Nokkur atriði um velferðarríkið

Mig langar að segja frá einstaklingi. Hann notar að staðaldri ólyfseðilsskyld lyf, sem viðkomandi hefur alltaf fundist dýr. Hann ákvað að prófa fyrir sér og keypti þau í gegn um netið frá Englandi á dögunum. Þau voru seld á venjulegu búðarverði þar með enskum 20% virðisaukaskatti innföldum, álagningu o.s.frv. Varan var send í pósti til landsins og íslenskur tollur og virðisaukaskattur greiddur eins og lög gera ráð fyrir. Allt er þetta frekar ómerkilegt nema það, að varan kostaði svona hingað komin 40% af því, sem hún kostar í apoteki hér á Íslandi.

Ég þekki ekki hvernig lyfjaverð verður til hér á landi, en getur það verið að opinberar álögur eigi þar stóran hlut að máli. Geðsleg tekjuöflun það, ef rétt er, sem mig grunar.

Lyfjaskortur

Sagt er frá því í fréttum, að sjúklingar háðir sérstökum lyfjum fái þau ekki vegna einhverra opinberra hindrana, hugsanlega bæði vegna skrifræðis og fjárskorts. Þá er einnig sagt frá því að nýjustu og bestu sérlyfin séu svo dýr, að þau séu ekki gefin sjúklingum, jafnvel þótt bráðveikir þarfnist þeirra og sé ekki margir að tölu. Sé þetta rétt, þá er illa komið fyrir Íslendingum. Vill einhver ykkar lenda í þessu eða vera sá, sem ákveður hver má og hver skal þjást?

Landspítali

Fjármálaráðherra hefur sagt, að ekki séu til peningar umfram þær tæplegu 400 milljónir kr. sem lagðar hafa verið fram til þess að leysa úr kjaravandanum á Landspítalanum. Nýjustu fréttir herma hins vegar, að ríkisstjórnin sé nýbúin að eyrnamerkja ný útgjöld til ýmissa verkefna upp á kr. 9.500.000.000. Það þarf  ekki að fara langt í listanum yfir þessi nýju útgjöld til þess að rekast þar á nýjar 800 milljónir, sem eiga að fara til Fæðingarorlofssjóðs, þrátt fyrir að hann hafi þegar fengið um 10 milljarða til sín. Peningarnir eiga að fara í að lengja þegar langt fæðingarorlof upp í 1 ár. Einnig að nýjar 1.000 milljónir eigi að fara til frekari þróunaraðstoðar. Ætli velferðinni væri ekki betur þjónað ef þessar 1.800 milljónir væru veittar spítalanum, til þess að létta undir málum þar? Eða þá að fresta að leggja 100.000.000.000 króna í nýja spítalabyggingu, á meðan til eru fyrir byggingar í landinu, sem aðeins þurfa almennilegt viðhald, sem hvort eð er þarf að fara í. Ætli það taki ekki bæði skemmri tíma og minni útgjöld að byrja þar.

Forgangsröðunin enn og aftur

Óeðlilega hátt lyfjaverð, lyfjaskortur og nánast fall Landspítala. Ég hef sagt það áður, en kemst ekki hjá því að endurtaka mig, að það er rangt gefið. Hvernig finnst þér, skattgreiðandi góður, forgangsröðunin hjá norrænu velferðarstjórninni vera á því hvernig peningunum þínum er varið af hinu opinbera? Nú styttist, sem betur fer, í kosningar og þá geta kjósendur refsað þeim, sem svona hafa haldið á málunum.

Kjartan Örn Kjartansson

Höfundur er fyrrv. forstjóri og stðningsmaður XG Hægri grænna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir