Landsbyggðarskattur Framsóknar

Framsóknarflokkurinn fer nú með himinskautum og lofar lækkun skulda og afnámi verðtryggingar án þess að geta svarað fyrir hvernig eigi að fjármagna þennan 240 milljarða kosningavíxil. Það verði sett í nefnd. Loforð framsóknarmanna um flata niðurfellingu skulda hefði verið dýrasta leiðin til þess að mæta skuldavanda heimilanna. Flöt niðurfelling hefði niðurgreitt skuldir aðila sem ekki voru í erfiðleikum með að standa undir lánum sínum en hefði á hinn bóginn ekki dugað þeim sem mest þurftu á stuðningi að halda, þeir hefðu áfram verið í óleystum skuldavanda.

Við Vinstri græn viljum vinna að áframhaldandi stuðningi við heimilin, með aðgerðum sem nýtast þeim sem helst þurfa á hjálp að halda. T.d. þeim sem tóku lánin á óhagstæðum tíma eða keyptu sína fyrstu íbúð á árunum fyrir Hrun.

Sú mikla eignabóla sem varð í landinu fyrir Hrun varð á Suðvesturhorni landsins og þar af leiðandi liggur skuldavandi vegna fjármögnunar húsnæðiskaupa fyrir Hrun hlutfallslega mestur á því svæði.

Landsbyggðin hafði ekki sama aðgang að fjármagni og höfuðborgarsvæðið og kannski eins gott eftir á að hyggja þegar allt fjármálakerfið sprakk framan í andlit landsmanna við Hrunið.

Þess vegna er það óforskammað af Framsóknarflokknum að ætla landsbyggðinni og komandi kynslóðum að standa undir lækkun fasteignaskulda efnaðs fólks á höfuðborgarsvæðinu burt séð frá getu þeirra til að standa undir greiðslubyrði og færa byrðarnar í formi vaxta og skatta á þann hóp landsmanna sem minna aðgengi hafði að lánsfé og fór varlega í skuldsetningu.

Fjöldi fólks yrði í sömu stöðu og fólk á landsbyggðinni og myndi fá minna en ekki neitt út úr flötum fokdýrum loforðum Framsóknarflokksins. Það á við um alla leigjendur og alla þá sem enn hafa ekki keypt sér húsnæði ásamt því eldra fólki sem búið er að borga niður sitt eigið húsnæði.

Framsóknarflokkurinn hefur ekki geta svarað því með neinum rökum né trúverðugleika hvaðan eigi að fá fjármagn til að lækka verðtryggð húsnæðislán sem gæti kostað allt frá 240 til 400 milljarða króna.  Ef hugmyndir Framsóknarflokksins gengju eftir væri það ein stærsta eignatilfærsla sögunnar frá landsbyggðinni og tekjulægri hópum í öllu landinu til þeirra efnameiri á suðvesturhorni landsins.

Stjórnvöld hafa með markvissum aðgerðum unnið að því að gera heimilunum kleift að ráða við skuldir sínar í þeim erfiðleikum sem Hrunið hefur valdið. Samanburður við önnur lönd á krepputímum bendir til þess að hvergi hafi jafn mikið verið gert og með jafn góðum árangri. Þar hafa vegið þungt stórauknar vaxtabætur og barnbætur sem skipta ungar barnafjölskyldur miklu máli til að létta á greiðslubyrði heimilanna auk þess hafa skuldir þeirra sem verst stóðu verið lækkaðar. Vinstri græn vilja enn auka þennan stuðning. Þannig munu takmarkaðir fjármunir ríkissjóðs nýtast þessum fjölskyldum best.

Gengislánadómar hafa lækkað húsnæðislán um allt að helming en þau lán eru fyrst og fremst á höfuðborgarsvæðinu því þar voru veðin til staðar.

Einnig hefur jöfnuður aukist með þrepaskiptu skattkerfi og njóta þeir tekjulægri og millitekjuhópar þess  í hlutfallslega lægri sköttum. Framsóknarflokkurinn sá ekki ástæðu til að styðja nýsamþykkt lögum um neytendalán, en þar er dregið úr vægi verðtryggingar og komið í veg fyrir okurlánastarfsemi. Vinna er í gangi við endurskoðun löggjafar um fasteignaveðlán með það að markmiði að auka framboð á óverðtryggðum lánum, ásamt því að draga úr vægi verðtryggingar og gæti frumvarp þar um legið fyrir innan skamms tíma.

Þess má geta að  frá Hruni hafa fasteignaútlán bankanna nær eingöngu verið óverðtryggð lán  og unnið er að því að Íbúðarlánasjóður geti einnig boðið upp á óverðtryggð lán.

Það er mikilvægt að minnka vægi verðtryggingar og um það virðast allir flokkar vera sammála. Hinn raunverulegi vandi er samt auðvitað verðbólgan sjálf sem  nauðsynlegt er að halda í skefjum með góðri efnahagsstjórn. Þar standa stjórnvöld á hverjum tíma vaktina og núverandi ríkisstjórn staðið sig vel miðað við fordæmalausar aðstæður, en þeirri vakt líkur aldrei.

Þá komum við að kjarna málsins góð efnahagsstjórn verður ekki rekin með óábyrgum loforðaflaumi um hundruð milljarða niðurfærslu lána sem óljóst er hver á að borga eða stórfelldar skattalækkanir til hátekjufólks á kostnað þeirra tekjulægri eins og Sjálfstæðisflokkurinn boðar.

Vinstri græn eru niðri á jörðinni og vilja ekki stunda óábyrg yfirboð við viljum byggja ofan á þann mikla árangur sem náðst hefur en ekki glutra honum niður í yfirboð framsóknar og sjálfstæðismanna sem stýrðu okkur inn í Hrunið árið 2008 . Verum minnug þess þegar yfirboðin gjalla sem hæst að „Glymur hæst í tómri tunnu“.

Lilja Rafney Magnúsdóttir alþingismaður.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir