Jafnréttisáætlun Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2012 – 2014

Nú hefur verið samþykkt í sveitarstjórn Skagafjarðar jafnréttisáætlun fyrir sveitarfélagið sem gildir árin 2012-2014. Gerð jafnréttisáætlana og framkvæmd þeirra er skylda sveitarfélagana samkvæmt íslenskum lögum. Hér á eftir fer grein til kynningar á þessari áætlun en hana má nálgast í heild sinni á vef sveitarfélagsins skagafjordur.is.

Jafnréttisáætlun er samansafn formlega samþykktra áætlana um aðgerðir sem hafa jafnan rétt og jafna stöðu karla og kvenna að markmiði.  Jafnrétti hefur með tímanum þróast þannig að nauðsynlegt er að grípa nú til sértækra aðgerða til þess að laga ímynd þess. Tilgangur þessarar jafnréttisáætlunar er því að draga fram mikilvægi jafnréttis fyrir karlmenn ekki síður en konur.  Tilraun til þess er kynning hugtaksins kynjasamþætting sem innleitt var með lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.  Það þýðir í raun að sjónarmið kynjajafnréttis sé á öllum sviðum fléttað inn í stefnumótun og ákvarðanatöku á vegum sveitarfélagsins. Jafnrétti er nú sameiginlegt réttlætismál beggja kynja með velferð þeirra að leiðarljósi. Þannig hefur því verið breytt úr því sértæka verkefni kvenna sem það hefur hingað til hefur verið talið. Eitt af því sem verður að gerast samfara slíkri vinnu er  að vinna gegn stöðnuðum hugmyndum um hlutverk kynjanna (staðalímyndum) sem leggja stein í götu frelsis hvers einstaklings til að fá notið sín í ljósi hæfileika sinna burtséð frá kyni.  Til þess að það takist þarf að virkja leik-, grunn- og framhaldsskóla til meðvitaðrar vinnu um jafnrétti m.a. í ljósi laga þar að lútandi.  Töluverð áhersla er því lögð á eflingu fræðslu og ábyrgðar skólanna í þessari jafnréttisáætlun.

Almenn markmið áætlunarinnar eru að samræma áherslur í ákvarðanatöku og markmiðssetningu sveitarfélagsins við kröfur laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Einnig að bæta ímynd jafnréttis og vinna gegn áhrifum neikvæðra staðalímynda (kynjafordóma) karla og kvenna á lífsgæði. Þá er, eins og áður sagði, innleiðing hugtaksins kynjasamþætting hluti áætlunarinnar og að það sé notað sem tæki til að draga fram mikilvægi jafnréttis fyrir bæði karla og konur. Sérstök áhersla er einnig lögð á það við grunnskóla sveitarfélagins, að þeir vinni markvisst að eflingu fræðslu um jafnréttismál, með áherslu á jafnrétti sem hagsmunamál karla ekki síður en kvenna og  um leið vinnu gegn neikvæðum staðalímyndum kynjanna. Skólarnir eru gerðir ábyrgir fyrir þeirri jafnréttisfræðslu sem þar fer fram og eiga að setja sér áætlanir þar að lútandi ásamt því að gera grein fyrir þeirri fræðslu sem til þessa málflokks má telja. Í  23. grein laga  laga nr. 10/2008 segir að ,,á öllum skólastigum skulu nemendur hljóta fræðslu um jafnréttismál þar sem m.a. skal lögð áhersla á að búa bæði kynin undir jafna þátttöku í samfélaginu, svo sem í fjölskyldu- og atvinnulífi.“

Meðal annarra ákvæða áætluninnar má nefna að  Sveitarfélagið Skagafjörður tekur skýra afstöðu gegn kynbundnu ofbeldi.  Sveitarfélagið Skagafjörður skal einnig leggja áherslu á að veita stúlkum og drengjum sömu tækifæri til tómstunda-, menningar- og íþróttastarfs.  Frjáls félagasamtök skulu eindregið hvött til hins sama.  Kynin sitji jöfn  að fjárveitingum á vegum sveitarfélagsins til slíkra starfa og iðkunar.  Þess skal gætt að stúlkur og drengir hafi sömu möguleika til sumarstarfa og annarra verkefna á vegum sveitarfélagsins. Áhersla skal lögð á að fréttafluttningur og umfjöllun á vefsíðu sveitarfélagsins taki mið af jafnréttissjónarmiðum.

Öllum ákvæðum jafnréttisáætlunarinnar er fylgt eftir með greiningu verkþátt, hver ber ábyrgð á framkvæmd þeirra og tímasetningu á því hvenær verkefninu skal lokið. Slík framkvæmdaáætlun er nauðsynleg til þess að eftirfylgni sé tryggð. Framkvæmdaáætlunina mun félags-og tómstundanefnd yfirfara í janúar hvert ár, en heildarendurskoðun fer  fram annað hvert ár um leið og unnin er skýrsla fyrir Jafnréttisstofu um stöðu og þróun jafnréttismála innan sveitarfélagsins.

Það er von meirihluta sveitarstjórnar Skagafjarðar að þessi áætlun verði gott innlegg í jafnréttis-og mannréttindaumræðu á Íslandi.  Hún er vel til þess fallin þar sem hér kveður við nýjan tón með áherslunni á nauðsynlega samvinnu karla og kvenna þegar kemur að jafnréttismálum. Með virkri umræðu og eflingu fræðslu meðal barna-og unglinga getum við tryggt áframhaldandi heilbrigði samfélagsins okkar og unnið gegn þeim staðímyndum sem flokka fólk eftir kyni en ekki hæfileikum.

Arnrún Halla Arnórsdóttir, formaður félags-og tómstundanefndar sveitarfélagsins Skagafjarðar

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir