Réttindabarátta landsbyggðarinnar
Þegar það hallar á rétt fólks, þegar það verður jafnvel viðvarandi ástand, gerist það á endanum að einhver rís upp gegn óréttlætinu. Hugafarsbreyting á sér stað g blaðra blekkingarinnar springur. Það gerðist meðal annars árið 1908 þegar fyrsta kvennaframboðið leit dagsins ljós. Þá buðu nokkrar konur fram í sveitastjórnarkosningum í Reykjavík með tveggja vikna fyrirvara.
Þær komu fjórum konum í borgarstjórn. Upp frá því urðu miklar framfarir í kvennabaráttunni. Árið 1983 var aftur þörf á róttækum aðgerðum sem varð til þess að Kvennalistinn bauð fram lista í Alþingiskosningum og kom öflugum málsvörum fyrir konur að á Alþingi, sem varð aftur til þess að miklar framfarir urðu á stöðu kvenna á Íslandi.
Þótt konur séu helmingur þjóðarinnar hafa þær þurft að berjast af hörku fyrir réttindum sínum. Þrátt fyrir að stór hluti þjóðarinnar búi utan höfuðborgarsvæðisins hefur hallað verulega á réttindi landsbyggðarinnar.
Þögn er sama og samþykki
Mun þögul landsbyggðin hefja upp rödd sína eftir þolinmóða bið eftir úrbótum á mismunandi hættulegum aðstæðum? Grátandi fólk á heiðum, fast í bílum sínum vegna hættulegra vega, slys og óhöpp, snjóflóð á óvarða vegi, grjóthrun á bíla og grjóthnullungar á fjölförnum vegum. Ófært til næsta sjúkrahúss, engin ljósmóðir í bænum, engin læknir á staðnum, símasamband liggur niðri og rafmagnið líka.
Fyrirtæki tapa háum fjárhæðum vegna truflana á rafmagni, kvótinn var seldur og atvinna fólksins með, ljósleiðaratenging léleg eða ekki til staðar, mæður senda 16 ára börn sín ein í bæinn til að sunda nám því þær hafa ekkert annað val. Opinber störf sem komu með lúðrablæstri og látum frá ríkinu læðast hljóðlega burt eftir nokkra mánuði. Þegar eiginmaðurinn bíður heima með ung börn á meðan kona hans er ein, fjarri heimahögum, að reyna að bjarga ófæddu barni þeirra. Foreldrar langveiks barns eyða öllum sínum aukapeningum í uppihald og ferðir til borgarinnar, eina staðnum þar sem hægt er að fá hjálp. Örvæntingarfull fjölskylda berst við að koma geðfötluðum ásvini til Reykjavíkur með almenningsflugi í bráðaþjónustu. Og þegar mínútuspursmál er upp á líf og dauða er þakkað er fyrir það í hljóði að flugvöllurinn er enn við sjúkrahúsið. Þegar vinir fara og þorpið lognast af situr fólkið saman í þögninni og vonar að fjórflokkurinn bregðist við í þetta sinn eða hvað?
Sagan sýnir að þegar misskiptingin er orðin of mikil rofnar þögnin sem veitir samþykkið og aðgerðir hefjast. Sumar róttækar, þar sem róttækur ójöfnuður hefur átt sér stað, aðrar mildari. Nú er tækifæri til að taka skref í átt að breytingum með því að setja X við M, og kjósa öflugan málsvara fyrir landsbyggðina á þing. Þannig rofnar þögnin.
Steinunn Ýr
Höfundur skipar 2. sæti á lista Landsbyggðarflokksins í NV kjördæmi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.