Öðruvísi en hver?
Reglulega koma upp í fjölmiðlum sögur af einelti bæði gömlu og nýju. Æði oft rekst ég á þennan frasa. „Um leið og krakkarnir áttuðu sig á að hún/hann væri eitthvað öðruvísi þá hurfu allir.“ Og þá komum við að kjarna málsins. Öðruvísi en hver. Hver er öðruvísi en hinn. Það eru engir tveir einstaklingar eins og þessi árátta hinna svokölluðu „eins aðila“ að útskúfa þeim sem eru „öðruvísi“ er orðin svolítið þreytt.
Í einu orðinu er talað um að verið sé að gera alla eins með þessum eilífu greiningum á börnunum okkar en í hinu orðinu kennum við börnunum okkar að líta niður á þá sem eru „öðruvísi“. Og við foreldrar þessara „öðruvísi“ barna erum í stöðugri réttlætingu bæði gagnvart okkur sjálfum og öðrum. Við erum eilíflega að réttlæta greininguna á börnunum okkar og þá aðstoð eða meðferðir sem börnin fá eftir greininu hvort sem um er að ræða sérkennslu, lyfjagjöf eða eitthvað annað.
Við höfum jafnvel ekki kjark til að segja það upphátt að barnið hafi farið í greiningu. Ég orða þetta oft þannig að ég eigi „greint barn“. (túlkist eins og hver vill).
Snýst þetta ekki um að börnunum líði vel? Stundum heyrist að foreldrar sem hafi tekið þá ákvörðun að reyna að hjálpa börnum sínum með lyfjagjöf séu bara að velja sér billega leið til að takast á við vandamálið, börnin þurfi fyrst og fremst reglufestu, gott mataræði o.s.frv. o.s.frv. Þetta gengur jafnvel svo langt að þeir foreldrar sem velja að nota lyfjagjöf hafa stundum ekki kjark til að viðurkenna það utan heimilisins vegna þess að umræðan snýst ekki um hvort þetta geri barninu gott heldur um þá sem misnota sambærileg lyf.
Ég leyfi mér samt að trúa því að flestir þeir foreldrar sem setja börnin sín á lyf séu að taka slíka ákvörðun að vel hugsuðu máli og hafi jafnvel reynt flest þau ráð sem „sjálfskipaðir ráðgjafar“ hafa ráðlagt þeim.
Mikil ósköp, auðvitað hefur greiningum fjölgað. Við höfum þó þroskast eitthvað eftir því sem árin og aldirnar líða svo við leiðum í dag frekar hugan að líðan og afdrifum barna okkar og annarra heldur en áður var gert. Það voru alveg til lesblind, ofvirk og börn á einhverfurófi áður. Þau voru skilgreind eitthvað á þessa leið.
Lesblinda - Tossi, getur ekki lært. Sendum hann á sjóinn.
Ofvirkni - Óalandi og óferjandi, illa upp alinn. Ekki furða eins og pabbi/mamma hans/hennar var.
Einhverfurófið -Sérvitur – undarlegur – heimaskrítinn.
Í dag vita auðvitað bæði lesblind börn og foreldrar þeirra að barnið getur alveg lært þó það sé lesblint. Þú notar kannski aðrar aðferðir en þeir sem eru ekki lesblindir en það hefur nákvæmlega ekkert með gáfnafar að gera.
Þessi börn sem svona voru skilgreind áður og í dag eru væntanlega orðin fullorðið fólk hefðu örugglega þegið aðstoð eða skilning þegar þau gengu í skóla. Þetta fólk valdi sér ekki þetta hlutskipti. Væri ekki hollt að velta fyrir sér hvernig það hafi verið að vera erfiða barnið, sá sem ber þessa „röskun“ innra með sér, í mörgum tilfellum allt sitt líf. Að vakna á morgnana með allt á hornum sér, ná að gera alla fjölskyldumeðlimi brjálaða og enda með því að rjúka út um dyrnar og skella á eftir sér, þrátt fyrir að langa innst inni að borða morgunmat í rólegheitum og fá faðmlag og koss á ennið áður en haldið er út í nýjan dag. Að sitja í skólastofu og vera búin að pirra samnemendur sína með stríðni og látum en langa mest að fá að leika sér með þeim og fá að upplifa sig sem hluta af hóp, en halda síðan einn heim á leið því hver nennir að vera með óþolandi barninu. Flest þeirra hafa örugglega náð sáttum við sjálf sig og lífið og unnið úr þeirri reynslu sem barnæskan og skólagangan lagði þeim á herðar. En þau hefðu kannsi alveg þegið smá skilning sem börn.
Fólk hristi hausinn í vandlætingu þegar Ómar Ragnarsson gerði Gísla á Uppsölum landsfrægan. Af hverju var karlinum ekki bara leyft að vera í friði fyrst hann vill vera svona. Nú er einmitt verið að ræða það að kannski vildi hann ekki vera svona, tíðarandinn, umhverfið og lífið bauð honum bara ekki upp á neitt annað og því fór sem fór.
Við þurfum að læra að bera virðingu fyrir mannlífsflórunni og koma þeim skilaboðum til barnanna okkar. Lífið væri ekkert skemmtilegt ef við hefðum ekki „öðruvísi“ fólk. Þetta snýst ekki um að verið sé að gera „greindu“ börnin eins og öll hin enda eru þau alls ekki öll eins. Ég kýs frekar að líta svo á að það sé verið að gera þessum börnum kleift að vera „öðruvísi“ og lifa með þeim einkennum og í sátt við sjálf sig. Að vera ekki eilíflega að setja þessi börn í aðstæður sem þau höndla illa eða leggja á þau kröfur sem vitað er að þau standa ekki undir. Kenna bæði þeim og öðrum að bera ábyrgð á sjálfum sér, taka tillit til annarra því nútímasamfélag byggir á því að við berum ábyrgð hvort á öðru. Gagnkvæm tillitssemi og virðing fyrir öllum. Þetta snýst jú allt um að börnunum okkar vegni sem best. Það er eiginlega svolítið sorglegt ef við erum ekki komin lengra en það á 21 öldinni að við séum enn að fela þá sem eru „öðruvísi“ vegna þess að þá komi kusk á okkur „fullkomnu“ aðilana.
Heimurinn verður víst seint fullkomin en reynum að bera virðingu fyrir sjálfum okkur og líka fyrir hinum bæði „eins“ og „öðruvísi“.
Með virðingu.
„Ógreind“ móðir „greinds“ barns
Ásta Ólöf Jónsdóttir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.