Öðruvísi þeir fóru að
Hægri grænir, flokkur fólksins hefur fyrir löngu birt ítarlega stefnuskrá sína. Stofnandi flokksins byrjaði á því eftir að hafa komið heim eftir langa útilegu í fjármála og ferðaþjónustuheiminum að spyrja sjálfan sig hvað mætti betur fara á Íslandi. Með fullum vinnudegi í heil þrjú ár voru vandamálin skoðuð og skilgreind, hvert af öðru og lausna á þeim leitað.
Sótt var til sérfræðinga hverjum á sínu sviði og út fyrir landsteinana og skoðað hvernig aðrar þjóðir hefðu farið að við hin ýmsu verkefni. Úr varð mikið safn upplýsinga og stefnuskráin varð til. Lausnirnar fyrst, síðan fólkið, sem vildi koma fram fyrir stefnuskrárinnar hönd með framboðum sínum og atkvæðum.
Að safnast saman um óvissuna og kaupa köttinn í sekknum
Manni sýnist að hin nýju framboðin hafi orðið til með allt öðrum hætti. Svo virðist sem hópar fólks sem þekktist hafi komið saman með einhverjar óljósar hugmyndir og ákveðið að stofna flokk án þess að málefnaskráin lægi fyrir. Síðan hafi menn reynt að ræða sig inn á eitthvað, sem þeir gátu verið sammála um í meginatriðum og úr urðu flokkar. Það er athyglisvert að fara inn á heimasíður þeirra og lesa afurðirnar, en þar er undantekningarlaust talað mjög almennum fallegum orðum og er þá ekki nema von að hægt væri fyrir alla að samþykkja svonefndar stefnuskrár þeirra. En hvergi er þar stafkrókur um hvernig þetta fólk ætlar að bera sig að þegar á hólminn er komið. Þá er ekki nóg að stefna að og skoða þurfi, sem eru algengustu orðin, sem þar er að finna.
Fjórflokkurinn, er að miklu leyti eins utan málsins um innlimun í ESB, en það er reyndar eina meginstefnumálið hjá ákveðnu afli og græðlingum þess. Gömlu flokkarnir tala líka um að athuga skuli o.s.frv. og tala m.a. um nefndarskipanir til þess að leita lausnanna. M.ö.o. þá vita þeir ekki sjálfir hvað þeir ætla að gera í veigamiklum málum eða þá til hvers fólk ætti að kjósa þá, nema þá af gömlum vana eða ótta við breytingar, jafnvel þótt reynslan undanfarin ár af fjórflokknum ætti að kenna annað.
Eindrægni og raunhæfar lausnir
Hægri grænir hafa lagt fram raunhæfar lausnir á öllum helstu vandamálum þjóðarinnar. Þær eru byggðar á djúpum skilningi og þekkingu og öfgalausri almennri skynsemi. Stjórnmál fjalla einkum um það, sem það heitir, að stjórna þjóðinni, að leiða hana á þær brautir, sem best koma fólkinu og landinu. Í stefnuskránni er talað tæpitungulaust, enginn þarf að efast um fyrir hvað flokkurinn stendur eða hvað hann ætlar sér að gera. Með því að setja X við G í vor geta kjósendur flykkt sér að baki skynseminnar og eignast vonina til betra lífs á ný, því að ef að Hægri grænir fá ekki dúndur fylgi og þar með getuna til athafna, þá mun lítið breytast hér á landi. Það er orðið alveg ljóst.
Kjartan Örn Kjartansson
Höfundur er fyrrv. forstjóri
Veffang: www.xg.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.