Landsbyggðin er látin blæða

Umræðan um innanlandsflugið hefur mjög hverfst um Reykjavíkurflugvöll og framtíð hans. Þar er sannarlega mikið í húfi og engin ástæða til þess að gera lítið úr því. En mesta ógnin sem innanlandsflugið stendur frammi fyrir einmitt núna, stafar af látlausum hækkunum opinberrar gjaldtöku.  Þar er engu eirt. Ríkisvaldið hefur hækkað gjaldtöku af innanlandsflugi um 130 prósent frá árinu 2009.

Opinber gjaldtaka af innanlandsflugi var 181 milljón króna árið 2009. Síðan hefur gjaldtakan aukist linnulítið. Enn ein gjaldahækkunin tekur gildi  1. apríl næst komandi. Áætlað er að heildargjaldtakan verði á þessu ári 415 milljónir króna. Þessi gjaldtaka er um það bil 10% af heildarveltu innanlandsflugsins. Þar fyrir utan greiðir innanlandsflugið auðvitað skatta, eins og annar atvinnurekstur auk skatta og útsvarstekna af starfsfólki.

130% hækkun ofan í verri rekstraraðstæður

Þetta er auðvitað algjörlega fáheyrt. 130% hækkun gjalda af atvinnurekstri sem býr þess utan við erfiðar rekstrarlegar aðstæður er fullkomlega fráleitur. Innanlandsflugið hefur tekjur sínar að lang mestu í íslenskum krónum. Vegna gengislækkana hefur margs konar erlendur kostnaður hins vegar rokið upp. Eldsneytisverð hefur hækkað gríðarlega, jafnt á erlendum mörkuðum og vegna áhrifa gengisbreytinga. Sama má segja um kaup á margs konar aðföngum frá útlöndum, svo sem á varahlutum, tryggingum og fleira.

Ríkisstjórnin hefur ofan í allt þetta ákveðið að stórauka álögur sínar á innanlandsflugið, vitandi vits um hina þröngu rekstrarlegu stöðu. Þarna er á ferðinni klár stefnumótun, þó fyrir liggi upplýsingar um þröng rekstrarskilyrði atvinnugreinarinnar. Þetta verður ekki afsakað með skorti á upplýsingum. Þær liggja allar fyrir. En samt er þetta gert.

Förum yfir þróun þessarar gjaldheimtu frá árinu 2009 til ársins í ár:

·         Farþegaskattar, hækkun um 90%

·         Lendingargjöld, hækun um 142%

·         Ný gjaldtaka, svo sem  leiðarflugsgjald, kolefnisgjald eða ETS.

 

Hverjar eru svo afleiðingarnar?

Kostnaður þeirra sem nýta innanlandsflugið vex. Smám saman verður það ofviða alltof mörgum að nýta sér þennan samgöngumáta. Þó eiga margir engra annarra kosta völ. Til Reykjavíkur þarf almenningur að sækja sér margs konar þjónustu. Heilbrigðisþjónustan á landsbyggðinni hefur versnað á síðustu árum og fólk utan Reykjavíkur neyðist því til að sækja hana í vaxandi mæli. Margs konar önnur þjónusta, svo sem menntun,  hefur verið byggð upp í Reykjavík og þar er stjórnsýslan að mestu. Innanlandsflugið hefur verið lykillinn að aðgengi landsbyggðarfólks að öllu þessu, auk annarrar þjónustu.

Sama er að segja um atvinnulífið. Framleiðslufyrirtæki sem starfa utan höfuðborgarsvæðisins þurfa að reiða sig á innanlandsflugið. Sama er auðvitað að segja um aðra atvinnustarfsemi og þann litla hluta opinberrar þjónustu sem á landsbyggðinni er og þarf að rækja tengsl við stjórnsýsluna á höfuðborgarsvæðinu.

Ferðaþjónustan er vaxandi atvinnugrein. Oft er talað um að tækifæri landsbyggðarinnar muni ekki síst liggja á þeim slóðum. Það er allt rétt og satt. En stórhækkuð gjaldtaka í annanlandsfluginu leggur risastóran stein í götu slíkrar uppbyggingar. Ferðamenn sem fara út á land, nýta sér gjarnan innanlandsflugið. Nú er verið að torvelda allt slíkt. Með hækkandi flugfargjöldum verður það síður fýsilegt. Því veldur ekki síst gjaldagleði ríkisvaldsins.

Gjaldahækkanirnar eru torvelda allt þetta. Það verður erfiðara og óhagkvæmara að búa og reka fyrirtæki á landsbyggðinni. Gjaldahækkanir ríkisvaldsins eru þess vegna hreint óhæfuverk gagnvart landsbyggðinni.

Farþegum í innanlandsflugi fer fækkandi

Þetta er farið að taka sinn toll. Ráðstöfunartekjur íbúa landsbyggðarinnar sem þurfa að nýta innanlandsflugið lækka.Það verður síður kostur að kjósa sér þar búsetu. Gjaldahækkanirnar eru því eins konar and - byggðastefna.

Við sjáum þetta líka birtast í því að nú hefur dregið úr farþegafjölda í innanlandsfluginu. Farþegum fjölgaði þrátt fyrir allt fyrstu þrjá mánuði ársins 2012. Eftir það fór þeim að fækka að nýju. Og hvað ætli hafi valdið því? Þann 1. apríl árið 2012, hækkaði farþegaskattur um 71%, lendingargjöld um 72%, og flugleiðsögugjöld um 22%. Þetta leiddi til hærri fargjalda, með afleiðingum sem fyrirsjánleg voru.

Skrýtin og mótsagnakennd skilaboð

Stjórnvöld prísa mjög almenningssamgöngur og segjast vera boðberar þeirra. Innanlandsflugið er hins vegar gott dæmi almenningssamgöngur. Í fyrra voru farþegar í innanlandsflugi 370 til 380 þúsund og hafði þá fækkað um 3% frá árinu áður. Á sama tíma og varið er opinberum fjármunum til annarra almenningssamgangna, sem hér er ekki gagnrýnt, er sérstök skattheimta á innanlandsflugið aukin um 130% á kjörtímabilinu. Þetta eru skýr skilaboð, en hins vegar alveg stórskrýtin.

Þetta eru afleiðingarnar

Drögum þetta saman. Gjaldahækkanir í innanlandsflugi nema um 130% á kjörtímabilinu. Þetta er augljóslega meðvituð stefna. Afleiðingarnar eru verri aðgangur landsbyggðarinnar að nauðsynlegri þjónustu, stórversnandi kjör þeirra sem flugið nýta, lakari rekstraraðstæður fyrirtækja á landsbyggðinni,  skert samkeppnisstaða ferðaþjónustufyrirtækja á landsbyggðinni, verri rekstrarafkoma flugfélaganna, minni farþegafjöldi, sem veikir fyrirtækin til lengri tíma og óvissa um framtíð þessarar mikilvægu þjónustustoðar.

Einar Kristinn Guðfinnsson, alþingismaður

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir