Jafnréttismál eru byggðamál!
Tilefni þessarar greinar er bókun Sigurjóns Þórðarsonar á fundi sveitarstjórnar 25. janúar sl. þar sem verið var að samþykkja Jafnréttisáætlun Sveitarfélagsins Skagafjarðar fyrir árin 2012 – 2014 en bókunin hljóðar svo: „Sigurjón Þórðarson sveitarstjórnarfulltrúi Frjálslyndra og óháðra greiðir þessari áætlun ekki atkvæði sitt. Ég hef ekki orðið var við að Sveitarfélagið Skagafjörður hafi mismunað einstaklingum á grundvelli kynferðis eða að sveitarfélagið líði með neinum hætti kynbundið ofbeldi. Það er því ekki sérstök ástæða til þess að leggja fram ítarlega áætlun um aðgerðir og mikla fjármuni í verkefnið. Nærtækara væri að sveitarfélagið notaði sína krafta og færi í markvissa vinnu sem miðaði að því að snúa við neikvæðri íbúaþróun í Sveitarfélaginu Skagafirði, en frá árinu 1999 hefur íbúum yngri en fertugt fækkað um 356 á meðan íbúum í sveitarfélaginu hefur fækkað um 103 á sama tímabili“.
Það er hreint með ólíkindum að maður eins og Sigurjón Þórðarson sem setið hefur í sveitarstjórn í nokkur ár og á Alþingi Íslendinga eitt kjörtímabil, verið þar nefndarmaður í Félagsmálanefnd, Allsherjarnefnd og fleiri nefndum, skuli ekki vera betur að sér í þeim lögum og reglugerðum sem gilda um jafnréttismál hér á landi og umræðum um jafnréttismál. Öllum sveitarfélögum á landinu er gert að setja sér jafnréttisáætlanir sbr. lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla no. 10/2008 en þar segir í 12 gr. „Hver jafnréttisnefnd skal hafa umsjón með gerð jafnréttisáætlana til fjögurra ára, þar sem m.a. komi fram hvernig unnið skuli að kynjasamþættingu á öllum sviðum ásamt framkvæmdaáætlun um það hvernig leiðrétta skuli mismun á stöðu kvenna og karla innan sveitarfélagsins. Jafnréttisáætlanir skulu lagðar fram til samþykktar í viðkomandi sveitarstjórn eigi síðar en ári eftir sveitarstjórnarkosningar“. Það er rétt að sveitarfélagið hér ætti að hafa áhyggjur af neikvæðri íbúaþróun en þá langar mig til að benda Sigurjóni Þórðarsyni á að jafnréttismál eru byggðamál! Athygli hefur verið beint að þeim þætti æ meir hin síðari ár. Víða í löndunum í kringum okkur hafa stjórnvöld miklar áhyggjur af þeirri þróun sem er að verða í dreifðari byggðum þar sem ungt fólk flytur til stærri borga til að leita sér menntunar og snýr ekki til baka. Fámennari byggðarlög á Íslandi og víðar á Norðurlöndunum einkennast af fólksfækkun og hækkandi aldri íbúanna. Oft eru það ungu konurnar sem flytja burt af svæðunum til stærri staða og karlmennirnir verða eftir. Sagt er að breiðara og meira framboð varðandi menntun, atvinnu og afþreyingu togi í konur til stærri þéttbýlisstaða og ýti í burtu frá dreifbýlum svæðum vegna skorts á atvinnutækifærum þar sem vinnumarkaður landsbyggðarinnar einkennist af vinnu fyrir karlmenn. Verði ekkert gert til að spyrna við þessari þróun verður samsetning í dreifðari byggðum sú að samfélögin samanstanda af einhleypum karlmönnum og eldra fólki sem hætt er að vinna, fæðingum fækkar og samfélögin hrynja innanfrá. Tölur hér á landi sýna að konur eru mun fleiri í framhalds- og háskólum landsins en karlar. Samkvæmt tölum Hagstofunnar fyrir árið 2011 voru konur 55,9% allra skráðra nemenda; 52,0% skráðra nemenda á framhaldsskólastigi og 62,5% skráðra nemenda á háskólastigi. Varðandi íbúatölur þá hefur körlum á aldrinum 20 – 39 ára í Norðvestur kjördæminu norðan Skarðsheiðar fækkað sl. 10 ár um 13,1% en konum á sama tíma fækkað um 15,5%. Hér í Sveitarfélaginu Skagafirði hefur fólki í þessum aldurshópi fækkað um tæp 11% á sama tíma og hér hefur líka verið meiri fækkun kvenna í þessum aldurshópi en karla, þó munurinn sé ekki mikill þá er hann til staðar. Í viðamikilli rannsókn Félagsvísindastofnunar árið 2008 kom í ljós að um er að ræða 38% kynbundinn launamun á landsbyggðinni á meðan munurinn er 10,3 % á höfuðborgarsvæðinu. Á höfuðborgarsvæðinu eru konur með 9,3% lægri heildarlaun en karlar og 12,8% lægri grunnlaun. Á landsbyggðinni eru konur með 27,5% lægri heildarlaun en karlar og 22,8% grunnlaun. Um er að ræða leiðréttan mun á launum sem aðeins er hægt að skýra með kyni. Jafnréttisfræðsla í skólum er líka byggðamál og hefur heilmikið með að gera að uppræta hefðbundnar staðalímyndir kynjanna og kynskiptan vinnumarkað. Í nýlegri rannsókn sem gerð var hér á landi kom í ljós að viðhorf unglinga til jafnréttis kynjanna eru íhaldssamari en þau voru árið 1992. Ég fagna því að Sveitarfélagið Skagafjörður sé búið að samþykkja nýja Jafnréttisáætlun sem gildir næstu 3 árin því það er trú mín að fjármunum sem varið er til jafnréttismála sé vel varið til styrkja og efla byggð í sveitarfélaginu.
Elín Gróa Karlsdóttir
Formaður Framsóknarfélags Skagafjarðar
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.