Náttúruleg atvinnutækifæri

Eins og öllum er kunnugt fer hlutur ferðaþjónustu, sem atvinnugreinar á Íslandi, ört vaxandi og er nú orðin ein mikilvægasta atvinnugrein landsins. Aukning ferðamanna til landsins hefur þrefaldast frá árinu 2000 og var aukning milli áranna 2012 og 2013 um 20%. Fjöldi erlendra gesta nálgast nú óðfluga milljón manns ár hvert.

Síðastliðin þrjú ár, hef ég í störfum mínum tengdum ferðaþjónustu notið þeirra forréttinda að taka á móti miklum fjölda og ekki síður afar fjölbreyttum hópi innlendra og erlendra ferðamanna sem sótt hafa okkur Skagfirðinga heim. Á þessum tíma hef ég því haft kjörið tækifæri til þess að hlusta eftir því hvað dregur ferðamenn hingað. Máltækið „glöggt er gests augað“ á hér afar vel við og oft sjá gestir hluti sem við erum hætt að sjá, eða jafnvel áttuðum okkur ekki á að væru markverðir. Mig langar að deila upplifun minni af því hvað ég tel að dragi ferðamenn í Skagafjörð.

Mjög margir koma vegna náttúru fjarðarins, eyjanna, fuglalífsins, fjallanna, náttúrulauganna, sólarlagsins og víðáttunnar. Margir koma vegna þeirrar afþreyingar sem í boði er, m.a. hestaferða, flúðasiglinga á Jökulsánum, Drangeyjarsiglinga og alls þess sem svæðið hefur uppá að bjóða í hvers konar afþreyingu. Stór hópur sækir okkur heim til að upplifa annálaða skagfirska gestrisni. Aðrir hafa áhuga á stórmerkri sögu héraðsins og fjölbreyttri flóru menningaratburða og er þar ótrúlega margt í boði. Stór hópur sem vert er að nefna, á rætur hingað og heldur tryggð við heimahaga, kemur hér ár hvert, jafnvel oft á ári og kaupir hér þjónustu eins og aðrir ferðamenn.

Að sjálfsögðu eru svo margir sem staldra við hér á leið sinni annað, enda Skagafjörður í þjóðbraut, eða eru hingað mættir á viðburði hvort heldur eru íþrótta- eða menningatengdir. Það fólk er ekki síður fróðlegt að ræða við og eðli máls samkvæmt, þá reyni ég í starfi mínu að freista fólks með allri þeirri dásemd sem héraðið býður uppá. Sá hluti starfs míns og sá allra skemmtilegasti og mest gefandi er einmitt þegar maður nær að opna augu fólks fyrir tækifærum Skagafjarðar.

Tækifæri okkar Skagfirðinga til sóknar á sviði ferðamála eru fjölmörg en reynsla mín er sú að öll byggja þau á því að við stöndum vörð um náttúru svæðisins og vil ég með þessari grein vekja athygli á mikilvægi þess að Skagfirðingar hugi vel að þeirri auðlind sem í náttúru svæðisins felst.

Ég legg áherslu á nauðsyn þess að við hugsum til enda þær ákvarðanir sem teknar eru inni á skrifstofum sveitastjórnar og snúa að auðlindum okkar og komandi kynslóða, þær ákvarðanir má ekki taka til að afla stundar vinsælda eða til þess að bjarga málum þegar illa árar.

Virkjanir í Jökulsánum, lagning Blöndulínu ofan jarðar og aðrar slíkar framkvæmdir sem hafa áberandi neikvæð áhrif á möguleika og orðspor okkar Skagfirðinga eru ekki til þess fallnar að styðja við þá mikilvægu atvinnugrein sem ferðaþjónustan er og því erum við hjá VG og óháðum stolt af því að hafna slíkum framkvæmdum alfarið.

Megi sumarið verða okkur Skagfirðingum gott,

Hildur Þóra Magnúsdóttir,
frambjóðandi VG og óháðra í komandi sveitastjórnar kosningum.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir