosið yfir sig flokkana sem komu þjóðarskútunni á hliðina í hruninu 2008. Fólk er fljótt að gleyma. Árangur ríkisstjórnarinnar við endurreisn efnahagslífsins er bæði vanmetinn og vanþakkaður. Í því ljósi má segja að þjóðin hafi nú kosið yfir sig það sem hún á skilið.

Vissulega vann Framsóknarflokkurinn kapphlaupið um atkvæðin að þessu sinni. Björt framtíð og Píratar voru líka sigurvegarar og ég vona að þeir tveir flokkar muni hafa erindi sem erfiði á Alþingi, því innan beggja raða er frambærilegt og vel meinandi fólk.

Annar stærsti sigurvegarinn er sundrungin.

Í sundrungarhítina hurfu að þessu sinni um 16% atkvæða sem skiluðu engum þingmanni.

„Sundrað sverð og syndagjöld“.

Ólína Þorvarðardóttir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir