Hvað gerir nýr sjávarútvegsráðherra?
Ætli við séum heppin að hafa fengið nýjan sjávarútvegsráðherra, sjálfan formann VG? Ég veit það ekki en vonandi dugar hann betur en burthrakinn Jón Bjarnason sem oftast var eins og ný kominn innan úr kú og vissi ekki hvaðan stóð á hann veðrið.
Áður en nýi sjávarútvegsráðherrann ræðst í breytingar á kvótakerfinu eins og hann hefur reyndar lofað síðastliðin 12 ár ætti hann að láta rannsaka á sem skemmstum tíma hagræn áhrif kvótakerfisins á sjávarþorpin og íbúa þeirra frá því 1984 er kvótakerfið var sett á til bráðabirgða.
Hann ætti að láta rannsaka afleiðingarnar af stórfelldri eignaupptöku í sjávarþorpunum, nauðungarvinnu kvótaleigunnar, félagslegar hörmungar, gjaldþrot fjölskyldna og þjónustufyrirtækja tengdum sjávarútvegi og samfélagslegt hrun fjölda sjávarþorpa.
Hann ætti að láta rannsaka það gríðarlega brottkast sem viðgengist hefur í kvótakerfinu sem sannarlega nemur hundruðum þúsundum tonna og síðast en ekki síst ætti hann að láta rannsaka stórfellt kvótasvindl ýmissa stærstu sjávarútvegsfyrirtækja á landinu sem í krafti stærðar sinnar og óbærilegra skulda ráða yfir nær öllum aflaheimildum innan landhelginnar.
Ef nýi ráðherrann verður ekki við þessum sjálfsögðu hlutum þá er ekki von til þess að vel fari og nær öruggt að hann mun festa kvótakerfið í svo til óbreyttri mynd til frambúðar nema hann hrökklist úr stólnum áður en hann nær að vinna slíkt óhæfuverk.
Níels A. Ársælsson.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.