Hvað er til ráða? - Jón Eðvald Friðriksson
Ef gluggað er í upplýsingar á mælaborði, sem finna má á heimasíðu Byggðastofnunar um breytingar á íbúafjölda einstakra sveitarfélaga frá 1. janúar 1998 til 1. janúar 2022, kemur ýmislegt forvitnilegt í ljós. Á þessum 24 árum hefur íbúum í Skagafirði fækkað úr 4.536 í 4.294 eða um 242. Á sama tíma fjölgar íbúum á Akureyri úr15.428 í 19.642 eða um 4.219. Íbúum í sveitarfélögum næst Akureyri þ.e. Eyjafjarðarsveit, Hörársveit og Svalbarðsstrandarhreppi fjölgar einnig á þessum tíma eða úr 1.891 í 2.272 eða um 381.
Auðvitað eru ýmsir þættir sem hafa áhrif á þróun samfélaga og þar með íbúafjölda. Þróun atvinnulífs á hverjum stað hefur mikla þýðingu hvernig til tekst. Til þess að fylla aðeins upp í þá mynd væri forvitnilegt að fá upplýsingar frá Sveitarfélaginu Skagafirði um hvernig starfsmannafjöldi þess hefur breyst á þessum 24 árum og hvernig hann skiptist eftir sviðum í dag. Sveitarfélagið er væntanlega með upplýsingar hvernig önnur opinber störf hafa þróast í héraði á þessum sama tíma og geta væntanlega upplýst það.
Kaupfélag Skagfirðinga er sagt í eigu héraðsbúa og því eðlilegt að óska eftir sambærilegum upplýsingum frá því fyrirtæki þ.e. hvernig fjöldi starfsmanna KS og samstæðufyrirtækja þess og búsetu í Skagafirði hefur breyst á þessum árum og hvernig hann skiptist eftir atvinnugreinum í dag. Einnig væri forvitnilegt að vita hvernig heildarfjöldi starfsmanna KS og samstæðufyrirtækja hafa þróast á þessum árum.
Mér finnst að hin mikla þögn sem ríkir á svæðinu mjög þrúgandi og hefur örugglega áhrif á þessa neikvæðu þróun. Til þess að snúa hlutunum til betri vegar þarf stefnubreytingu, hugsa stærra, opna umræðu og teikna upp alla styrkleika héraðsins og hvernig þeir verða best nýttir.
Með þessum skrifum er ég að kalla eftir opinni umræðu, hugmyndum, mögulegum tækifærum og tillögum hvað hægt er að gera til að tryggja að samfélagið okkar þróist og eflist á komandi árum.
Jón Eðvald Friðriksson
Íbúi í Sveitarfélaginu Skagafirði.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.