Samstöðuleið til betri lífskjara

Kosningabaráttan harðnar og frambjóðendur hitta fjölda fólks sem vill ræða um lífsbaráttuna og verkefnin framundan. Frambjóðendum er hollt og gott að taka saman um hvað fólk er að ræða, en núverandi kosningabaráttan er einsmáls barátta; einungis er fjallað um skuldir heimila og mögulegar og ómögulegar úrlausnir. Minna fer fyrir öðrum málum sem ekki síður er þörf að ræða. Frambjóðendur verða líka að vera raunsæir og það er mikilvægt að draga hvorki dekkri mynd af ástandi en ástæða er til eða bjartari en þá sem hægt er að ráða við. Það er ekki trúverðugt að segja að allt verði gott eftir kosningar.

Ábyrgar leiðir og meiri árangur

Eini raunverulegi kosturinn er að standa og vinna saman. Eina raunhæfa leiðin til að bæta hag íslenskra heimila er stöðugleiki, kröftugt atvinnulíf og samstaða. Engar aðgerðir til að taka a skuldamálum heimila og fyrirtækja eru raunhæfar nema hægt sé að tala um raunverulega verðmætasköpun og fólk hafi atvinnu.

Sókn hjá atvinnulífinu er eina raunhæfa aðgerðin til að taka á skuldavanda, endurreisa heilbrigðiskerfi, leiðrétta kjör aldraðra svo dæmi séu tekin. Án viðsnúnings hjá fyrirtækjum, með aukinni fjárfestingu eru allar aðrar aðgerðir reistar á sandi. Við þurfum nýja stjórnarstefnu – sem er leið samstöðu til endurreisnar.

Slökum á skattaklónni

Það verður að einfalda skattkerfið og gera það þannig úr garði að það hvetji til vinnu og athafna.  Skattkerfi má aldrei verða vinnuletjandi.  Endurskoða tryggingargjald. Ný ríkisstjórn verður að jafna byrðar veiðileyfagjaldsins og endurskoða forsendur þess – ef það verður ekki gert mun hið opinbera kæfa fjölmargar útgerðir.  Ekki er um það deilt hvort skuli greiða gjald fyrir aðgang að fiskimiðum, en gjaldið verður að vera eðlilegt og óháð útgerðar- eða fiskitegund. Gjaldið verður að taka sömu breytingum og verðmæti aflans, bæði til hækkunar og lækkunar.

Sátt um heilbrigða samkeppni

Standa þarf með á litlum og meðalstórum fyrirtækjum.  Tökum hér lítið dæmi.  Hvers vegna er ekki tekið í taumanna þegar það hefur verið afhjúpað að verslunarsamstæður knésetja sjálfstæða kaupmenn? Er eðlilegt að það megi muna 23% á innkaupsverði á sömu vöru á milli smásöluaðila?   Það þarf að vera sátt um heilbrigða samkeppni. Litlu og meðalstóru verslunarfyrirtækin eiga ekki að greiða niður innkaupsverð vöru fyrir markaðsráðandi verslanir.

Raunhæfar og mögulegar aðgerðir

Sáttin verður að vera um raunhæfar og mögulegar aðgerðir. Við ætlum að vinna okkur frá erfiðleikum. Það er og hefur verið kjarninn í stefnu Sjálfstæðisflokksins að vinna sig út úr vandræðum í stað þess að skattleggja sig út úr vandræðum og hafna í enn dýpra feni.

Leið sátta og endurreisnar fylgja líka erfiðaðar ákvarðanir um niðurskurð á mörgum verkefnum og framkvæmdum. Það er ekki eins og allt verði létt eftir kosningar. Ég hlusta á kjósendur á hverjum degi sem  vilja heyra sannleikann og hafa áhuga á tekið sé af ábyrgð á málum. Ég er þeim sammála.

Haraldur Benediktsson

Höfundur skipar 2 sæti á lista Sjálfstæðisflokks í NV kjördæmi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir