Jöfnun rafmagns- og húshitunarkostnaðar

Með tilliti til byggðasjónarmiða og jafnræðis til búsetuvals, er ekki verjandi að verð á jafn mikilvægum nauðsynjum og rafmagni og heitu vatni til húshitunar skuli vera jafn breytilegt milli landsvæða og raun ber vitni. Það er nauðsynlegt að endurskoða núverandi löggjöf og hefur Framsóknarflokkurinn lagt fram á Alþingi tillögur um hvernig jafna megi búsetuskilyrði hvað þennan þátt snertir.

 Jöfnunarkerfið virkar ekki í dag

Núgildandi kerfi við jöfnun rafhitunar virkar þannig að iðnaðarráðherra ákveður upphæð niðurgreiðslna eftir samþykkt fjárlaga ár hvert. Slík ákvörðun er ekki einföld þar sem endurskoðunarákvæði niðurgreiðslu á hverja kílóvattstund er ekki bundin fyrirfram gefnum ramma og þarf því að byggjast á mati. Kerfið er þungt í vöfum og með því að ráðherra ákveði tiltekna fjárhæð fyrir ákveðið tímabil, nær kerfið ekki að mæta örum breytingum á verði nema með sífelldri endurskoðun.

Dreifing raforku er niðurgreidd á nánar tilgreindum svæðum með það að markmiði að stuðla að jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku til almennra notenda. Ráðherra ákveður í reglugerð ákveðna krónutölu á hverja kílóvattstund sem niðurgreiðsla dreifingarkostnaðar á að vera og þarf í þeim efnum að reyna að sjá fyrir verðþróun komandi mánaða. Reynist mat ráðherra ekki rétt þarf að breyta reglugerðinni í samræmi við þróunina.

Af þessu má sjá að kerfinu er í raun handstýrt af ráðherra og ber það þess merki að verið er að elta óhjákvæmilegar verðlagsbreytingar. Það hefur það m.a. í för með sér að kostnaður notenda á þeim svæðum þar sem dreifing raforku er niðurgreidd hefur aukist vegna þess að niðurgreiðslan hefur ekki náð að halda í við verðþróun.

Jöfnunarsjóður vegna húshitunar- og raforkukostnaðar

Við höfum fyrirmynd af því hvernig hægt sé að tryggja jöfnuð án beinnar aðkomu ráðherra eða ríkisstjórnar. Í dag er starfræktur flutningsjöfnunarsjóður olíuvara sem er fjármagnaður með sérstöku flutningsjöfnunargjaldi á allar olíuvörur sem fluttar eru til landsins. Neytendastofa ákveður á þriggja mánaða fresti hversu hátt gjaldið er og skal gjaldið nægja til að greiða flutningskostnað á olíuvörum milli staða innan lands.  Þær tillögur sem Framsóknarflokkurinn hefur lagt fram á Alþingi fela í sér að komið verði á fót sambærilegum jöfnunarsjóði fyrir húshitunarkostnað og kostnað við dreifingu á raforku. Gert er ráð fyrir því að sjóðurinn yrði fjármagnaður með jöfnunargjaldi á hverja framleidda einingu af orku, raforku eða jarðvarmaorku, sem næmi þeim kostnaði sem nauðsynlegur er á hverjum tíma til að niðurgreiða að fullu húshitunarkostnað og kostnað við dreifingu raforku. Þannig væri mögulegt að ná fullkominni jöfnun á kostnaði á landsvísu. Nái tillagan fram að ganga yrði skref stigið í rétta átt varðandi aukið byggðajafnrétti á Íslandi.

Ásmundur Einar Daðason
Alþingismaður Framsóknarflokksins

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir