Litlar breytingar geta breytt miklu fyrir marga

Eftir tíu ára fjarveru og tvær háskólagráður flutti ég aftur á heimaslóðir í Skagafirði árið 2007. Ég var efins í fyrstu, hélt að hér væri lítið að gerast og ætlaði að stoppa stutt. Annað kom á daginn, hér er ég enn, horfi á börnin mín blómstra í námi, íþróttum og tómstundum og er sjálf í frábæru starfi á góðum og framsæknum vinnustað, Árskóla.

En sem einstæð þriggja barna móðir veit ég hvað kostar að reka fjölskyldu í sveitarfélaginu Skagafirði. Hækkanir á leikskólagjöldum og skólamáltíðum skipta sveitafélagið kannski ekki miklu máli í stóra samhenginu, en þessar hækkanir koma sannarlega við fjölskyldufólk. Almennt gjald fyrir átta tíma vistun er 11.415 krónum dýrara á mánuði hér en í Reykjavík. Einstæðir, öryrkjar og námsmenn greiða 12.741 krónu meira á mánuði fyrir sömu vistun í okkar sveitarfélagi en í Reykjavík. Ég veit ekki með aðra, en mig munar um þessar tæpu 153.000 krónur á ári.

Framsókn lofaði fjölskylduvænu samfélagi fyrir síðustu kosningar en meirihlutinn hækkaði leikskólagjöld tvisvar á kjörtímabilinu. Nú eru hér einna dýrustu leikskólagjöld landsins og fá einstæðir foreldrar, öryrkjar og nemar hlutfallslega lægri afslátt af vistunargjöldum en víða annarsstaðar. Aðkeyptar skólamáltíðir hafa einnig hækkað og væri ákjósanlegt að nýta eldhús í Árskóla og Ársölum til þess að elda hollar máltíðir fyrir börnin okkar á staðnum, eins og gert er í hinum grunnskólum og leikskólum Skagafjarðar.

Hvatapeningar til niðurgreiðslu tónlistar, íþrótta og annarra tómstunda eru frábært framtak en þeir hafa ekki hækkað frá því þeir voru settir á árið 2007. Sambærilegir tómstundastyrkir eru allt upp í 60.000 krónur í öðrum sveitarfélögum en 8.000 krónur hér. Á tímum leikjatölva og snjalltækja hefur aldrei verið meiri ástæða til að hvetja börn til íþrótta- og tómstundaiðkunar. Það er mikilvægt að öll börn hafi jöfn tækifæri til þeirrar iðkunar óháð fjárhagsstöðu heimila, því þarf að hækka hvatapeninga verulega og tryggja fjölbreytt val afþreyingar. Ekki einungis er íþróttaiðkun ein besta forvörnin, heldur er fátt sem þjappar samfélaginu saman líkt og íþróttirnar gera. Það geta allir sameinast um að halda með sínu liði og er stemmingin í Síkinu að undanförnu sönnun þess.

Talsvert vantar upp á að skólahúsnæði allra grunnskólanna í héraðinu sé viðunandi. Fáir vinnustaðir myndu sætta sig við þá vinnuaðstöðu sem börnunum okkar er boðið í Grunnskólanum austan Vatna, í Varmahlíðarskóla og í A-álmu Árskóla. Um leið þarf að bæta starfsumhverfi kennara t.d. með meiri sérfræðiþjónustu. Enginn Náms- og starfsráðgjafi er starfandi í héraðinu og bið er eftir tímum hjá sálmeðferðaraðila. Skortur á slíkri þjónustu bæði eykur álag á kennara og bitnar á þeim börnum sem þurfa sannarlega á þessari þjónustu að halda. Síðast en ekki síst þá þarf að leysa leikskóla- og dagvistunarúrræði sem fyrst í héraðinu öllu og er mikilvægt að vinna að lausnum á slíkum málum í samvinnu við íbúa.

Ég býð fram krafta mína til að vinna af raunsæi að því að gera sveitarfélagið okkar eftirsóknarverðara með góðri grunnþjónustu og traustu samfélagi.

Það er hægt með því að breyta mörgum litlum hlutum sem breyta miklu fyrir marga.

Álfhildur Leifsdóttir

Höfundur skipar 2. sæti VG og óháðra

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir