Saga jólakrossins á Nöfunum :: Þórhallur Ásmundsson rifjar upp gamla tíma

Á dögunum var myndasyrpa á hinni ágætu Facebook síðu „Skín við sólu“ af nýjum krossi í stað hins gamla á Nöfunum og frá friðargöngu þar sem nemar Árskóla leiddu eins og árleg venja er á Króknum. Við þessa myndasyrpu var mér hugsað til þess að á sínum tíma birtist í Feyki frásögn um tilurð jólakrossins á Nöfunum.

Þetta var í jólablaðinu 1989, eða fyrir 33 árum síðan. Óskaplega líður tíminn fljótt. Þessi grein sem var frásögn Birgis Dýrfjörð er með allra eftirminnilegasta efninu sem birtist í Feyki á minni tíð, mjög skemmtileg og lífleg frásögn Birgis, saga sem mátti hreinlega ekki glatast, enda hefur krossinn á Nöfunum alla tíð átt mikinn sess í hugum Króksara og Skagfirðinga. Birgir sagði m.a. í byrjun, en á þessum tíma 1989 voru 19 ár liðin frá því hann flutti af Króknum. „Brottfluttir Sauðkrækingar sem hugsa til heimahaganna, með mjúku hugarfari jóladaganna sakna þess þá að lifa ekki þær tilfinningar, sem þessi himingnæfandi kross vekur þeim sem nærri honum eru,“ sagði Birgir.

Þegar sagan af krossinum á Nöfunum birtist, var ég til þess að gera nýbyrjaður á blaðinu. Alltaf hefur verið vandað til jólablaðsins og þessa aðventuna hitti ég m.a. uppáhaldsfrænda minn, Guðbrand Frímannsson þáverandi slökkviliðsstjóra. Ég vissi að Brandur hafði áður starfað lengi hjá Rafveitu Sauðárkróks og þess vegna vissi hann kannski eitthvað um krossinn á Nöfunum, helsta tákn jólanna á Króknum. Það kom á daginn. „Ég þekki ágætlega þessa sögu og tengist henni meira að segja, en það er annar sem er betri til frásagnar. Hafðu endilega samband við vin minn Birgi Dýrfjörð,“ sagði Brandur.

Jólatréð við sjúkrahúsið

Birgir brást vel við og sjálfsagt sagði hann eitthvað spaugilegt og spekingslegt þegar hann tók að sér að segja söguna, en ég man það ekki alveg. Sagan byrjar á því að Birgir og vinur hans Böddi frá Gili, Ásbjörn Skarphéðinsson rafvirki, bollokuðu saman skuldugir og snauðir með lítið rafmagnsverkstæði á Freyjugötunni. Þetta var annaðhvort 1961 eða tvö, eða fyrir sextíu árum síðan, „Í desember þetta ár snjóaði töluvert á Króknum. Á frosttærum morgni þremur eða fjórum dögum fyrir jól, snaraðist inn til okkar á verkstæðið Guðbrandur Frímannsson ættaður úr Fljótunum.... Hann var þá annar af tveimur starfsmönnum Rafveitu Sauðárkróks, hinn var Adolf Björnsson rafveitustjóri.

„Strákar mínir, sagði Brandur, eruð þið ekki tilbúnir að gera góðverk strákar?“ „Það ræðst nú af því hvað það er væni minn,“ svaraði Ásbjörn með sínu viðfeldna aldamótaorðavali. „Ja það er nefnilega þannig, sagði Brandur, að rafveitan hefur alltaf séð um að setja upp jólatréð sunnan við nýja spítalann. Sjúklingarnir og gamla fólkið hefur svo óskaplega gaman af þessu, en það er allt brjálað að gera hjá mér fram að jólum og ég ræð ekki við þetta einn og ætlaði að biðja ykkur að hjálpa mér. Ef ég fæ ykkur ekki með mér þá neyðist ég til að sleppa þessu bara, greyin mín geriði þetta fyrir mig?“

