Íbúalýðræði - Inga Katrín D. Magnúsdóttir

Ýmislegt kemur upp í hugann þegar ég hugsa um mitt nánasta umhverfi, Skagafjörðinn. Margt af því sem er að gerast í kringum okkur er framúrskarandi, annað síður en svo. Hægt væri að ræða fjölmörg verkefni og ýmsar áskoranir sem við íbúarnir stöndum nú frammi fyrir, en það sem sækir hvað fastast að mér þessa stundina er hugtakið íbúalýðræði.

Íbúalýðræði
Hugtakið lýðræði þekkja flestir, en þá liggur vald í stjórnskipulagslegum skilningi á einn eða annan hátt hjá almenningi. Gunnar Helgi Kristinsson fjallar um íbúalýðræði í ritinu Leiðsögn um lýðræði í sveitarfélögum. Hann segir: „Íbúalýðræði er samheiti yfir þær aðferðir sem notaðar eru við að virkja íbúa til þátttöku í einstökum málefnum eða málaflokkum sveitarfélaga.“ (bls. 12). Tilgangur þess er að opna íbúum leiðir til þess að koma skoðunum sínum á framfæri og hafa áhrif á undirbúning og ákvarðanatöku eða einstök málefni. Samráð við íbúa má greina í þrjá flokka. Í fyrsta lagi er kynning, þar sem áætlanir eru kynntar fyrir íbúum og þeir fá tækifæri til að gera athugasemdir þó þeir hafi ekki endilega vald til að breyta ákvörðunum. Í öðru lagi er samstarf, en þá fá íbúar tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og virkilega hafa áhrif, t.d. með ráðgefandi atkvæðagreiðslum. Í þriðja lagi er valdaframsal sveitarstjórnar, en þá láta kjörnir fulltrúar valdið í hendur íbúa eða samráðsvettvangs í ákveðnum málum (valdaframsal er þó bundið takmörkunum skv. lögum). Markmið íbúalýðræðis er að færa íbúum hlutdeild í ákvarðanatöku sem hefur áhrif á líf þeirra og nærumhverfi. Með samvinnu milli kjörinna fulltrúa í sveitarstjórn og íbúanna getur náðst betri sátt um framkvæmdir og ákvarðanaferli, sem leiðir af sér meiri ánægju meðal íbúa.

102-108 gr. sveitarstjórnarlaga fjallar um samráð við íbúa í lagalegu samhengi. Er það margt áhugaverð lesning og rímar að miklu leyti við þá umfjöllun sem hér kom á undan. Þar segir m.a. “Sveitarstjórn skal upplýsa íbúa sína um áætlanir sem sveitarfélag hefur til meðferðar og ákvörðunar og varða þá með almennum hætti. Sama gildir um einstök mál sem hafa verulega þýðingu fyrir sveitarfélagið. Sveitarstjórn skal leitast við að veita íbúum upplýsingar um áhrif slíkra mála og áætlana á þjónustu sveitarfélags til skemmri og lengri tíma, fjárhag sveitarfélagsins, umhverfi og markmið sem að er stefnt.” (Sveitarstjórnarlög nr. 138/2011,10. Kafli/103 gr.)

Hvers vegna viljum við íbúalýðræði?
Nú kunna einhverjir að spyrja, hvers vegna skiptir þetta okkur máli? Hvers vegna finnst okkur mikilvægt að geta komið skoðunum okkar á framfæri og haft áhrif á það umhverfi og málefni sem okkur snertir og breytingar sem að okkur snúa? Ég hafði satt að segja ekki hugleitt þetta mikið þar til í vetur, þegar valdið til að taka þátt í ákvarðanaferlum var tekið af mér. Þegar ég og samstarfsfólk mitt, stóðum allt í einu í þeim sporum að fá ekkert um aðstöðu, framgang eða framtíð vinnustaðarins að segja. Þegar við æptum út í tómið og fengum aðeins bergmál til baka. Ég er hér að vísa til stöðu Byggðasafns Skagfirðinga. Safnsins OKKAR. Við fengum ekki að vera þátttakendur í þeim breytingum sem yfirmenn okkar í sveitarfélaginu hrintu í framkvæmd. Við fengum ekki að fylgjast með framgangi þeirra áætlana og breytinga sem okkur snerti. Í stað þess að fá upplýsingar frá sveitarstjórninni, fréttum við það í fjölmiðlum að safnið okkar á Sauðárkróki væri gott sem heimilislaust til næstu ára. Hvar var upplýsingagjöfin? Hvar var samvinnan? Hvar var kynning á breytingunum, áhrifum þeirra og markmiðum? Hvar var samráðið? Hvar var lýðræðið?

Hvað er til ráða?
Á tímum upplýsingasamfélagsins gengur ekki að leyna upplýsingum og vinna mál sem snerta almenning fyrir luktum dyrum. Sveitarstjórnarmenn eru þjónar íbúanna. Vinnum af heiðarleika. Opnum umræðuna og tölum við þá sem málin snerta. Köllum til samráðs og samvinnu við íbúa svæðisins. Krefjumst þess að upplýsingar um verkefni og fjármögnun þeirra séu okkur aðgengilegar. Þetta kemur okkur við. 

Við getum gert betur. Við verðum að gera betur. Við munum gera betur.

Inga Katrín D. Magnúsdóttir

Höfundur skipar 6. sæti VG og óháðra.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir