Hvað finnst þér um að auka fiskveiðar?

Hægri grænir, flokkur fólksins, hefur sett fram nýja stefnu í fiskveiðistjórnun.  Áratugalöng tilraun er mjög umdeild og hefur skapað mikið ósætti og óánægju meðal þjóðarinnar. Afli hefur stöðugt minnkað þrátt fyrir öll vísindi og ráðgjöf Hafró og ekkert er í sjónmáli annað en áframhaldandi óvissa og óánægja.

 

Nýtt kerfi

Hugmyndin er sú að koma á nýrri stjórnun fiskveiða með það markmið að auka veiðar og þjóðhagslegan virðisauka af auðlindinni. Í hnotskurn yrði kerfið þannig:

 

•          Gæða og sölumál verði í fyrirrúmi. Þannig verði hver útgerð að sækja um veiðileyfi sitt byggt á áætlunum hennar um sölumál. Þannig geti veiðidagar verið mismargir á milli tímabila og á þetta einnig að hindra óheftar magnveiðar.

•          Að úthlutað verði árlega botnfiskveiðileyfum á báta á handfærum, sem nýta má að vild frá 1. sumardegi til 1. vetrardags ár hvert. Leyfið verði óháð magni, tegundum og fiskstærð. Rúllufjöldi verði talmarkaður við 4 rúllur á bát og einn eigandi að hverjum báti, sem má ekki eiga fleiri. Stefnt verði að bátar landi afla sínum í heimahöfn.

•          Að úthlutað verði botnfiskveiðidögum til stærri skipa til 3ggja eða 6 mánaða í senn. Leyfið skal miðast við óskir viðkomandi útgerðar um veiðidaga, enda hafi hún sýnt fram á þörfina vegna sölumála sinna. Leyfið verði óháð tegundum, magni og stærð fiskjar.

•          Að settar verði umferðar- og umgengnisreglur s.s. svæðaskipting skipa/veiðarfæra og vegna vertíða.

•          Að sérhæfum veiðum eins og krabbadýra og þar sem alþjóðlegir samningar um deilistofna gilda eins og úthafskarfa og uppsjávarveiðum s.s. á loðnu, makríl, kolmunna og síld verði haldið aðskildum og að þær lúti aflamarksreglum. Að 2/3 uppsjávarveiðileyfa verði úthlutað á skip ár hvert samkvæmt reynslu og 1/3 jafnt á alla eftir særð skipa án tillits til veiðireynslu eða samkvæmt ákvörðun ráðuneytisins miðað við umsóknir og aðstæður hverju sinni. Með þessu ættu smærri útgerðir að hafa möguleika til þess að veiða makríl og síld í ýmis veiðarfæri.

•          Að leyfishafi verði að skila inn leyfinu ef hann hyggst hætta útgerð. Heimilt verði að færa leyfi á milli skipa innan sömu útgerðar. Framsal og veðsetning veiðileyfa og aflakvóta verði óheimil.

•          Að landa skuli öllum afla án tillits til tegundar eða stærðar og sem mest verðmæti gerð úr honum að viðlögðum tafarlausum leyfismissi. Brottkast verði þar með gert útlægt.

•          Að heiðarlegt en ekki ofþyngjandi auðlindagjald verði lagt t.d. að hluta á landaðan afla og að hluta til á nettó hagnað.

•          Að mishátt afgjald, sem rynni til ríkisins, yrði á landaðan afla og væri notað til þess að hefta eða stýra sókn í tilteknar tegundir eftir því, sem við á.

Útfæra þarf smáatriðin og stjórnun og eftirlit verði að vera virk bæði vegna lífríkisins og veiðanna. Lærdómur fenginn af reynslunni verði svo nýttur til frekari útfærslna miðað við aðstæður hverju sinni. Til þess að sporna gegn offjárfestingum, grófum magnveiðum, gæðarýrnun og lögbrotum gæti ráðuneytið hafnað umsóknum, afturkallað leyfi og beitt refsigjöldum eftir atvikum.

Enginn tapar – allir hagnast

Veiðileyfi er ekki verðmæti í sjálfu sér, heldur felast verðmætin í þeim afurðum, sem einhver vill borga fyrir. Með þessari nýsköpun er ekki verið að taka eitt eða neitt frá einum eða neinum og núverandi kvótahafar geta áfram skipulagt veiðar sínar og vinnslu að vild. Þvert á móti verða nú meiri möguleikar á aflaaukningu. Kvótakerfið og reglurnar um það hafa verið afar óvinsæl og gert nýliðun nánast ómögulega. Með þessari nýju tilhögun er vonast til þess að ósætti og óánægja þjóðarinnar hverfi. Verið er að gera allt frjálslegra og aflaaukningar er vænst. Þetta ætti að koma landsbyggðinni til góðs og nýir möguleikar skapast til atvinnu og uppbyggingar. Sjá nánar á www.xg.is

Kjartan Örn Kjartansson
Höfundur er fyrrv. forstjóri

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir