Siglufjörður og samfélagsfrumkvöðlarnir
Það er gaman að fylgjast með þróun mála á Siglufirði. Staðnum sem var eins og svo mörg sjávarþorp í kringum landið, að drabbast niður vegna breytinga í sjávarútvegi, fáar fyrirsjáanlegar leiðir til lausna og takmörkuð framtíðarsýn með tilheyrandi fækkun íbúa.
Ég heimsótti Siglufjörð fyrir tveimur árum og það var gaman að koma þangað. Bærinn, sem áður fyrr bar allt yfirbragð hefðbundins sjávarþorps sem mátti sannarlega muna sinn fífil fegri, enda þekktasti síldarvinnslustaður á Íslandi, hefur nú tekið nýja stefnu eftir hrun sjávarútvegs á staðnum. Á heimasíðu Fjallabyggðar er sérstakur hnappur sem merktur er Ferðafólk. Siglufjörður veðjar á menningartengda ferðaþjónustu. Húsin gömlu sem geyma hina stórmerkilegu sjávartengdu atvinnusögu Siglufjarðar fá nú hvert af öðru andlitslyftingu og Síldarminjasafnið, sem hefur hlotið bæði innlend verðlaun og alþjóðleg, dregur að þúsundir ferðamanna á ári hverju. Það hafa sprottið upp veitingastaðir, söfn og hátíðir sem sækja í söguarf Siglufjarðar og sjá í honum verðmæti sem mikilvægt er að nýta sér og flytja til komandi kynslóða. En hverju sætir? Hvað er eiginlega að gerast á Siglufirði?
Jú, það eru samfélagsfrumkvöðlar sem þarna hafa átt stóran hlut að máli. Samfélagsfrumkvöðlar sem eru í hjarta sínu sannfærðir um að fyrsta stig breytingaferlis sé að sýna fram á með áþreifanlegum hætti hvað nauðsynlegt er að gera og fá síðan fólk til að koma auga á, sjá fyrir sér, hvaða möguleikar eru í stöðunni.
Það skiptir miklu máli hvernig hugmynd er kynnt í fyrstu og heiðarleiki og ástríða þess sem talar fyrir breytingunum eru þar lykilbreytur. Að sjá er að trúa. Sannir samfélagsfrumkvöðlar beita ekki hefðbundnum vinnuaðferðum. Sýn þeirra á heiminn leggur áherslu á fólk, ástríðu, reynslu, upplifun og sögur – ekki stefnumótun, tölfræðilegar upplýsingar eða fræði. Ein af þeim aðferðum sem þeir nota til að lífga upp á umhverfi sitt er að hvetja fólk til að endurraða húsgögnunum í umhverfi sínu, móta sér nýja sýn – samfélagsfrumkvöðullinn skorar þannig einstaklinga samfélagsins á hólm og hvetur þá til nýrrar hugsunar.
Árið 2012 veitti Byggðastofnun samfélagsfrumkvöðlinum Örlygi Kristfinnssyni Landsstólpann, samfélagsverðlaun Byggðastofnunar, fyrir frumkvöðlastarf sitt í tengslum við uppbyggingu Síldarminjasafnsins og annarra samfélagsverkefna á Siglufirði. Samfélagsviðurkenningin er veitt þeim sem með starfi sínu hefur
- gefið jákvæða mynd af landsbyggðinni eða viðkomandi svæði
- aukið virkni íbúa eða fengið þá til beinnar þátttöku í verkefninu
- orðið til þess að fleiri verkefni/ný starfsemi verði til
- dregið að gesti með verkefni eða umfjöllun sinni.
Örlygur er enn að og lætur hvergi deigan síga. Jón Jónsson þjóðfræðingur á Hólmavík hlaut þessi verðlaun árið 2010, í fyrsta sinn sem þau voru veitt og flestir þekkja framlag hans á sviði menningartengdrar ferðaþjónustu á sínu svæði.
Og nú er annar samfélagsfrumkvöðull kominn á fullt á Siglufirði. Sá heitir Róbert Guðfinnsson. Hann hefur á undanförnum árum sett mikla fjármuni í endurgerð gamalla húsa á Siglufirði með uppbyggingu ólíkrar starfsemi. Nýsköpunarmiðstöð Íslands veitti Róberti á dögunum ný hvatningarverðlaun sem nefnd eru Brautryðjandinn og veitt eru fyrir framúrskarandi atorku og hugvit á sviði verðmæta- og nýsköpunar.
Það eru samfélagsfrumkvöðlar í flestum þorpum og bæjum landsins. Þetta fólk þarf að virkja og á það þarf að hlusta. Þetta er fólkið sem nennir og það er mikilvægt að tengja þá sem hafa fjármunina saman við þessa einstaklinga og ekki síst að leiða þeim fyrir sjónir heildarsamhengið og heildarhagsmunina af slíku samstarfi. Slík tenging getur orðið til að skapa ný og ófyrirsjáanleg tækifæri fyrir heildina.
Samfélagsfrumkvöðlar ögra ekki eða draga fram vandamál sjálfra sín vegna, heldur leggja þeir sig fram um að breyta hugsun fjöldans; að skapa nýtt hugarfar. Þeir horfa á hlutina í stærra samhengi og reyna að vinna nýjum hugmyndum aukið fylgi þannig að sem flestir séu sammála. Þeir setja sjálfa sig ekki í forgrunn.
Ég vil óska Siglfirðingum til hamingju með að hafa tekið stefnuna fram á við. Að þora að vinna með samfélagsfrumkvöðlunum sínum, þeim sem fóru á móti straumnum en fengu áheyrn. Þeir hafa orðið til þess að Siglufjörður verður innan fárra ára einn af öflugustu ferðamannabæjum á Íslandi. Siglfirðingar þorðu að taka áhættu, náðu að vinna saman og hafa trú á því að söguleg arfleifð geti nýst þeim til að skapa nýja og spennandi framtíðarsýn. Siglfirðingar allir mega vera stoltir af bænum sínum.
Mér verður hugsað til þess sem sjómaðurinn sagði eitt sinn á stjórnmálafundi í Bolungarvík: “Það lifir enginn hér af harmoníkuspili”.
Með þátttöku minni á lista Bjartrar framtíðar vil ég m.a. leggja mitt af mörkum til að vekja athygli á samfélagsfrumkvöðlum og mikilvægi þeirra, enda er Björt framtíð hópur af framsýnu og óhræddu fólki sem vill jafna möguleika og tækifæri og hugsa út fyrir rammann. Samfélagsfrumkvöðlar eru oft lykilfólk sem með hugmyndum sínum, ástríðu og heiðarleika getur fengið fjöldann á sveif með sér til spennandi verka sem verða síðan mikilvægur ágóði fyrir fjöldann. Það sem er að gerast á Siglufirði sem getur orðið fyrirmynd öðrum sjávarþorpum og bæjum á landinu.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.