Eftir einhverjar orðræður um að við hefðum sko líka aldeilis nóg að gera fyrir jólin og hefðum engan áhuga á að fara að vinna úti í snjó og grimmdargaddi, þá var samt ákveðið að við bættum á okkur plöggum og brókum í hádeginu og færum svo með honum eftir matinn. Brandur jós yfir okkur þvílíku þakklæti og hrósi áður en hann fór að við fórum hálfpartinn hjá okkur og sögðu honum að láta ekki svona, þetta væri nú bara smámál. En svo snéri hann sér við í dyrunum og sagði. „En það er eitt dálítið vandræðalegt með þetta. Ég get nefnilega ekkert borgað ykkur. Þessi vinna hefur alltaf verið gefinn spítalanum,“ og svo læddist svolítið sigurbros fram í augnkrókana. Ég held að við Ásbjörn höfum báðir haft þá meiningu að við værum að fara að vinna fyrir rafveituna og góða greiðslu.”

Brosandi andlit í hverjum glugga

Í frásögn Birgis kemur fram að þeim félögum leiddist ekki þarna suður í kverkinni við nýja spítalann og urðu fyrir hughrifum. „Við ræddum um það hvað ljósin ættu ríkan þátt í að skapa stemmningu jólanna og ég man að Ásbjörn sagði mér þarna frá því sem hann upplifði oft, að það sem væri hvað ánægjulegast að hleypa straumi á nýja lögn í sveitbæ, það væri gleðin sem ljómaði úr andlitum barnanna. Það var því fljótt í þessum samræðum sem við sannfærðum sjálfa okkur um að það væri bæði verðugt og gaman að vinna svona verk til að gleðja aðra, og byrjuðum að njóta þeirrar tilfinningar að eiginlega værum við nú pínulítið góðir strákar. Um klukkan hálf fjögur var allt tilbúið að kveikja á trénu.“

Birgir segir á frásögninni að það hefði snöggdregið úr frostinu og rökkrið varð fagurblátt. „Himinn, land og haf var allt slegið saman þessu gegnsæja en þó sjáanlega undrabláa rökkri, sem hvergi byrjar og hvergi endar, sem alla hrífur en enginn getur lýst, aðeins upplifað og minnst. Eftir að starfsfólkið hafði gert okkur viðvart um að flestir rólfærir sjúklingar væru komnir að gluggum, þá rann upp þessi stóra stund að kveikja á trénu. Marglit ljósin slógu bjarma sínum yfir mjallhvíta fönnina og upp um veggi sjúkrahússins. Þá skinu brosandi andlit úr hverjum glugga og fólkið klappaði og veifaði til okkar. Sjálfir stóðum við brosandi hjá trénu og veifuðum upp í gluggana til fólksins og vorum afar sælir með okkar þátt í þessari einlægu gleði og snortnir af henni.

Og það var einmitt á þessari stundu þarna í kverkinni sunnan við sjúkrahúsið, sem sú ljúfa tilfinning raunverulega vaknaði, sem leiddi til þess að krossinn var smíðaður. Ánægjan, gleðin og þakklætið sem við upplifðum þarna, kveikti í okkur áreitna löngun til að gera eitthvað fyrir alla bæjarbúa.“

Fyrirmyndin krossinn á Laugarneskirkjunni

„Á Skagfirðingabrautinni þar sem nú er fyrir framan Fjölbrautaskólann stöðvaði Brandur bílinn og drap á vélinni, því þó að Ásbjörn sæti á vélarhlífinni á milli sætanna þá var hávaðinn í vélinni of mikill til að hægt væri að tala saman með góðu móti. Við vorum sammála um að drífa í því að búa til einhverja veglega skreytingu fyrir bæjarbúa, annaðhvort framan í eða upp á Nöfunum. Hugmyndirnar voru býsna margar,“ sagði Birgir, en m.a. var ein sú fyrsta að gera gríðarstóra stjörnu upp á Nöfunum, staðsett þannig að hún væri eins og svífandi á himni. „Í tengslum við það að setja eitthvað upp sem virtist svífa á himni, þá fórum við að ræða um krossinn á Laugarneskirkjunni í Reykjavík og hvernig hann við vissar aðstæður virtist svífa í loftinu. Og með hann sem fyrirmynd þá var ákvörðunin tekin, kross skyldi það vera.“

