Kosningar framundan
Löggjafinn þ.e. þingmenn hefðu getað breytt lögum um verðtryggingu á því kjörtímabili sem nú er senn á enda. Þess í stað var keyrt áfram með verðtrygginguna óbreytta í kjölfar bankahruns og gengisfalls krónunnar með afdrifaríkum afleiðingum fyrir lántakendur. Vextir ásamt verðtryggingunni fóru á tímabili yfir 20 %. Í stað þess var gripið til sértækra aðgerða fyrir þá sem verst voru settir. Hluti af þeim aðgerðum var hin svonefnda 110 prósenta leið í bland við lausnir umboðsmanns skuldara sem þykja bæði niðurlægjandi og tóku sinn tíma.
Lántakendur þurftu jafnframt að leggja í tímafrekar og kostnaðarsamar dómstólaleiðir til að fá lögleysum hnekkt svo sem gengistryggðum lánum. Nú er verðtryggingin sjálf á leið fyrir dóm og þýðir gjaldþrot fyrir ríkissjóð ef úrskurðað verður lántakendum í vil og bakagreiðslur komi til með að ná langt aftur í tímann. Í mínum huga miðast tíminn aftur til 2006 og ríkið er ábyrgt fyrir ofteknum vöxtum á lánum Íbúðarlánasjóðs, sem er langstærstur lánveitandi til íbúðakaupa. Hvort sem þetta var forsendubrestur, svokölluð stökkbreyting lána eða einungis rangar forsendur neysluvísitölugrunns á tímum bankahruns og gengisfalls, þá var um oftekna vexti auk verðtryggingar að ræða. Á árunum 2006 til 2010 er lauslega áætlað að upphæðir sem um ræðir nemi 100 - 200 milljörðum og þeim ber að skila til lántakenda. Ekki með hókus pókus aðferðum gegnum skattkerfið heldur með endurgreiðslu á stórum hluta vaxta / verðtryggingar auk lækkunar höfuðstóls lána.
Nú verður kosið um tækifærið sem fór forgörðum
Núverandi ríkisstjórn var í lófa lagið að að setja lög sem drægju úr vægi verðtryggingarinnar, eða með neyðarlögum ef þess þurfti með. Þess í stað var málið sett í nefnd þar sem hagsmunaaðilar lánastofnanna og lífeyrissjóða áttu setu og niðurstaðan varð sú að ekki mætti hrófla við verðtryggingunni. Með því að leggja fram frumvarp þessa efnis geta stjórnvöld það enn þótt tíminn sé naumur. Í stað þess hafa lánastofnanir siglt seglum þöndum og gátu eytt 64 milljörðum í sjálfa sig árlega á kostnað lántakenda (áætlaður rekstrarkostnaður skv. skýrslu Samkeppnisstofnunar) Margir vilja halda því fram að verðtryggingin sé ekki vandamálið, hún sé einungis afleiðing viðvarandi verðbólgu. Gæti ekki allt eins verið að vegna verðtryggingarinnar fær verðbólgan að vaða áfram óbeisluð? Fólk má heldur ekki gleyma því að þótt fjármálastofnanir og lánveitendur aðrir treystu því, að allir fjármálagjörningar væru öruggir í umhverfi verðtryggingar, þá féllu bankarnir og lífeyrissjóðir töpuðu stórfé í Hruninu. En þeir sem af ýmsum ástæðum tóku lán á þessum kjörum á áðurnefndu tímabili hafa margir glatað eigin fé, sitja í yfirveðsettum eignum eða eru eignalausir. Heimili jafnt sem fyrirtækin gátu einfaldlega ekki staðið undir þessu vaxtastigi sem spannst upp við þær aðstæður sem urðu og komu lántakendum algjörlega að óvörum.
Ég treysti Hægri grænum, flokki fólksins, til að leysa vanda heimila og fyrirtækja og gera þær hliðarráðstafanir sem nauðsynlegar eru til að hér verði heilbrigt efnahagslíf til frambúðar. Þá geta allir landsmenn átt hér góða ævi í gjöfulu landi en ekki aðeins forréttindastéttir.
Sigurður Ingólfsson
á lista Hægri grænna í Reykjavík suður
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.