Hverjir hafa fengið brauðmolana?

Sjávarútvegsráðherrann er fundvís á einkennilegar yfirlýsingar. Í gær hélt hann því fram að lækkun veiðigjaldsins í sumar kæmi sér sérstaklega  vel fyrir minni sjávarbyggðir landsins.  Rök hans eru þau að lækkun veiðigjaldsins til ríkisins bæti fjárhag útgerðarfyrirtækjanna. Það geri þeim kleift að fjárfesta meira og þannig sáldrist ávinningurinn eins og brauðmolar yfir minni sjávarbyggðirnar. 

Að fáeinum sjávarplássum undanskildum, sem eru teljandi á fingrum annarra handar,  hefur atvinnu- og íbúaþróunin síðustu 20 árin verið slæm og í mörgum þeirra hreint skelfileg. Ekki verður veiðigjaldinu um kennt. Frá upphafi kvótakerfisins til 2003 var ekkert gjald greitt fyrir veiðiréttinn. Veiðigjaldið var fyrst lagt á árið 2004 og fram til 2011 var það svo lágt að það skipti engum sköpum um afkomu útgerðarfyrirtækja, enda  var það öll árin minna en 2% af tekjum. Veiðigjaldið var innan við 1 milljarður til 2008, um tveir milljarðar króna  hvort ár 2009 og 2010 og 3.7 milljarðar kr. árið 2011.

Fyrst ráðherrann telur að lækkun veiðigjaldsins í ár muni skila sér í öflugra atvinnulífi í minni sjávarbyggðum landsins vakna þær spurningar hvers vegna hallaði undan fæti í þessum sömu byggðum frá 1983 til 2003 þegar ekkert veiðigjald var innheimt og hvers vegna ástandið  skánaði ekkert frá 2004 til 2011 þegar  veiðigjaldið var umtalsvert lægra en það gjald sem ráðherrann hefur fengið samþykkt? Hvert fóru brauðmolarnir þessi 28 ár? Ekki til þess að greiða sómasamleg laun í fiskvinnslu.

Opinberar skýrslur, eins og frá  Rannsóknarstofnun Háskólans á Akureyri, staðfesta að fjárfesting í sjávarútvegi var lítil í öðru en kvótakaupum. Það má líka lesa út úr þeim skýrslum að hagnaður af kvótasölu hefur verið gríðarlegur og finna  má í velfestum minni sjávarbyggðum landsins dæmi um það. En gróðinn hefur ekki sáldrast eins og brauðmolar yfir íbúana heldur horfið ofan í vasa örfárra og horfið þaðan sjónum manna og jafnvel skattyfirvalda. Hvaða ástæða er til þess að ætla að annað verði upp á teningnum  að þessi sinni?

Það  er fyrst á síðasta ári að veiðigjaldið er hækkað sem einhverju nemur og verður þá um 10 milljarðar króna. Það samsvarar um 6% af heildartekjum útgerðarinnar. Sé hins vegar litið til sjávarútvegsins í heild, sem er ekki óeðlilegt í ljósi þess hversu veiðar og vinnsla eru samtvinnaðar og oft á sömu hendi, sést að auðlindagjaldið er aðeins 3.7% af útflutningstekjunum í fyrra. Það er sama á hvaða mælikvarða gjaldið er metið, það verður alltaf mjög lágt. Það er til dæmis mjög lágt í samanburði við veiðigjaldið sem útgerðarmenn sjálfir innheimta þegar þeir framleigja veiðiréttinn öðrum. Markaðsverðið um þessar mundir er 11 sinnum hærra en veiðigjaldið, um 192 kr/kg af þorski þegar veiðigjaldið til ríkisins er  rétt innan við 17 kr/kg.

Þetta markaðsverð er engin tilviljun. Bankastjóri Landsbankans hefur gert grein fyrir mati bankans á getu sjávarútvegsins til þess að greiða fyrir kvótann. Árið 2011 taldi bankinn að blönduð útgerð skilaði 245 kr upp í fjárfestingu og fjármagn (EBITDA) af hverju þorskígildiskg. Þessi afkoma myndi lækka, að mati Landsbankans, niður í 199 kr þegar áformin um hækkun veiðigjaldsins væri komin að fullu til framkvæmda. Verra var nú ekki mat helsta viðskiptabanka sjávarútvegsins áhrifum veiðigjalds síðustu ríkisstjórnar. Það væri fróðlegt að fá mat Landsbankans núna, 2013, til þess að bera saman við markaðsverðið á leigumarkaðnum, en ég er nokkuð viss um að það er ekki fjarri 192 kr/kg.

Það er vert að benda á að samband er á milli veiðigjaldsins og almenns leiguverðs á kvóta.  Hækkun veiðigjaldsins kemur fram í lækkun kvótaleigunnar. Sama hefur gerst nú í haust eftir lækkun veiðigjaldsins. Meðalverð á þorskkg var 6 kr hærra í september en í maí sl, svo ljóst er að af 16 kr lækkun gjaldsins fara 6 kr til þeirra sem hafa tekjur af því að leigja kvóta. Ekki munu þessar auknu greiðslur fyrir leigukvóta sáldrast yfir minni byggðarlögin og bæta kjör fólks þar. Þvert á móti, það verða máttarstólpar í pólitísku eignarhaldsfélagi stjórnarflokkanna sem hirða gróðann. Það verða ekki einu sinni brauðmolar sem falla til minni byggðarlaganna.

Kristinn H. Gunnarsson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir