Jákvæðu hliðarnar :: Áskorandapenni Anna Margrét Jónsdóttir Sölvabakka
Nú í vetur hef ég verið virkur þátttakandi í svokölluðum hundahittingum sem haldnir eru á sunnudagskvöldum í reiðhöllinni á Blönduósi. Bjarki á Breiðavaði heldur utan um þessar samkomur og vil ég koma á framfæri þakklæti fyrir það óeigingjarna starf sem hann innir af hendi.
Hann mætir þarna í hverri viku með kindur og er boðinn og búinn að aðstoða okkur misfæra hundaeigendur í að reyna að temja okkar misgáfulegu hunda. Hann hvetur okkur áfram og er duglegur að finna og benda á jákvæðu hliðarnar, hvernig sem hundurinn (já eða ekki síður eigandinn.....) stendur sig.
Hún Skrúfa mín, sem fræg er orðin í héraðinu eftir síðasta Hreppablót, er mikið átaksverkefni. Ég hugsa stundum að ef ég væri nú jafn dugleg og orkumikil og hún, þá væri miklu komið í verk á bænum. Þó gæti það verið tvíbent þegar þess er minnst sem ég heyrði einu sinni fleygt; að duglegir vitleysingar væru þeir verstu, því þeir gætu komið svo mikilli vitleysu í verk á skömmum tíma. Það liggur þó ljóst fyrir að ég verð að reyna að tjónka eitthvað við hana, því eins og Bjarki sagði um daginn, þá er hún bara orðin hluti af samfélaginu.
Nú er það svo að hundar hafa, alveg eins og við mannfólkið, sínar sterku og veiku hliðar. Sumir eiga erfiðara með að hlaupa til hægri en vinstri eða öfugt. Sumir fara of hratt en aðrir eru feimnir og þurfa hvatningu. Allt er þó hægt að þjálfa með þolinmæði og þar sem maður situr á bekknum og fylgist með hundaeigendum þjálfa hunda sína getur maður ekki annað en velt fyrir sér hvort ekki sé hægt að þjálfa okkur mannfólkið betur hvað okkar styrkleika og veikleika varðar. Getum við ekki oftar hvatt þá sem alltaf hlaupa til hægri til að fara stundum til vinstri, ýtt við þeim sem þurfa hvatningu og fengið þá sem fara full geyst til að staldra aðeins við áður en anað er út í vitleysu. Fyrst og fremst þurfum við þó að taka Bjarka okkur til fyrirmyndar, að einblína á jákvæðu hliðarnar hvert á öðru og muna að öll erum við hluti af samfélaginu.
Ég skora svo á minn gamla félaga, Þórð Pálsson frá Sauðanesi, til að taka við áskorendapennanum og láta okkur heyra það...
Áður birst í 13. tbl. Feykis 2023
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.