Margar tilviljanir í efnisöflun í krossinn

Þegar Birgir Dýrfjörð sá myndasyrpuna á Facebook síðunni „Skín við sólu“ um nýja krossinn á Nöfunum, þá varð honum að orði. „Já nú geta þeir sjálfsagt látið nýja krossinn snúast.“ Það var einmitt uppástunga Bödda frá Gili, Ásbjörns, en það reyndist of tímafrekt á sínum tíma að ná tannhjóli úr gömlu skipsspili á Eyrinni, sem hugsað var í snúninginn. Nú rak hver viðburðurinn annar í efnisútveguninni í krossinn, allt mjög tilviljunarkennt og sögulegt.

Ég man vel þessa aðventu þegar ég var að líma upp síðurnar á jólablaði Feykis á ljósaborði í gamla bæjarþingsalnum, þar sem nú er Náttúrustofan. Það var einstaklega gaman að líma upp opnuna þar sem greinin um jólakrossinn var. Ásta Agnars prentaði út spaltana og valdar setningar úr textanum sem ég límdi upp á milli til að fanga auga lesandans. Flestar voru þær bundnar við endasetninguna sem var, þá væri enginn kross.

Hefðum við Ásbjörn sagt nei við Guðbrand eins og hugur okkar stóð til. Þá væri …..
Spýtan langa sem lenti utan farmskrár og fór í land í rangri höfn, hefði henni verið skipað upp í réttri höfn? Þá væri…….
Hefði Bjarni Haraldsson látið ónýtu skreytinguna sína liggja í pakkhúsinu eitt árið enn í stað þess að koma henni til okkar? Þá væri enginn kross.

Stefán heitinn Árnason var á ferðinni og kíkti stundum yfir öxlina á mér hummandi og brosandi í góðu skapi. Það kraumaði stundum í honum hláturinn eins og t.d. þegar hann las þessa klausu í grein Birgis, þar sem hann og Ásbjörn eru í upphafinni stemningu að koma ljósum á jólatréð við sjúkrahúsið.

„Báðir vorum við miklir stemningsmenn á þessum árum og ákaflega hrifnæmir. Og eftir að hafa brennt úr einni lukt eða svo og hreinsaði mænuna, þá eyddum við margri ljúfri nóttinni í upphafinni hrifningu við ljóðalestur og söng.“

Aðventunum svipaði saman

Fyrir þessi jól 1989 minnir mig að tíðin hafi verið svipuð og þegar krossinn var reistur í fyrsta skiptið á Nöfunum og þá var það við sáluhliðið á kirkjugarðinum. Þetta var skemmtilegt jólablað í vinnslu og ég var með hörkulið með mér í jólakveðjunum og auglýsingunum, Hauk Hafstað og Hröbbu, Hrafnhildi Jónsdóttur, Önnu Hjalta. Ég var býsna þreyttur en glaður þegar ég fór heim nokkru eftir miðnættið, þá hafði snjóað svo mikið að bíllinn var kominn hálfur í kaf á bílastæðinu við Kirkjutorgið.

Greinina um krossinn á Nöfunum má finna í heild sinni á timrit.is. Farið í skeman sem heitir „titlar“ sláið inn Feykir og flettið upp á 9. árgang, 1989, 46. tbl.  sem var síðasta tölublað þess árs og flettið upp á 12-13 síðu. Gleðileg jól og farsælt komandi ár til allra lesenda Feykis.

Þórhallur Ásmundsson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir