Heimþrá :: Áskorandapenni Aron Stefán Ólafsson frá Reykjum í Hrútafirði
Í Borgarnesi, á heimleið barst mér símskeyti frá Ingu á Kollsá. „Má ég senda á þig áskorendapennann í Feyki?“ Leyfðu mér að hugsa… maðurinn sem kann ekki að segja nei, segir að sjálfsögðu já. Hvað getur brottfluttur Húnvetningur, sem lifir í grámyglulegum hversdagsleika Reykjavíkur svo sem skrifað um, jú, auðvitað sveitina sína.
Laufið sem lék sér í sumargolunni er fallið, haustið komið og veturinn nálgast. Í „stórborginni“ Reykjavík getur dimmt og kalt haustkvöld gert sveitapiltinn lítinn og einmana. Hugurinn leitar þá í ræturnar, heim í sveitina, þar sem sumarminningar ylja og lýsa upp sálina.
Ef lífsins gangur bregður braut
brot í sál að sinni,
þá reynist ansi erfið þraut
að gleyma eigin minni.
Leggðu rækt við dýpstu rætur
raunir búa í þeim,
ef svo villast veikir fætur
vísar minning aftur heim.
Þetta er heimþráin, tilfinningin sem maður fann fyrst fyrir í barnæsku og hélt að myndi þroskast af manni, en svo gerðist ekki. Er þetta kannski þráin í æskuna, vorið í lífi manns, þar sem áhyggjurnar voru engar, bara leikur og frelsi. Sveitin er það sem veitir frelsi og öryggi, maður er partur af umhverfinu, ekki partur af umferðinni, eins og hér í Reykjavík. Mikið sem þessi borg getur verið grá og leiðigjörn, því er algjörlega óumflýjanlegt að fara sem oftast heim og endurnæra geðið.
Ef litlaust lífið leikur grátt
og leiðast fer mér leiðinn,
vegviss held í norðurátt
við mér tekur heimreiðin.
Að eiga sína sveit eru forréttindi, að hafa alist upp í sveit eru ennþá meiri forréttindi. Að búa að því sem maður lærði af sveitinni í æsku, veitir manni forskot bæði í leik og starfi. Nálægðin við náttúruna, dýr, bæði vilt og tamin, kennir barni svo ótrúlega margt. Hvernig á að umgangast og eiga samskipti við lifandi verur. Hvernig er hægt að nýta landsins gæði án þessa að ganga á þau og skemma. Það eru svona hlutir sem sveitin skilur eftir í manni, hún er mér kær og mjög mikilvæg.
Hversu ljúft er að eiga þig sællega sveit?
Staður í hjarta fullur minningum þeim
sem frelsið mér færir og það eitt ég veit
að alltaf og ætíð ég kem aftur heim.
Jæja nóg komið af væmnitali og ódýrum kveðskap. Þar sem ég sit hérna heima á Reykjum og skrifa þessi lokaorð, liggur beinast við að kasta boltanum beint yfir fjörð, heim að Kjörseyri, þar sem gleðigjafinn og verðlaunabóndinn Ingimar tekur væntanlega upp léttara hjal.
Áður birst í 42. tbl. Feykis 2022
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.