Sóknarfæri í aukinni matvælaframleiðslu
Íslendingar eru fámenn þjóð sem á miklar sjávarauðlindir, mikið ræktunarland, miklar orkulindir og mikið vatn. Hækkandi matvælaverð á heimsvísu og breytingar á veðurfari munu opna mikla möguleika fyrir íslenskan matvælaframleiðslu. Mörg nágrannaríkja okkar hafa á undanförnum árum lagt aukinn kraft í framleiðslu og markaðssetningu matvæla. Ísland á að undirbúa sig undir þær breytingar sem eru framundan á matvælamörkuðum heimsins.
Matvælaþörf margfaldast í heiminum
Það er sama hvort um er að ræða erlendar ríkisstjórnir, alþjóðastofnanir, vísindamenn eða viðskiptatengda fjölmiðla flestir eru sammála um að heimurinn muni breytast hratt á næstu áratugum og að matvælaframleiðsla verði veigameiri í allri pólitískri umræðu. Jarðarbúar eru í dag yfir 7 milljarðar talsins og spár gera ráð fyrir því að þeim fjölgi í 9 milljarða til ársins 2050. Íbúum fjölgar um 200.000 dag hvern eða um 140 einstaklinga á hverri mínútu. Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) hefur gefið út yfirlýsingu um að vegna fólksfjölgumar og breytinga á neysluvenjum megi gera ráð fyrir því að matvælaþörf heimsins muni aukast um 70% til ársins 2050. Á sama tíma hefur efnahagsleg framþróun aukið kaupgetu hundruða milljóna manna í Asíu og víðar. Í Asíu er t.d. gert ráð fyrir stóraukinni mjólkur-og kjötneyslu í stað korns og hrísgrjóna. Nefna má í því samhengi að þrátt fyrir stóraukna mjólkurframleiðslu í Asíu gera spár ráð fyrir að árið 2025 muni innflutningsþörf Kínverja á mjólk nema heildarmjólkurframleiðslu Frakklands, Rússlands og Bandaríkjanna.
Þættir sem vinna gegn aukinni matvælaframleiðslu
Samhliða þessari auknu eftirspurn eru ýmsir stórir þættir sem vinna gegn aukinni framleiðslu eða munu stuðla að mikilli hækkun matvælaverðs.
Hækkandi orkuverð og notkun jurta til olíuframleiðslu.
Besta ræktunarland heimsins er þegar fullnýtt og framboð á nýju ræktunarlandi fer minnkandi. Árið 1960 voru 1,45 ha af ræktuðu landi á hvern jarðarbúa en árið 2003 var þessi tala komin í 0,78 ha. Þetta er m.a. ástæða þess að Kínverjar kaupa stór landsvæði í Súdan, Eþíópíu, Kasakstan og víðar.
Vatn er af skornum skammti og ljóst að það verður takmarkandi þáttur í matvælaframleiðslu heimsins innan fárra ára. Sem dæmi má nefna að það þarf 15 m3 af vatni til að framleiða 1 kg af nautakjöti og 0,4 -3 m3 af vatni til að framleiða 1 kg af korni. Talið er að jarðabúar nýti rúmlega 50% af nýtanlegu ferskvatni heimsins og að þetta hlutfall verði komið í 90% árið 2050.
Loftslagsbreytingar munu einnig hafa mikil áhrif á landbúnaðarframleiðslu og mörg fæðuframleiðslusvæði verða fyrir neikvæðum áhrifum, m.a. vegna þurrka og flóða. Þetta mun hins vegar hafa þau áhrif að köld og dreifbýl lönd í norðri hlýna og verða góð ræktunarlönd.
Ísland á að nýta sóknarfærin
Á nýafstöðnu flokksþingi Framsóknarflokksins var m.a. mótuð stefna í landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum. Framsóknarflokkurinn vill að staðinn verði vörður um matvælaframleiðslu þjóðarinnar, hvatt verði til nýsköpunar og leitað verði leiða til að nýta þau fjölmörgu sóknarfæri sem felast í aukinni matvælaframleiðslu hér á landi. Þingflokkur Framsóknar hefur í framhaldi af þessum samþykktum lagt til á Alþingi að allir helstu hagsmunaaðilar á sviði matvælaframleiðslu og matvælaiðnaðar verði kallaðir til og unnin verði áætlun um aðgerðir sem miði að því að stórauka matvælaframleiðslu landsins. Það þarf að skoða alla lagaumgjörð, menntastofnanir þurfa að taka þátt í þessu átaki og fara þarf sérstaklega yfir allt sem snýr að nýsköpun, markaðs- og sölumálum. Ísland á að nýta sér þau sóknarfæri sem felast í aukinni matvælaframleiðslu.
Ásmundur Einar Daðason Alþingismaður Framsóknarflokksins
Skipar 2. sæti á lista flokksins í Norðvesturkjördæmi
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.