Hrútarfjarðarsunds minnst
Þann 25. ágúst sl. var þess minnst á Borðeyri, að 75 ár voru liðin frá því að þrjú ungmenni syntu yfir Hrútafjörð til Borðeyrar, fyrsta sinni. Ekki er vitað til, að það hafi verið gert, fyrr en Ásta Jónsdóttir, Baldur Pálsson og Hulda Pétursdóttir syntu 24. ágúst 1937.
Fjölskyldur þremenninganna hittust í fjörunni og festu þar lítinn skjöld á siglingamerki til minningar um afrekið.
Alls voru samankomnir náægt þrjátíu manns, allt frá bræðrum annarrar sundkonunnar til smábarna. Það sköpuðust því á ný góð kynni milli afkomenda vinanna þriggja. Í hópnum voru tveir, sem bjuggu á Borðeyri á tíma sundsins, og gátu þeir frætt þá yngri um lífið á árunum fyrir stríð, og í stríðinu, þegar á Borðeyri var herstöð.
Sigríður Hjaltadóttir, form. Minjasafns Húnvetninga og Strandamanna
tekur við minningarskjalinu úr höndum Hildar Baldursdóttur, Hinriks Þórhallssonar
og Steinunnar Hjartardóttur.
Snætt var í Tangahúsinu og þar afhentu fulltrúar fjölskyldnanna „Minjasafni Húnvetninga og Strandamanna“ veggspjald til minningar um sundafrekið. Formaður safnstjórnar, Sigríður Hjaltadóttir, tók við gjöfinni og flutti mjög fróðlega tölu um Borðeyri.
Enginn afkomendanna tók áskoruninni um að endurtaka afrekið að þessu sinni, en á staðnum kom upp hugmyndin um að hittast að ári og synda þá, enda í fjölskyldunum margt góðra íþróttamanna. Hver veit?
Hópurinn yfirgaf Borðeyri mun fróðari um staðinn og lífið þar fyrr á tíð, og þakkar heimamönnum frábærar móttökur.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.