Lífið í sveitinni :: Áskorandapenninn Valgerður Kristjánsdóttir Mýrum
Nú vorar og sól hækkar á lofti, náttúran vaknar öll. Fuglarnir eru að koma, hér eru túnin full af gæsum og helsingjum á morgnana þegar maður vaknar. Morgnarnir eru fallegasti tími dagsins hér á Mýrum, þá er logn og oft sól á lofti. Loftið er svo tært og hreint og maður getur ekki annað en teygt úr sér og notið þess að vera bara til. Allt lítur betur úr þegar fer að vora.
Rjúpurnar sem ég er að dást að eru byrjaðar að verða brúnar, hrafninn er búinn að verpa í laupinn sinn og skógarþrestirnir syngja. Nú eru ærnar okkar farnar að fara út í réttina, þessar tvílembdu sem eru á gjafagrind. Þær stinga nefinu upp í lofti og hnusa fegnar að komast út undir bert loft eftir inniveruna í vetur. Það er búið að hreinsa réttina, skipta um möl í henni og setja upp nýjar þakrennur svo allt sé eins hreint og fínt og hægt er áður en sauðburður hefst.
Karl minn vaknar eldsnemma á morgnana á meðan enn er frost til að dreifa skít og má segja að peningalyktin af honum liggi í loftinu. Vart má á milli sjá hvor þeirra frænda á Mýrum eru harðari í skítakeyrslunni.
Þau vátíðindi bárust á dögunum að riða væri komin upp í Miðfirði, á bæjunum Bergsstöðum og á Urriðaá. Nú er búið að lóga þar öllum ám og hrútum og ýmist brenna eða grafa. Það að fá riðu í Miðfjörð var mikið reiðarslag fyrir okkur. Húnavatnssýslur byggjast mikið upp á sauðfjárrækt og er það eitt aðal lifibrauð manna hér. Sauðkindin hefur fylgt manninum frá byggð Íslands og þjóðin lifað á henni. Til gamans má geta að á Hvammstanga er ekki stytta af manni, eins og víða má sjá, heldur sauðkind, nánar tilgreint hrút, fyrir framan sjúkrahúsið á þar til gerðum hring sem hægt er að aka umhverfis. Þetta er hinn myndarlegasti hrútur og gleður eflaust gamlingjana og alla íbúa staðarins.
Nú eru stjórnmálamenn komnir í málið og farnir að lofa fé til rannsókna á riðunni svo landið verði ekki fjárlaust áður en við vitum af. Það verður sauðkindinni og okkur bændum kannski til happs að ARR arfgerð fannst í einni hjörð nýverið og munu menn leggja kapp á að gera allan íslenska fjárstofninn þolinn gegn riðuveiki. Þar fer fremst í broddi fylkingar Karólína í Hvammshlíð, ásamt fríðu föruneyti erlendra sérfræðinga, og vil ég færa henni mínar bestu þakkir fyrir.
Í haust eru liðin 20 ár síðan ég flutti á Hvammstanga með drengina mína þrjá og tók við sem kaupfélagsstjóri hjá Kaupfélagi Vestur Húnvetninga. Það voru erfiðir tímar og vil ég nú þakka samstarfsfólki mínu fyrir góð störf. Kaupfélagið starfar enn. Haustið 2004 bauð ungur bóndi mér í mat á Heggstaðanesið og matarboðið stendur enn og ég er enn að njóta. Húnvetningar eru gott fólk og tóku mér vel.
Ég skora á Sigurð Ingva Björnsson, bónda á Bálkastöðum, til að vera næsta áskorendapenna.
Skrifað á sumardaginn fyrsta.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.