Landbúnaður í sókn- Gerum betur
Heilsuprótín er ný verksmiðja við Mjólkurstöðina á Sauðárkróki, sem vinnur prótin efni úr allri þeirri mysu sem fellur til við ostagerð í mjólkurvinnslunum á Vestur-, Norður- og Austurlandi. Áætluð ársframleiðsla verksmiðjunnar er um 350 tonn af prótínefni og framleiðslan fer á markað bæði hér innanlands og erlendis m.a. til stórra kaupenda í Bandaríkjunum. Verksmiðjan var opnuð formlega við hátíðlega athöfn sl.laugardag.
Heilsuprótín- Stórt umhverfismál
Til þessa hefur mysan að mestu verið vannýt og henni hent. Hér er því um stórfellt átak að ræða bæði í umhverfismálum og í fullnýtingu dýrmætra framleiðsluafurða frá mjólkuriðnaðinum. Það að mjólkuriðnaðurinn í heild sinni geti unnið saman á landsvísu í verkefnum sem þessum er afar mikilvægt í litlu landi sem Íslandi. Síðari hluti verksmiðjunnar, sem gert er ráð fyrir að taka í notkun eftir tvö ár er ætlað að vinna og framleiða ethanol, hreinan vínanda úr mjólkursykri ostamysunnar. Mjólkursamsalan og Kaupfélag Skagfirðinga eiga heiður skilið fyrir þetta sameiginlega stóra átak.
Fullvinnsla er framtíðin
Það var tekist á um það á sínum tíma hvort ætti að skylda útgerðarfyrirtæki og fiskiskip til að koma með allan afla að landi, hvort sem það voru hausar, lifur. hryggir eða slóg. Töldu ýmsir þá að slík kvöð yrði of mikill baggi fyrir útgerðina að bera. Árið 2010 setti þáverandi sjávarútvegsráðherra Jón Bjarnason reglugerð sem skyldaði útgerðir til að koma með allan afla að landi.
Nýting alls sjávarafla
Mér er þetta minnisstætt því faðir minn var þá sjávarútvegsráðherra og fékk mjög bágt fyrir hjá mörgum útgerðamanninum fyrir þá ákvörðun. En reglugerðin um fullvinnslu sjávarafla og ákvæði um koma með allt í land var einmitt studd vel af framkvæmdastjóra Fiskiðjunnar hér á Sauðárkróki, Jóni -Eðvald Friðrikssyni Ég var oddviti sveitarstjórnar hjá Sveitatfélaginu Skagafirði á þeim árum og fylgdist vel með átökunum um þetta mál og hvernig tókst að sigla því í höfn. Nú eru margar af þessum aukafurðum í fiskvinnslunni jafnvel verðmætustu hlutar framleiðslunnar og engum dettur í hug að fleygja afskurði og fiskslógi lengur í sjóinn. En þarna var tekið af skarið.
Mjólkuriðnaðurinn staðið sig vel
Mjólkuriðnaðurinn í landinu hefur staðið sig með mikilli prýði í þróun og markaðssetningu mjólkurvara á undanförnum árum. Það átak sem nú er hrint úr vör með vinnslunni - Heilsuprótín- mun örugglega styðja við nýtt þróunar og sóknarskeið fyrir íslenska mjólkurframleiðslu og vinnslu hágæða vöru bæði á innanlandsmarkað sem og á heimsmarkað.
Matarkistan
Matvælavinnsla er ein af hornsteinum byggðar og atvinnulífs hér í Skagafirði og Húnavatnssýslum . Hin nýja verksmiðja, Heilsuprótín er stórmerkur áfangi ekki aðeins á héraðs- heldur einnig á landsvísu, sem við getum öll verið stolt af.
Bjarni Jónsson
Skipar 2. sæti á lista VG í Norðvesturkjördæmi
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.