Í fullorðinna manna tölu - Kristinn Hugason skrifar
Í tilefni þess að það tölublað Feykis sem þessi grein birtist í er helgað fermingum ársins ætla ég að leggja lykkju á þá leið mína að fjalla um hin ólíku hlutverk íslenska hestsins og skrifa hér ögn um hesta í tengslum við fermingar. Í næsta pistli mun ég svo halda áfram þar sem frá var horfið í skrifunum og fjalla um reiðhesta. Reiðhesturinn, sem á hæsta stigi kosta sinna kemst í hóp gæðinga, stóð enda eflaust mörgu fermingarbarninu ljóslifandi fyrir hugskotssjónum, ýmist í raunveruleikanum eða sem draumsýn.
Okkur nútíma fólki reynist iðulega erfitt að setja okkur í spor genginna kynslóða. En vissulega átti fyrri tíðar fólk sínar hátíðarstundir rétt eins við núna, einn af helstu hápunktunum í lífi hvers einstaklings var og er fermingin. Þá var talað um að viðkomandi væri kominn í „fullorðinna manna tölu“, það hljómar kannski æði fjarlægt í dag, þegar sjálfræði að lögum fæst ekki fyrr en við átján ára aldur og margir fara ekki að heiman fyrr en komið er vel fram á þrítugsaldurinn en það er annað mál. Umræðuefnið hér er hesturinn og ferminginn.
Ekki er nokkur vafi á því að hestar og fermingar var samþætt fyrr á tíð og svo er enn í fjölskyldum þar sem hestamennska er stunduð, einkum þó ef fermingarbarnið er verulega hesthneigt.
Ríðandi komu þeir, sem nokkuð áttu undir sér, til fermingarmessunnar og jafnvel á gæðingum og allir svo búnir sem efni framast leyfðu. Einnig er næsta víst að reiðtygi og útbúnaður, s.s svipur o.þ.h. hefur verið algeng fermingargjöf. Einnig hestar en þá kannski oftar folar eða tryppi frekar en fullorðin hross.
Í því sambandi er gaman að geta þess að þegar ég var að velta fyrir mér efni þessarar greinar, veitti ég því athygli að í minningargrein sem ég renndi yfir í Morgunblaðinu og birtist þar laugardaginn 23. mars sl. um sómamannninn, Frímann Þorsteinsson á Syðri-Brekkum, rituð af nágrannakonu hans, Helgu Bjarnadóttur frá Frostastöðum, segir á hugljúfan hátt frá fermingardegi hans. Þar segir: „Frímann minntist fermingardagsins með mikilli ánægju. Fóstra hans gaf honum þriggja vetra hryssu og fóstri hans gaf honum tveggja vetra fola, sem var hans draumahestur. Heimilisfólkið gaf honum 500 kr. sem nægði fyrir hnakk og beisli. Þessi minning var honum kær.“ Þetta er falleg saga úr sveitinni þar sem mannlífið og skepnuhaldið, þar með talin hestamennskan, var samofin.
Í bókinni, Í söngvarans jóreyk sem eru æviminningar Sigurðar Ólafssonar hestamanns og söngvara, skráð af Ragnheiði Davíðsdóttur, er frásaga af baráttu Sigurðar við að eignast sinn fyrsta hest en Sigurður varð snemma hugfanginn af hestum og hestamennsku. Honum tókst að komast yfir beisli og hnakk fyrir sendilslaun o.þ.h. Skúr áfastan húsinu þar sem þau bjuggu í Reykjavík hafði Sigurður og dittað að með kassafjölum og heyjað smábletti hér og þar í nágrenninu og átti því nokkuð af heyi. Nú vantaði bara hestinn, grípum niður í minningar söngvarans:
„Möguleikann eygði ég þegar líða tók að fermingu haustið 1929. Ég hafði reiknað út að ef ég fengi jafn mikla peninga í fermingargjöf og bræður mínir höfðu fengið [Jónatan Ólafsson sem varð landsþekktur hljómlistamaður og Erling Ólafsson sem var efni í stórsöngvara en lést ungur úr tæringu] myndi ég eiga nóg fyrir þokkalegum hesti. Þess vegna bað ég hátt og í hljóði að ættingjar mínir myndu fremur gefa mér peninga en einskis nýta hluti. Það lá við að ég bæri kala til þeirra sem gáfu mér bindi, skyrtuhnappa, úr, frakkaskildi og þvílíka hluti í fermingargjöf. Ég vildi bara beinharða peninga til þess að eiga fyrir hesti!“
Síðan segir Sigurður: „Ég man lítið frá sjálfri fermingarathöfninni utan þess að sr. Friðrik Hallgrímsson fermdi mig. Spenningurinn var allur tengdur því hversu mikla peninga ég hefði upp úr krafsinu. Ég var því ekki lítið glaður þegar ég komst að því að mér höfðu áskotnast heilar 135 krónur í fermingargjöf. Þá var hesturinn í höfn og aðeins eftir að velja gripinn.“
Staðan á hrossamörkuðunum var þá aldeilis önnur en hún er í dag, ónógt framboð var af hestum (!). Þannig að Sigurður náði loks að kaupa fola úr hópi útflutningshrossa sem ekki komust í tæka tíð til skips og voru því seld hinum og þessum. Tamningin mistókst hins vegar, um það segir Sigurður: „Það lengsta, sem ég komst með hann, var að gera hann að illgengum klárhesti án þess að ná nokkurn tímann tölti í hann. Tamningin kostaði mig slæma byltu og eymsli í öxl sem hafa háð mér alla tíð síðan.“
Tvennt til viðbótar tekur Sigurður þó fram um þennan fermingarfola sinn, sinn fyrsta hest. Annað var að hann náði að hirða hann með þeim hætti að hann fékk aldrei flórlæri, sem var afrek hjá ungum pilti við frumstæðar aðstæður. Sigurður varð líka alla sína tíð í alfremstu röð fagmanna í hestamennsku; skeiðkóngur Íslands og slíkt snyrtimenni að hvítu hrossin frá Laugarnesi gljáðu af hreinleika. Hitt var svo að hann áttaði sig á að meira var spunnið í folann en honum auðnaðist að ná fram, um það sagði Sigurður: „mér tókst að skemma hann með of mikilli reið.“ Það lét Sigurður sér að kenningu varða og hafði síðan alla tíð mikið lag á að ná upp og viðhalda snerpu í hrossum. Sannast þar hið fornkveðna, meira vinnur vit en strit. Gildir það svo sannarlega í tamningu og þjálfun hrossa.
Kristinn Hugason
Áður birst í 13. tbl. Feykis 2019
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.