Sögusetur íslenska hestsins
Hér fáum við að líta augum fyrsta þátt Kristins Hugasonar, forstöðumanns Söguseturs íslenska hestsins, í Feyki en hann ætlar að stinga niður penna af og til og rita fróðleik um hesta og menn. Upphafspistill er um Sögusetrið sjálft sem á sér stutta en merka sögu. Feykir þakkar Kristni pistlaskrifin með von um að þeir fari vel í lesendur blaðsins.
Sögusetur íslenska hetsins (SÍH) var stofnað á Hólum í Hjaltadal árið 2001 af Hestamiðstöð Íslands, Byggðasafni Skagfirðinga og Hólaskóla. Sögusetrið var gert að sjálfseignarstofnun árið 2006, stofnaðilar; Byggðasafn Skagfirðinga og Hólaskóli. Á árinu 2014 var rekstrarformi SÍH breytt í sjálfseignarstofnun með staðfesta skipulagsskrá.
Í skipulagsskránni segir m.a. um tilgang og starfsemi:
„ .... er að það verði alþjóðleg miðstöð þekkingar og fræðslu um sögu íslenska hestsins, s.s. uppruna, þróun, eiginleika, notkun og samfélagsleg áhrif hans, frá landnámi til nútíma. Sögusetrið mun safna og varðveita ýmiskonar heimildir um íslenska hestinn ..... og þannig að skapa honum veglegt heimildasafn og gera það aðgengilegt almenningi. Þá mun Sögusetrið vinna að rannsóknum og athugunum á sögu, ræktun og þróun hestsins, eiginleikum hans og allri notkun. ...... Sögusetrið mun standa fyrir ýmiskonar fræðslu, s.s. málþingum, fyrirlestrum, námskeiðum og útgáfustarfsemi ..... Þá mun það stuðla að samstarfi á milli áhugafólks, ræktenda, stofnana og annarra aðila sem tengjast íslenska hestinum.“
Í gildi er samningur á milli Byggðasafns Skagfirðinga og Sögusetursins frá 2007, er þar kveðið á um samstarf varðandi vörslu muna er tengjast hestum og hestamennsku. Héraðsskjalasafnið og Sögusetrið eru í samstarfi um vistun ljósmynda og loks hafa Sögusetrið og Landbúnaðarsafn Íslands á Hvanneyri gert með sér samþykkt um samstarf (2015). Sögusetrið hefur allt frá stofnun átt farsælt samstarf við félagasamtök hestamennskunnar. Má í því sambandi nefna kynningarvettvanginn Íslenska hestatorgið.
Skipst hafa á sóknarár og varnar- á starfstíma SÍH. Margt hefur þó áunnist, s.s. standsetning húsnæðis setursins í hjarta Hólastaðar og uppsetning sýningar þar á neðri hæðinni sem nefnd er Íslenski hesturinn og opnuð var í ágúst 2014. Minningarþing um fyrsta hrossaræktarráðunautinn Theodór Arnbjörnsson, í apríl 2007 og sýning tileinkuð honum. Málþing um hrossaræktarfrömuðinn Svein Guðmundsson á Sauðárkróki, í mars 2009. SÍH var meðútgefandi að stórvirkinu Íslenski hesturinn eftir Gísla B. Björnsson og Hjalta Jón Sveinsson (2004) og stóð að því að gera hið mikla orðasafn; Orðfák sem Magnús Sigurðsson læknir tók saman, aðgengilegt á netinu (2016), sjá snara.is.
Á árinu 2016 ávannst heilmikið auk Orðfáks; setrið átti aðkomu að landsmótinu á Hólum með sýningu um sögu landsmótanna með sérstaka áherslu á landsmótið á Hólum ´66, prýðir nú stór kynningarborði sem tekinn var saman af þessu tilefni framhlið húsnæðis SÍH á Hólum og fastasýningin Uppruni kostanna var sett upp á efri hæð húsnæðis setursins. Auk ráðstefnu um sögu, stöðu og stefnumótun ræktunar íslenska hestsins sem SÍH stóð að ásamt fleirum.
Á nýliðnu ári var svo gert átak í rafrænni miðlun en sýningin Uppruni kostannna er nú aðgengileg í heild sinni á íslensku og ensku á heimasíðu SÍH og þýsk útgáfa er væntanleg, sjá nánar á sogusetur.is undir Gagnabanki.
Á þessu nýbyrjaða ári er mikið á döfinni hjá SÍH en setrið stendur að endurútgáfu öndvegisritsins; Samskipti manns og hests, eftir Ásgeir Jónsson frá Gottorp í samstarfi við BókaútgáfunaSæmund og er með atburð á dagskrá aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands 2018 undir heitinu Íslenski hesturinn – þjóðarhesturinn – efling og uppgangur við fullveldi. Um er að ræða sýningu sem sett verður upp á landsmóti hestamanna 1. til 8. júlí og verður að móti loknu sett upp sem fastasýning í Skagafirði. Auk fleiri þátta, s.s. að treysta rekstur sumaropnunar sýninga setursins.
Síðastnefnda atriðið er mikilvægt til að treysta fjárhagslegan grundvöll en rekstur menningarstofnunar eins og SÍH er þó óframkvæmanlegur án stuðnings. Setrið hefur frá upphafi notið stuðnings stofnaðila sinna auk Sveitarfélagsins Skagafjarðar, Uppbyggingarsjóðs Norðurlands vestra og ríkissjóðs (mennta- og menningarmálaráðuneyti). Fleiri aðilar hafa lagt setrinu gott til, þannig styrkir Menningarsjóður KS endurútgáfu Samskipta manns og hests og Stofnverndarsjóður íslenska hestakynsins styrkir þátttöku SÍH í fullveldisdagskránni auk styrks úr dagskrársjóðnum sjálfum.
SÍH þakkar stuðning og hlýhug og blæs til sóknar á nýbyrjuðu ári 2018.
Gleðilegt ár!
Áður birst í 1. tbl. Feykis 2018
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.