Lágmarkslaun lögbundin, hækkun skattleysismarka, lækkun gjalda
Eins og vinnulöggjöfin er í dag, þá eru það samtök atvinnulífsins, sem sjá að mestu um samninga um kaup og kjör. Höfundi finnst persónulega, að það megi auðvitað velta því fyrir sér, hvort að það sé eðlilegt að þvinga fólk í sérstakt verkalýðsfélag, sem hafi einkarétt á velferð þess, þótt það ráði litlu sem engu í félaginu? Í lýðræðisþjóðfélagi ætti það að vera hverjum og einum frjálst að velja sér sitt félag eða þá að velja að standa utan þeirra.
Það sama á líka við um lífeyrissjóðina, en það er furðulegt, að eigendur þeirra fari ekki með stjórn þeirra, heldur samtök atvinnulífsins, sem þurfa ekki að svara einum eða neinum um gjörðir sínar eins og dæmin sanna. Mér finnst líka að ríkisvaldið eigi að skipta sér sem allra minnst af kjarasamningum, en ríkið getur þó komið á góðu fordæmi til þess að tryggja þeim lægst launuðu lágmarks framfærslu.
Lágmarkslaun og hækkun skattleysismarka
XG-Hægri grænir, flokkur fólksins hefur sett sér að rétta kjör þeirra, sem verst eru settir ef hann verður kosinn til þess. Stefnan er að lögleiða hér lágmarkslaun, sem enginn launagreiðandi má fara niður fyrir. Hugmyndin í dag er, að þetta lágmark verði kr. 240.000 á mánuði eða ca 1.400 krónur á tímann og að skattleysismörk verði einnig hækkuð eða í kr. 200.000 á mánuði. Þá vill flokkurinn afnema tekjutengingar Tryggingastofnunar ríkisins fyrir þá, sem þær þyggja, enda finnst honum þær óheiðarlegar og að fólk eigi að fá að njóta ráðdeildar sinnar eða dugnaðar og sjálfsbjargarviðleitni.
Almenn lækkun skatta, lækkun tryggingargjalds, afnám tolla
Flokkurinn vill einnig einfalda skattkerfið, sem er orðið æði flókið á köflum, svo venjulegt fólk fær varla skilið. Flokkurinn kallar stefnuna flatan 20/20, en í því felst að tekjuskattur á allt og alla verði flatur 20% og virðisaukaskattur 20% á allt nema matvæli, sem verði áfram 7%. Þessu markmiði vill flokkurinn ná fram í þrepum á 4 árum. Þá vill flokkurinn lækka tryggingargjald á fyrirtæki niður í 3% strax og styðja þannig við þau og möguleika þeirra til þess að ráða fólk í vinnu. Einnig vill flokkurinn afnema tolla á fatnaði og fjárfestingarvörum til þess að koma fólkinu sem best, verslunina inn í landið og betri möguleikum á atvinnuskapandi fjárfestingum.
Hægri grænir er flokkur fólksins
Ofangreint verður fjármaganð með endurheimtum blóðpeninga hrægammanna, lækkun 100 milljarða vaxtakostnaðar ríkissjóðs, réttri forgangsröðun og sparnaði annars staðar, eins og ég hef áður lýst. XG vill að hið opinbera verði minnkað og að fólkið í landinu fái meira til sín og haldi meiru eftir. Hið opinbera á að þjóna fókinu, en ekki öfugt. Við eigum auðvitað að halda sameiginlegum kostnaði við rekstur ríkisins í því lágmarki, sem dugar fyrir velferð rúmlega 320 þúsund manna smáþjóðar, en ekki vera að glenna okkur um og of og reyna að líkjast þeim, sem stærri og voldugri eru.
Kjartan Örn Kjartansson
Höfundur er varaformaður Hægri grænna
og í 1. sæti á lista flokksins í Reykjavík norður
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.