Naflinn á Norðurlandi vestra :: Leiðari Feykis
Ársþing KSÍ fór fram fyrir stuttu á Ísafirði að viðstöddum stjórnum og ráðum sambandsins ásamt fulltrúum íþróttafélaga víðs vegar að af landinu. Eftir athugun kjörbréfanefndar kom í ljós að litlu mátti muna að þingið teldist ólöglegt þar sem rétt yfir helmingur kjörinna fulltrúa voru mættir við setningu þess. Þar mátti kenna veðri að einhverju leyti um því flugi til Ísafjarðar hafði seinkað og einhverjum hefur efalaust fundist landleiðin það löng að ekki væri þess virði að eyða tíma í þá keyrslu.
Alls áttu 144 fulltrúar rétt til setu á ársþingi KSÍ að þessu sinni en aðeins 70 voru mættir við þingsetningu eða 50,7%. Eftir hádegið fjölgaði örlítið eftir að náðist að fljúga sex fulltrúum í viðbót vestur og hlutfallið hækkaði í 55%.
Fram kom í snaggaralegri yfirferð gjaldkera um reikninga síðasta árs að tekjur umfram gjöld hafi verið tæpar 299 milljónir króna en í áætlun hafði verið gert ráð fyrir rúmlega 136 milljónum og mátti skýra þann mun að mestu leyti með hækkun sjónvarpsréttarsamninga og mótvægisstyrk ríkisstjórnarinnar vegna Covid. Hagnaður ársins 2022 var kr. 156.862.704. Ýmis mál voru rædd á þinginu og m.a. voru tillögur um breytingar á lögum og reglugerðum teknar til afgreiðslu.
Þetta er fyrsta ársþing KSÍ sem ég sit, og kannski það eina, en ég bauðst til að fara með frúnni þegar ljóst var að hún væri sú eina sem kæmist á þingið úr stjórn knattspyrnudeildar Tindastóls. Góður liðsauki barst okkur eftir að við mættum vestur þar sem ektamaður formanns sambandsins var munstraður í hópinn. En hvað um það.
Þar sem leiðin til Ísafjarðar er löng og ekki alltaf hægt að treysta á loftsamgöngur var það ágætis lexía fyrir hvern þingfulltrúa að upplifa vegalengdirnar sem sum íþróttafélög standa frammi fyrir þegar farið er til keppni. Í mjög svo athyglisverðu málþingi, sem haldið var á föstudeginum, kom það skýrt í ljós í máli Jóns Hálfdáns Péturssonar, um áskoranir og tækifæri í knattspyrnustarfinu á Vestfjörðum, hve aðstöðumunur liða er misjafn á landsbyggðinni. Íþróttafélagið Vestri er eitt þeirra félaga sem lengst þurfa að sækja sínar keppnir en þrjá til fjóra klukkutíma tekur það að komast akandi út af Kjálkanum og þá á eftir að keyra suður, norður eða austur til að komast á keppnisstað og svo heim aftur.
Sömu sögu er að segja um þau sem búa á Höfn í Hornafirði líkt og kom fram í erindi fyrrverandi atvinnumannsins og varnarjaxls íslenska landsliðsins Ívars Ingimarssonar, í hans erindi. Sjálfur ólst hann upp á Stöðvarfirði en hann benti á í sínu máli hve mikið iðkendum hafi fækkað á landsbyggðinni sem leitt hafi til samþjöppunar félaga og áhrif þeirrar þróunar á byggðirnar. Benti hann m.a. á að kvennalið Sindra hafi ferðast sem nemur vegalengdinni frá Íslandi til höfuðborgar Suður-Afríku síðasta keppnistímabil. Geri aðrir betur.
Eftir málþingið sá ég að við á Norðurlandi vestra erum í raun í ágætum málum, verandi úti á landi. Eiginlega má segja að sannast hafi það sem löngu er vitað að við séum í naflanum.
Góðar stundir
Páll Friðriksson
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.