Klisjan um strandveiðarnar
Nýjasta klisjan í umræðunni þessa dagana er sú að strandveiðar séu svo óarðbær útgerðarflokkur að það borgi sig ekki fyrir samfélagið að láta þær viðgangast. Hefur meira að segja ASÍ lagst á þessa sveif svo undarlega sem það nú annars hljómar.
Já, það er engu líkara en strandveiðarnar séu lagðar í einelti, því nú keppist hver að éta upp eftir öðrum fullyrðingarnar sem ekki fá staðist um óarðbærni, léleg aflagæði, streð og puð. Þessar fullyrðingar fá ekki staðist tölfræðileg gögn.
Svokölluð „framlegð“ (EBIDTA) strandveiðanna á síðasta ári var 14,6% , samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar. Þess má til samanburðar geta að framlegð iðnaðar í heiminum er að meðali 15%.
Digurbarkalegar yfirlýsingar um léleg aflagæði strandveiðibáta fá heldur ekki staðist nánari skoðun. Úttekt sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið lét gera á aflagæðum strandveiðibáta í fyrrasumar leiðir í ljós að afli þeirra er sambærilegur við afla annara smábáta. Enn fremur að aflameðferð strandveiðibáta hafi batnað að mun.
Þetta hvort tveggja rímar við úttekt sem Háskólasetur Vestfjarða gerði um reynsluna af strandveiðunum eftir sumarið 2009. Þar kom fram að afli strandveiðibáta væri síst lakari og í mörgum tilvikum betri en afli stærri báta, reynslan af veiðunum væri góð og þær hefðu reynst lyftistöng fyrir atvinnu- og mannlíf í sjávarbyggðum.
Strandveiðar eru hrein viðbót við atvinnuflóruna inna sjávarútvegsins. Þær eru sá angi atvinnugreinarinnar sem býður einna helst upp á jafnræði og atvinnufrelsi, auk þess sem veiðarnar eru líklega þær vistvænustu sem völ er á. Fremur er ástæða til að auka þær en minnka við núverandi aðstæður, enda viðbúið að aukið frjálsræði þessara veiða gæti skapað milljarða í gjaldeyristekjur og mörghundruð störf sem jafnvel gætu hlaupið á þúsundum.
Markaðir erlendis kalla mjög eftir hráefni sem er upprunavottað og að stundaðar séu vistvænar veiðar. Þessari eftirspurn getur strandveiðiflotinn fyllilega mætt.
Á þetta er vert að minna, nú þegar strandveiðar sumarsins eru að hefjast og líf að færast í hafnir landsins að nýju. Á sjöunda hundrað báta halda nú til veiða líkt og í fyrrasumar. Þá voru landanirnar 15637 og 8561 tonn af fiski komu að landi.
Það munar um minna.
Ólína Þorvarðardóttir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.